Saman út úr storminum

SnjóstormurÁstandinu hér á landi hefur undanfarin þrjú og hálft ár oft verið líkt við storm, fárviðri, hamfarir og fleira í þeim dúr. Þessi stormur hefur þá sérstöðu að vera af mannavöldum.

Ástandið sem blasir við okkur er ekki tilviljun óheppilegra atvika sem pöruðust saman og ollu ofsaveðri. Það er afleiðing margra mjög slæmra atriða sem röðuðust saman óvart og viljandi. Afleiðing m.a. græðgi, glæpa, ónýts regluverks, spillingar, óhæfra starfsmanna og sjúkrar menningar sem skapaðist. Það paraðist svo við erfiðleika af svipuðum toga í alþjóðlegu samhengi.

Ég var á borgarafundi í kvöld þar sem þetta ástand var rætt. Einum af mörgum fundum sem ég hef sótt. Allt mjög góðir fundir. Fundir þar sem hugsjónafólk kemur saman, ræðir saman, deilir reynslu og leitar lausna.

Ég er svolítið hugsi eftir fundinn. Á fundinum var ekki eins áberandi reiði og oft hefur verið áður. Stemmingin var meiri sáttastemming en ég fann líka fyrir ákveðnu vonleysi. Það mættu um 450 manns (skv. þessari frétt taldi það ekki). Við fundum aftur og aftur en ekkert breytist í raun. Ég hugsaði til þess að sennilega eru þó nokkrir af þeim sem sótt hafa þessa fundi farnir úr landi, aðrir orðnir veikir af ástandinu og einhverjir búnir að gefast upp. Það þarf mikla seiglu, þrautseigju og styrk til þess að halda áfram í blindbyl, stiku fyrir stiku (eins og Andrea formaður HH orðaði það svo vel). Einhverjir segja þetta eflaust bara bölsýni og svartagallsraus en myndirnar og tölurnar tala sínu máli. Þetta ástand er ekki hægt að hunsa eða humma fram af sér og vonast til að ástandið lagist af sjálfu sér. Sjálfkvæmur bati verður seint í ónýtu kerfi.

Annað sem ég velti fyrir mér var það að ávallt er sama fólkið á þessum fundum. Við erum að ræða við hvert annað. Vandanum er lýst og lausnir ræddar meðal brotabrots heillar þjóðar sem er í vanda. Flestir sammála um að núverandi stjórnarflokkar og Sjálfstæðisflokkur hafi ekki eins miklar áhyggjur og við eða vilja til að ráðast í þær róttæku aðgerðir sem framkvæma hefði átt strax í október 2008. 

Samkvæmt því sem fram kom á fundinum eru 60.000 heimili í þeirri stöðu að skulda meira en þau eiga eða um 40% allra heimila. Ég hef líka heyrt að staðan sé jafnvel enn verri. Við sáum súlurit sem eru skuggaleg um hvernig staðan hefur snarversnað eftir hrun og hvert stefnir að óbreyttu.

Hversu lengi ætlum við þegjandi og hljóðalaust að borga stökkbreyttu lánin okkar og tuða um það á kaffistofunni?

Hvar er allt þetta fólk sem situr fast í skuldafangelsi, án lífsgæða, í viðjum óréttlætis og eignaupptöku?

Hversu miklu ætlum við að læta ræna af okkur til viðbótar áður en við rísum upp í alvöru og breytum þessu?

Valdið er okkar.

Þessi stormur er þess eðlis að hann mun ekki ganga yfir af sjálfu sér. Hann mun einungis magnast upp og versna. Með hverri fjölskyldunni sem flytur úr landi, hverri manneskjunni sem veikist undan álagi, hverju gjaldþroti fyrirtækja og heimila verður stormurinn dýpri og tekur meira með sér. 

Við verðum að taka höndum saman og koma okkur saman út úr þessum stormi.

Það þarf að ráðast í stórfelldar aðgerðir til leiðréttingar. Meðal annars þarf að afnema verðtrygginguna, leiðrétta stökkbreytt lán heimila og fyrirtækja og ráðast þarf í aðgerðir til þess að leiðrétta þá gríðarlegu misskiptingu sem hér er að verða í samfélagi okkar.

Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott. Því lengur sem við bíðum því erfiðara verður að ná því markmiði.

Gamla Ísland er ekki lengur til það er farið.

Núna búum við á Óvissu Íslandi í blindbyl og þoku.

Við verðum að brúa nýja tíma ætlum við að geta byggt þetta land fyrir okkur og börnin okkar til nýrrar framtíðar og nýs Íslands.

 


mbl.is Borgarafundur um verðtryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þið eruð miklu fleiri en þú heldur.

BJ (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 23:42

2 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Takk fyrir þessa raunsönnu lýsingu á ástandinu í þjóðfélaginu. Ég geri orð þín að mínum tökum höndum saman og komum okkur út úr storminum.

Helga Þórðardóttir, 23.1.2012 kl. 23:43

3 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þetta er mjög góð samantekt hjá þér. Ég hef sjálfur orðið var við það fólk nennir ekki lengur að berjast því það skiptir engu máli. "Svona er þetta bara" heyri ég oft sagt.

Sumarliði Einar Daðason, 23.1.2012 kl. 23:48

4 identicon

Það er afl grasrótar að myndast sem mun reyna að komast á þing til taka stjórnina á þjóðarskútunni sem er á sömu leið og Titanic fór á sínum tíma. Það eina sem þjóðin þarf að gera er að kjósa allt annað en fjórflokkinn, þegar þar að kemur. Við þurfum að þora því. Við höfum engu að tapa, þó að það yrðu valdir einstaklingar af handahófi inná þing núna, þá væri það bót á ástandinu eins og það er núna. ÞORUM!!!!!

Stefanía Arna Marinósdóttir (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 23:58

5 identicon

Mjög fínn og þarfur pistill. Ég er ein af þessum sem er við það að gefast upp en ég get ekkert farið svo ég verð að þrauka storminn. Bíllinn með vörslusviptingu á sér og ég rétt búin að fá greiðsluerfiðleikalán svo íbúðin verði ekki seld á uppboði. Þetta er eins og að berjast við vindmyllur...

Þetta er ekki spurning um að nenna ekki; þetta er uppgjöf.

Guðrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 00:00

6 identicon

Ég hef undanfarið ár verið að tala fyrir nákvæmalega þessu í bloggum við ýmsar fréttir. Hélt á stundum að ég væri bara ofsóknarbrjálaður einfari. Gleður mig að fleiri eru að sjá ljósið.  Birti  yfir mér við að lesa þennan pistil - kannski er ég  ekki svo brjálaður eftir allt - ef marka má sálann

Almenningur (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 00:10

7 Smámynd: Landfari

Það er ekki verðtryggingin sem er að fara með allt til fjandans. Það eru vextirnir sem eru of háir. Svo hjálpaði það nú ekki að í góðærinu þegar kaupmáttur var sá hæsti sem um getur í sögunni og verðbólgan í lagmarki greiddi landinn ekki niður skuldir eða lagði til hliðar fyrir mögru árin. Þvert á móti jukust skuldir heimilanna sem aldrei fyrr. Það gat hver séð sem vildi sjá að það gat ekki endað nema illa.

Landfari, 24.1.2012 kl. 00:17

8 identicon

Er ekki Lilja Móses, sem ku raunar sérmenntuð í kreppustjórnun, þegar búin að gera uppreisn gegn hrægömmunum og  hyggur á flokksstofnun? Það liggur á. Allsherjarhrun er óhjákvæmilegt innan  1-2 ára,  þegar heimilin eru mergsogin hvert af öðru og  fólk borið út á guð og GADDINN! En almúginn verður að vera sýnilegur og hreinlega skunda á VÖLLINN og sýna öfluga samstöðu!

Hrúturinn (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 00:23

9 identicon

Já, of háir vextir eru vissulega hluti vandans. En verðtryggingin er púkinn á fjósbitanum og skapar okurvexti! Einn af fáum hagfræðingum sem hefur rannsakað þetta og skrifar af viti er Ólafur Margeirson.

http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/efnahagsvandamalid-a-islandi-

Íslendingur (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 00:32

10 Smámynd: Landfari

Íslendingur, þessi linkur finnst ekki ef maður smellir á hann

Landfari, 24.1.2012 kl. 00:38

11 identicon

Já, eitthvað vandamál með slóðina. Hægt að fara á www.pressan.is og  velja Pressupennar og svo Ólafur Margeirsson. Mæli með honum.

Íslendingur (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 00:44

12 Smámynd: Björn Emilsson

Hvað er þetta eiginlega. Steigrímur J er kominn með fimm ráðuneyti. Geta menn ekki séð þennan afburðamann taka á sig slíkar byrðar. Lagast sennilega ekki fyrr en hann hefur tekið þetta allt yfir. Getur þá sofnað værum svefni með kellu sinni Jóhönnu í fjóshaugnum og látið sig dreyma um Sovét Island í hondum ESB.

Björn Emilsson, 24.1.2012 kl. 00:47

13 identicon

Vönduð grein: Rétt, sönn og gagnorð!

Sómi af þér kona :)

Eygló Yngvadóttir (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 01:21

14 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Allt saman rétt og satt og við erum mörg. Það eina sem dugar er bylting/uppreisn almennings. Kosningar duga ekki til.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 24.1.2012 kl. 03:26

15 identicon

Stóri stóri vandi okkar þjóðarbús var og er skuldasöfnun sem sprettur af vítisvél vaxta og verðtryggingar. Hugsanlega eru lífeyrissjóðirnir með sinni ávöxtunarkröfu,einn af orsakavöldunum. (Sbr. pistla Ólafs Margeirssonar)Skuldarar tapa náttúrulega en fjármagnseigendur telja sig græða á ástandinu en það er tálsýn. Á endanum tapa allir.           
Hér er línurit úr pistli Ólafs Margeirssonar sem sýnir efnahagsstjórnunarvanda okka í hnotskurn.  Vandinn er sá að við söfnum meiri skuldum en framleiðslan getur staðið undir,ávöxtunarkrafa fjármálakerfisins ríður þjóðfélaginu á slig. Ólafur bendir á að þegar ávöxtunarkrafan er meiri en hagvöxturinn gefur tilefni til þá hafi bilið verið brúað með lántökum. Eftirfarandi eru lýsingar á línuritinu eins og ég skil það (hef verið hugsandi yfir "sekt" Sjálfstæðisflokksins undanfarna daga, túlkunin ber keim af því):
           Vandinn byrjar upp úr 1980 (nær örugglega vegna verðtryggingarinnar) og eykst og eykst þar til allt springur í hruninu. Síðasti bratti hlutinn er frá því upp úr 2000 og sýnir trúlega aukin áhrif frjálshyggjunnar, og enn fyrr er herðist á hallanum upp úr 1990.
"Trendið" er þó búið að vera það sama alveg frá 1980 og trúlega þau helstu áhrif Sjálfstæðisflokksins að herða á ferðinni fremur enn að vera einn í sök.  M.ö.o án frjálshyggjunnar hefðum við samt verið komin í um 300% - 350% árið 2008 skv. línuritinu.Ekki geggjað hrun en alveg svakalega djúpur skítur!  
(Mögulega er seinni hluti línuritsins aðeins ýktur ef skuldir hafa verið taldar á þjóðarbúið af erlendum fjárfestingum sem báru tekjur erlendis) Fróðlegt væri að sjá tölurnar til dagsins í dag!
             Hér kemur svo tilvitnunin í grein Ólafs Margeirssonar:
Hægt er að ná hærri raunvöxtum en sem nemur hagvexti meðan hlutfall skulda á móti landsframleiðslu vex. En slíkt getur aldrei staðist til lengdar því fyrr eða síðar kemur að skuldadögum


Komið að næstu lotu

Umræðan um lífeyriskerfið er að gefa af sér, einkum og sér í lagi því hún er að mestu fagleg og á rólegu nótunum. Eftir sem áður er varla hægt að ætlast til þess að umræðan þróist öllu frekar nema allir skilji að a) lífeyriskerfið er lagalega bundið til þess að ná 3-4% raunvöxtum á ári að jafnaði og það er ekkert rangt við það að segja að ávöxtunarkrafa sjóðanna sé 3,5% þótt allir viti að slíkt sé upprunalega aðeins viðmið sem notað er til núvirðingar eigna og skuldbindinga sjóðanna og b) svo há ávöxtunarkrafa á fjármagni mun aldrei ganga upp til langs tíma þótt hún hafi að mestu gengið upp hingað til. Skiptir þá engu þótt gjaldeyrishöft séu til staðar eða ekki né heldur hvaða mynt er notuð sem gjaldmiðill á Íslandi.

Þegar allir hafa skilið og viðurkennt þessar tvær einföldu en grundvallarstaðreyndir getur umræðan umsvifalaust þróast yfir á næsta stig. Þegar allir vita og skilja að lífeyriskerfið gengur ekki upp er næst á dagskrá að ræða hvernig eigi að betrumbæta það án þess að slíkt hafi of mikil neikvæð fjárhagsleg áhrif á núverandi lífeyrishafa. Sú umræða er álíka nauðsynleg og hún er mikilvæg því núverandi lífeyriskerfi mun aldrei ganga upp.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 03:50

16 Smámynd: Landfari

Bjarni Gunnlaugur, Þú segir: "lífeyriskerfið er lagalega bundið til þess að ná 3-4% raunvöxtum á ári" 

Getur þú fundið þessari fullyrðingu stað í lögum?

Landfari, 24.1.2012 kl. 10:52

17 identicon

Landfari, það er að vísu ekki ég sem segi þetta, heldur Ólafur Margeirsson. Ég var ekki nógu vandvirkur að setja upp gæsalappir.  Allur textinn frá því að ég segist vitna í texta Ólafs og niður að nafninu mínu átti að vera innan gæsalappa sem tilvitnun í Ólaf. Bið afsökunnar á því.

Ólafur rökstyður þessa fullyrðingu sína í pistli sínum á pressunni.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 11:13

18 identicon

Stjórnir lífeyrissjóðanna hafa ekki vald sitt frá Guði, heldur vinnandi fólki. Ef þeir haga sér eins og minkur í hænsnabúi, er kominn tími til meinýraeyðingar. M.ö.o. skipta um stjórn og forrystu lífeyrissjóðanna. Til þess þarf SAMSTÖÐU og það fyrr en seinna!

Almenningur (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 11:22

19 identicon

Það þarf að fara fram með 2 einfaldar kröfur og hætta ekki fyrr en eftir þeim hefur verið farið. 

A. Færa niður verðtrygginguna til þess sem var t.d. 2008. (Skrúfa niður stökkbreytinguna)    Betra að setja lífeyrissjóðina út á guð og gaddinn en fjölskyldur landsins.

B. Tryggja eðlilega og hóflega vexti. Þá munu hjólin fara að snúast aftur.

Þetta eru algjörar grundvallarforsendur þess að hér sé hægt að snúa ofan af hruninu.   Allar aðrar hagstærðir verða að taka mið af þessu en ekki öfugt.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 11:52

20 Smámynd: Atli Hermannsson.

Ég var á fundinum og upplifi hlutina eins Kristbjörg. Þá er einnig rétt að það virðist alltaf vera sama fólkið sem mætir. Gott að það skuli þó mæta. En þegar ekkert gengur svo árum skiptir og fólki finnst stjórnvöld, á einhvern óskiljanlegan hátt, ekki koma auga á hið augljósa þá eðlilega dofnar það upp. Sjálfsmatið og sjálfsvirðingin minnkar og fólk eðlilegar bognar. Þannig fólk hefur þá tilhneigingu að læðast með veggjum og hímir þar í von um aðl óveðrið gangi yfir eða einhver komi og bjargi því...Ég hef þá trú að þeir sem mæta á fund sem þennan sé fólk sem ætlar aldrei að láta beygja sig. Það gefur mér von.  

Atli Hermannsson., 24.1.2012 kl. 12:17

21 identicon

Og ef fólk telur að það þurfi að aðstoða skuldara þá er að finna út hverjir það séu í run og veru sem þurfa á hjálp að halda og hverjir eigi að borga kostnaðinn varla er það ásættanlegt að eingöngu aldraðir íslendingar og öryrkjar borgi

Guðmundur (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 12:20

22 identicon

Ef heimilin hrynja, verða ragnarök! Þá falla aldraðir og öryrkjar jafnt sem aðrir!

Almenningur (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 12:47

23 identicon

Guðmundur segir:

"varla er það ásættanlegt að eingöngu aldraðir íslendingar og öryrkjar borgi"

Guðmundur, þeim sem ekki vinna er haldið uppi af þeim sem vinna. Svo einfalt er það.   

Ef lífeyrissjóðirnir þola ekki leiðréttingu á lánasafni sínu þá hafa þeir verið reknir á fölskum forsendum.   Það verður alltaf opið fyrir að ríkið (þeir sem vinna) greiði það sem á vantar upp í mannsæmandi lífeyri.  Það má svo taka vel til í kerfinu og jafna kjör ríkisstarfsmanna og almenna lífeyrisþega. Fyrrverandi ráðherrar hafa svo ekkert að gera við meiri lífeyri en hver annar.

Það er hægt að hafa endalausar útgáfur að þessu en aðalatriðið er að láta ekki misheppnað lífeyriskerfi ríða þjóðinni á slig í gegnum skrípaleik verðtryggingarinnar.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 12:49

24 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

varla er það ásættanlegt að eingöngu aldraðir íslendingar og öryrkjar borgi

Hvernig geta afi og amma tekið með góðri samvisku við lífeyri sem er greiddur af peningum sem var stolið frá barnabörnum þeirra?

Hvernig verðleggur ellilífeyrisþegi það hvort barnabörnin hans verða heimilislaus? 

Spyrðu frekar: hvað munuð þið þurfa að borga, ef ekkert er gert til að leiðrétta skuldavanda heimilanna?

Og mundu svo að allir eru einhverntíma skuldarar og verða síðar ellilífeyrisþegar.

Barnabörnin eru sjóðfélagar alveg eins og amma og afi, og eiga sama rétt.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.1.2012 kl. 15:23

25 Smámynd: Landfari

"Hvernig geta afi og amma tekið með góðri samvisku við lífeyri sem er greiddur af peningum sem var stolið frá barnabörnum þeirra?"

Geta menn lagst öllu lægra við að reyna að fá aðra til að borga skuldir sínar? Gott að einhver er búinn að finna breiðu bökin.

Landfari, 24.1.2012 kl. 16:13

26 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Kristbjörg,

mjög góð færsla hjá þér. Þegar mannkynssagan er lesin þá er nokkur bið eftir samstöðu hjá almenningi. Það er ótrúlegt hvað almenningur bíður lengi. Það er ótrúlegt hvað er hægt að tvístra honum. Þess vegna eru þeir svo mikilvægir sem geyma logan og halda honum við líf þangað til almenningur vaknar. Í raun er það maginn sem ræður för, þegar hungrið sverfur að þá gerast hlutir en oftast ekki fyrr.

Gunnar Skúli Ármannsson, 24.1.2012 kl. 18:02

27 identicon

Ljómandi góðar hugleiðingar. Siðbótar er þörf. Hafðu þökk fyrir.

Kristinn Dagur Gissurarson (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 19:33

28 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Geta menn lagst öllu lægra við að reyna að fá aðra til að borga skuldir sínar?

Hver að borga hvaða skuldir hvers? Það var enginn að tala um það?

Það er verið að tala um endurstilla tölvur sem eru orðnar vanstilltar.

Hélstu að það væri verið að tala um alvörupeninga?

Þetta eru allt saman sýndarpeningar. Líka lífeyririnn þinn.

Ef þú hefur ekki fattað það ennþá er varla von þó þú haldi að einhver þurfi að borga einhver reiðinnar býsn þó að nokkrum tölum í tölvukerfum sé breytt.

Ég er kerfisfræðingur og get fullvissað þig um að svo er ekki.

Sjáðu =>  10 verður að... ...8 , sko þetta var alveg ókeypis fyrir alla!

Guðmundur Ásgeirsson, 25.1.2012 kl. 07:21

29 Smámynd: Landfari

Guðmundur minn. Það eru engin geimvísindi að það er ekkert sem heitir ókeypis matur. Það er bara spurningin hver borgar hann.

Á sama hátt þá þá gufa skuldir ekki upp bara sisvona. Það er bara spurningin hver á að borga.

Kerfisfræðingar geta flutt skuldirnar frá einum yfir á annan en það þarf galdrakalla eða töframenn til að láta þær bara hverfa.

Ef þú afnemur vísitöluna bara sisvona rýrna eignir lífeyrissjóðanna. Hætta að vera ákveðin verðmæti en verða bara krónutala sem verður stöðugt verðminni.

Það yrði hverjum sem reyndi erfitt að framfleyta sér á þeirri krónutölu sem þóttu þokkaleg laun fyrir 30 árum. Það þyrftu ellilífeyrisþegar að gera ef lífeyririnn væri ekki verðtryggður. 

Þeir sem keyptu sína fyrstu eign á árunum 2004 - 2007 þegar fasteingaverð rauk langt upp fyrir byggingakostnað eru raunverulega þeir einu sem sanngjarnt væri að leiðrétta hjá. Þeir sem keyptu fasteig fyrir t.d. 2000 hafa notið verulegrar hækkunar á fasteignaverð. Hækkunar sem er meiri en nemur hækkun vísitölunnar.

http://datamarket.com/is/data/set/xh3/ibudaverd-eftir-landshlutum-fra-arinu-1990#!display=line&ds=xh3!5d7=3:5pq=7

http://hagstofan.is/?PageID=2599&src=/temp/Dialog/varval.asp?ma=VIS01103%26ti=V%EDsit%F6lur+til+ver%F0tryggingar+fr%E1+1979%26path=../Database/visitolur/neysluverd/%26lang=3%26units=V%EDsit%F6lur

Á þessu tímabili (jan2000 - Jan 2012) hefur vísitlalan hækkað um 98% en fermetraverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu um 110%

Hvað á að leiðrétta hjá þessu fólki? Ertu að meina að hækka skuldirnar hjá þessum aðilum um þessi 12% til að greiða niður lánin hjá hinum svo kostnaðurinn lendi ekki á skattgreiðendum almennt?

Landfari, 25.1.2012 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband