Tímamót

Goals and dreamsÁrið 2011 var kvatt með pompi og pragt í gær og árinu 2012 fagnað með mikilli eftirvæntingu.

Áramót eru tímamót í lífi hvers og eins okkar. Tímamót sem marka ný tækifæri og nýja von. Við getum kvatt það sem erfitt hefur verið á undangengnu ári, sumt getum við valið að skilja eftir við áramótin en öðru pökkum við snyrtilega í bakpokann okkar til þess að arka áfram veginn. Góðar minningar og reynsla eru dýrmætur farangur fyrir lífið sem framundan er. 

Ég held að árið 2012 verði gott ár. Ég geng inn í það bjartsýn bæði persónulega og fyrir þjóðina. Ég held að árið 2012 verði ákveðin þáttaskil þar sem við komumst lengra í þeim fasa að gera upp hrunið, ná fram réttlæti og sanngirni og getum byggt upp og haldið inn í nýja og betri tíma. Reynslunni ríkari. Slíkt mun ekki gerast átakalaust en ég tel að það muni engu að síður gerast. Á næstu árum spái ég áframhaldandi miklum breytingum til hins betra.

Hreyfiafl breytinganna býr innra með hverju og einu okkar. Þú þarft að verða breytingin sem þú vilt sjá eins og Mahatma Gandhi sagði svo vel "Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum". Ef við breytum því sem breyta þarf hjá hverju og einu okkar þá verður raunveruleg breyting í þjóðfélaginu öllu. Það er auðvelt að tala um breytingar en það er erfiðara að rífa sig upp úr hjólfari þægindahringsins. 

Áramót eru einnig góður tími til þess að skoða stöðu sína persónulega. Í kvöld ætla ég að lesa yfir markmiðin mín sem ég setti mér í fyrra og setja mér ný markmið/áramótaheit fyrir árið 2012. Ég náði mínum stærstu markmiðum árið 2011 en ég gerði þó ekki allt sem ég ætlaði mér og úr því þarf að bæta á nýja árinu :).

Ég hvet þig til þess að setja þér skrifleg markmið. Veltu því fyrir þér hvað þig langar að gera á nýja árinu, hvað þig hefur alltaf dreymt um, hverju þig langar að áorka, hvað færir þér hamingju, hvernig þig langar að vera, hvert þig langar að fara, hvenær og með hverjum? Gott er að brjóta markmiðin niður í skref ef þau eru stór, tímasetja þau og skilgreina hvað þú þarft að gera til þess að ná markmiðinu. Þegar stórum markmiðum er náð er svo mikilvægt að verðlauna sig. Mælt er með því að markmiðin séu skýr, mælanleg, aðgerðabundin, raunhæf og tímasett (SMART). Settu þér frekar færri markmið en fleiri og skilgreindu þau vel. Sumum finnst gott að skrifa fyrst niður nokkur svið lífsins t.d. heilsa, fjölskylda, vinnan, áhugamál osfrv. Það getur verið gagnlegt að ímynda sér að ekki séu neinar hindranir í veginum. Ef þú hefðir töfrasprota sem þú gætir sveiflað til þess að breyta einhverju í þínu lífi, hverju myndir þú breyta? Ef þú vaknaðir upp á morgun og eitthvað væri breytt, hvað væri það? Þarna ertu komin/nn á sporið og þarft svo að hugleiða hvernig þú getur raungert það sem þú vildir að töfrasprotinn gerði fyrir þig! Oft eru hindranirnar mestmegnis í huganum á okkur sjálfum ;).

Lífið líður hratt. Munurinn á draumi og markmiði er einungis sá að hið síðara er tímasett með framkvæmdaáætlun. Lifðu til þess að uppfylla drauma þína og njóta lífsins.

Besta leiðin til að breyta heiminum er að breyta sjálfum sér!

Gleðilegt og farsælt nýtt ár :)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband