Sjálfstæðisflokkinn í frí

Ég tel þetta vera góða ákvörðun hjá Árna Matthiesen. Enda var ég mjög undrandi þegar hann sagðist vonast eftir endurkjöri. Hann hefur áttað sig. Það er gott.

Ég tel allan flokkinn hans þurfa að átta sig á sama hátt. Flokkurinn, margir innan hans og stefnan hefur beðið algjört skipbrot og tekið þjóðina með innanborðs. Þessi flokkur hefur stjórnað allt of miklu í íslensku samfélagi síðastliðin 18 ár með þeim "árangri" sem nú lítur dagsins ljós. Samfélagið er ein brunarúst og saklaust fólk líður fyrir það hvernig reglur hafa verið afnumdar, ekki farið eftir þeim og ákveðnu auðvaldi hyglt umfram allt annað. "Farsæl og ábyrg efnahagsstjórn" hefur öðlast nýja merkingu í höndum þessa flokks!

Það er kominn tími á verulegar breytingar.

Aðrir flokkar, sérstaklega Framsókn og Samfylking, bera líka sína ábyrgð. Þeir hafa komið að umdeildum ákvörðunum undanfarin ár. Vinstri græn hafa ekki setið í stjórn á þessum tíma enda aðeins 10 ára gömul en fólk innan þeirra raða eins og Steingrímur eru engir nýgræðingar í pólitík og eru því ekki hvítþvegnir hvítvoðungar frekar en aðrir. Jóhanna er heldur enginn hvítvoðungur í pólitík en hún er gott dæmi um það að það væri glapræði að kasta öllum á bálið sem ekki eru glænýir því þá tapast reynslan. Hrun bankanna með ofgnótt stuttbuxnagaura og algjörri ungdómsdýrkun er víti til varnaðar í þeim efnum. Það þarf að finna hinn gullna meðalveg þarna sem annars staðar.

Framsókn hefur skynjað þörf breytinga og hafist handa langt á undan öðrum flokkum við að endurraða í sína sveit og hefja uppgjör við liðna fortíð. Ég fagna því.

Innan Sjálfstæðisflokksins er ákaflega efnilegt og hæft fólk. En innan hans má líka finna mjög rotin horn sem þarf að hreinsa út. Það tekur nokkur ár. Þess vegna óska ég þess innilega að flokknum verði gefið langt frí til þess verks. Hann á ekki erindi við stjórn íslensks samfélags fyrr en hann hefur endurbyggt stefnu sína og lið á sama hátt og Framsókn hefur gert.


mbl.is Árni Mathiesen ekki í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Sammála forsendur breyttra vinnubragða er að íhaldið fari í langt frí frá landsmálunum. Reyndar hefur komið á daginn í þessari viku að VG og Samfylking eru svo samdauna þessu steinrunna kerfi að sumir þar hafa fulla þörf á löngu fríi.   Þá sérstaklega ráðherrar í núverandi minnihlutastjórn.

G. Valdimar Valdemarsson, 26.2.2009 kl. 12:10

2 identicon

Sjálfstæðisflokkurinn á ekkert frekar að fara frá en aðrir flokkar. Allir flokkarnir hafa gott af því að skúra út og þrífa alveg út í hornin. Það þarf að virkja grasrætur flokkanna og endurnýja og dusta rykið af stefnunum sem gleymdust í græðginni. Smá brotthvarf til mannlegra og rammíslenskra manngilda. Stefna Sjálfstæðisflokksins beið ekki skipbrot heldur framkvæmdin. Í stað dreifðrar eignaraðildar og góðrar reglugerðaverks voru þeir afhentir fáum og hlaupið á eftir þeim og reglugerðir sniðnar eftirá og af vanefndum í kringum óskir eigenda. Endurskoðum stjórnsýsluna, vald þingsins og vöndum til verks og dustum rykið af hnjánum með nýja áhöfn og skýrari markmið.

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 18:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband