11. september dagur breytingar

Ég man þennan dag eins og hann hafi gerst í gær. Ég var heima hjá mér þegar systir mín sagði mér frá því hvað hefði gerst og við ræddum hvort að þriðja heimstyrjöldin væri nú hafin. Ég fór svo að vinna um kvöldið og sat stjörf við sjónvarpið þar í lengri tíma.

Þessi atburður mótaði mann um ókomna tíð. Þarna breyttist eitthvað. Það öryggi sem maður hafði ætíð upplifað var allt í einu horfið og skelfing hryðjuverka orðin nær en nokkru sinni fyrr, áþreifanlega nálægt. Ég hafði eins og margir flogið með United flugfélaginu innanlands í Bandaríkjunum oftar en einu sinni.

Þarna lærði maður líka eitthvað nýtt. Maður komst skrefi nær því að geta ímyndað sér hvernig fólki líður sem býr við slíka skelfingu allt sitt líf. Þau spor getur maður aldrei sett sig í nema upplifa það en þarna fékk maður nasaþefinn af slíku óöryggi. Það er nefnilega allt öðruvísi að heyra fregnir af voðaverkum hversu hrikaleg sem þau eru ef maður veit að sjálfur er maður í öruggri fjarlægð og þetta er einhvers staðar annars staðar, langt í burtu. Um leið og maður getur samsamað sig með þeim sem lenda í slíku eða getur ímyndað sér að maður gæti hafa verið í þessum aðstæðum þá horfa málin öðruvísi við. Þá rista þau mann innar að skinni og meiri ótti og ógn grípur um sig.

En þennan dag breyttist ýmislegt hjá mér og eflaust mörgum. Heimsmyndin varð önnur. Alvarleg hætta á hryðjuverkum varð raunveruleg, upplifun á ógn nær en nokkru sinni og munaður eins og ferðalög horfðu allt í einu öðruvísi við. Hið óhefta frelsi varð allt í einu bundið ýmsum skilmálum, áhættum og löngum öryggisbiðröðum flugvallanna.

En svo heldur maður áfram lífinu. Það er eina leiðin. Það þýðir ekki að óttast það sem maður veit ekki hvort gerist. Líkurnar eru sáralitlar og ef maður myndi vera á röngum stað á röngum tíma þá væri ekkert við því að gera.

En þetta leiðir líka hugann að öðru og maður fyllist þakklæti. Einn stærsti auður okkar Íslendinga er einmitt sá friður sem við fæðumst inn í og lifum við alla tíð. þar erum við miklu ríkari en stór hluti heimsbyggðarinnar. Gleymum því aldrei. Líf fullt öryggi og friðar er svo sannarlega mikils virði og það ber að þakka á hverjum degi.


mbl.is Átta árum síðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Já frænka.

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 18.9.2009 kl. 01:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband