Aðalatriðið er þetta

Stjórnlagaþing þarf að fara fram.

Heilt samfélag hrundi. Regluverkið var úr sér gengið, eftirlit nánast ekkert og siðlaus og rotin græðgisvæðing tröllreið hér öllu með forystu siðblindra fjárglæframanna.

Við höfum lagst í rannsóknir. Við vitum í megindráttum hvað fór úrskeiðis. Núna stöndum við á þeim tímapunkti að læra af reynslunni og framkvæma raunverulegar breytingar. Breytingar á grunnbyggingu samfélags okkar.

Við erum einungis 318.236. 

Við eigum gríðarmiklar auðlindir, erum vel menntuð, kraftmikil og dugleg þjóð.

Við getum byggt upp betra samfélag á grunni þess sem hrundi ef við viljum.

Á Íslandi fer fram djúp og mikil valdabarátta. Barátta um það hver stjórni. Barátta um gullkistur okkar. Þeir sem fengið hafa auðlindir á silfurfati hafa fengið blóðbragðið og vilja meira. Sumir vilja engar breytingar því þeir græddu ansi vel á hinu rotna og skemmda kerfi. Það er hjákátlegt að heyra þessa aðila velta sér upp úr kostnaði við stjórnlagaþing sem er einungis stöðumælaklink í samanburði við það sem afskrifað hefur verið í bönkunum og tekið út úr sjóðum landsmanna.

Lýðræði kostar en það er líka fjárfesting í því að tryggja þjóðinni farsæld til framtíðar, allri þjóðinni.

Við eigum að tryggja þjóðareign á auðlindum okkar, að hvert og eitt okkar njóti arðs af auðlindunum. Við eigum að tryggja það að valdið hefjist og endi hjá þjóðinni og við eigum að tryggja það að stjórnvöld hafi ætíð hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Aðalatriðið er að við þurfum stjórnlagaþing til þess að ná fram þessum raunverulegu breytingum.


mbl.is Stjórnlagaþing verið þrætuepli flokkanna frá upphafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband