Gagnsæi, réttlæti, sanngirni hvað?

GagnsæiOkkur er öllum tíðrætt um gagnsæi í kjölfar hrunsins.

Allir tala um gagnsæi og allir vilja gagnsæi. Það þykir sjálfsagt mál. "Gagnsætt og glansandi" eins og hin efnilega Ásta Hlín Magnúsdóttir formaður Sambands ungra framsóknarmanna notaði um daginn.

Hver hefur ekki heyrt talað um raunverulegt gagnsæi og að nú skuli allt vera uppi á borðum! Það virðist hins vegar ekki alveg ljóst uppi á hvaða borðum málin eigi að vera og það virðist auðveldara að tala um og ætla öðrum gagnsæi en ástunda það sjálfur.

Raunverulegar breytingar virðast vera erfiðar viðfangs!

Dæmi: Einkavæðing bankanna hin fyrri hefur löngum verið ákaflega gagnrýnd og er ég í þeim hópi. Það sem verra er að einkavæðing bankanna hin síðari er að mínu mati enn verra klúður ef eitthvað er og lengi virðist vont geta versnað. Þetta eru ekki bankarnir okkar því enginn veit hver á þá! Bankana sem eru grunnstoð atvinnu- og efnahagslífs hér á landi. Bankarnir virðast vera í blóðugum hrömmum hrægamma vogunarsjóðanna sem hafa allt annað að markmiði en velferð íslensks almennings og skuldara. Enda hefur nýlega komið í ljós að stór hluti gróða bankanna rennur úr landi. Ekki nóg með að íslenskum almenningi blæði út heldur rennur blóðið líka erlendis. Enn hefur heldur ekki neitt verið gert í því að skipta bönkunum upp í viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Enn hefur ekkert verið gert að mínu viti varðandi kennitöluflakk þannig að menn geta bara stofnað fyrirtæki, steypt í gjaldþrot, hirt eignirnar en skellt skuldunum á almenning, stofnað nýtt fyrirtæki og haldið áfram á jeppunum "sínum" og með allt dótið sem þeir skrifuðu á fyrirtækið. Gosarnir sem settu okkur á hausinn leika enn lausum hala og lifa eins og greifar á meðan hver fjölskyldan á fætur annarri missir sitt, tekst á við afleiðingar atvinnuleysis og eymdar eða flytur úr landi.

Dæmi: Bankarnir hafa afskrifað alveg hrikalegar fjárhæðir af fyrirtækjum og sumum einstaklingum. Enginn veit hver er að fá þessar afskriftir og af hverju þessi fær afskrift en ekki hinn. Fólk sem er í sitt hvorum bankanum fær sitt hvorar afskriftir. Réttlátt eða sanngjarnt? Nei. Í hvaða veröld er hægt að réttlæta það að einn maður skuli fá afskrifaða 67 milljarða (6700 milljónir) þegar hinn samviskusami greiðandi borgari á að halda áfram að greiða af stökkbreyttu lánunum sínum? Þessi fjárhæð sem afskrifuð er vegna eins manns myndi geta leiðrétt skuldir ansi margra íslenskra heimila. Kvótakóngarnir tóku sameiginleg auðæfi landsmanna út úr kerfinu, gerðu að sinni eigin eign og eftir stendur sjávarútvegur skuldugur upp fyrir haus sem þarf að fá hverja afskriftina á fætur annarri.

Dæmi: Flokkarnir tala um endurnýjun og gagnsæi. Ef maður skimar yfir heimasíður stjórnmálaflokkanna þá er ákaflega erfitt að finna upplýsingar um hverjir sitja í trúnaðarstöðum á vegum þeirra. Það má segja Samfylkingu og Vinstri grænum til hags að þrátt fyrir harða gagnrýni á leyndarhyggju þeirra þá er amk. hægt að sjá hverjir sitja í flokksráðum þeirra á heimasíðum flokka þeirra. Það sama er ekki hægt að segja um Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Þetta tel ég mikinn ágalla. Flokkar eru ekki annað en fólkið sem í þeim er. Ef kjósendur geta ekki séð hverjir sitja í valdastofnunum flokkanna eða taka að sér verkefni fyrir þá er verið að bjóða þeim upp á að kjósa pakka sem þeir geta ekki séð innihaldið í. Treysti menn sér ekki til þess að láta vensla nafn sitt við ákveðinn flokk t.d. vegna stöðu sinnar eða atvinnu þá geta þeir valið að starfa með flokkunum sem almennir flokksmenn án þess að taka að sér trúnaðarstöður. Þessi leyndarhyggja býður upp á spillingu og hagsmunagæslu og hana verður að uppræta eigi íslensk pólitík og samfélag að ná heilbrigði á ný. Alþingi og ráðuneytin þurfa líka að vera meðvituð um það að upplýsa um hverjir sitja í öllum þessum nefndum sem endalaust er verið að skipa og virðast eiga að leysa allan landsins vanda og hverjir það eru sem skipuðu þessa einstaklinga.

Hversu lengi getur vont eiginlega versnað?

Takmörkun að upplýsingum er eitt sterkasta vopnið gegn lýðræði og nauðsynlegu aðhaldi.

Raunverulegt gagnsæi á að vera reglan en ekki undantekningin.

Það er kominn tími á raunverulegar breytingar, réttlæti og sanngirni!


Bloggfærslur 18. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband