Austurvöllur 1. október 2010 - Er það furða að fólk sé reitt?

Lesa mátti sorgina, vonleysið, örvæntinguna, reiðina, depurðina, vanmáttinn, kvíðann og ýmsar fleiri tilfinningar af andlitum margra þeirra sem stóðu á Austurvelli í dag.

Fólkið var ekki "bara skríll" sem mætti til þess að vera með læti að óþörfu. Þetta var fólk sem fundið hefur fyrir afleiðingum hrunsins á eigin skinni. Þetta er ein þeirra leiða sem almenningur hefur. Þær eru í raun ekki margar. Það er lýðræðislegur réttur fólks að láta í sér heyra þegar því er algjörlega misboðið. Auðvitað geta einhverjir farið yfir strikið en meginþorrinn gerir það ekki.

Í samfélagi þar sem fjölskyldu konu sem lést þann 26. mánaðar er gert að endurgreiða örorkubætur upp á 25.000 krónur sem lagðar voru inn þann sama dag og áttu að greiðast fyrir komandi mánuð? Í samfélagi þar sem fjölskylda annarrar látinnar konu er elt uppi af Tryggingastofnun vegna ofgreiddra 140.000 króna á sama tíma og sviknir hafa verið út milljarðar sem enginn virðist ná að elta uppi og almenningur þarf að borga? Er það furða að fólk slái í tunnur?

Í samfélagi þar sem starfandi eru 704 framkvæmdastjórar sem þrátt fyrir það hafa skráða búsetu erlendis amk. á pappírunum til að komast hjá auðlegðarsköttum. Fólk sem m.a. hefur efnast gríðarlega af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar en hefur fært ríkisfang sitt yfir hafið til þess að sleppa við að greiða skatta hér. Skatta af sviknum auðæfum. Er það furða að fólk sé reitt?

Í samfélagi þar sem 1100 fasteignir hafa verið seldar nauðungarsölu á árinu og fjárnám fara fram á heimilum fólks á hverjum degi, fyrirtæki eru sett í þrot á sama tíma og afskrifaðar eru 2.6. milljarðar af skuldum útvalinna sem hafa m.a. greitt sér rúmlega 600 millljónir í arð. Er það furða að fólk fyllist bræði?

Í samfélagi þar sem enginn axlar ábyrgð og samtrygging stjórnmálamanna lifir góðu lífi að mestu leyti er það furða að fólk fuðri upp og kveiki elda á Austurvelli?

Miðaldra kona sem búin er að missa öll börnin sín til útlanda, er það furða að hún mótmæli?

Fólk sem búið er að missa allt sitt þar sem ekki hefur verið tekið á skuldavanda heimilanna, er það furða að það kasti eggjum?

Fólk sem sér eignirnar sínar brenna upp á sama tíma og fjármagnseigendur þessa lands eru varðir með öllum tiltækum ráðum og þjóðin skiptist í tvo hópa, þá sem vaða í fjármagni og hinn stóra hóp þeirra sem strita en berjast í bökkum. Millistéttin fer að þurrkast út. Fjárborg skal hún heita ekki skjaldborg! Er það furða að fólk reisi tjaldborg?

Í samfélagi þar sem hið opinbera virðist leggja sig í líma við það að ná smásvikurum og smáþjófum en stórlaxarnir eru óáreittir á bak við skjaldborg lögfræðinga, er það furða að fólk missi vonina?

Í samfélagi þar sem öllum á að geta liðið vel en fátækt er orðin alvarlegt vandamál, börn eru vannærð, löggæsla og velferðarkerfið fara undir hnífinn sem getur laskað innviði samfélagsins verulega. Er það furða að fólk sletti skyri og kasti brauði?

Í samfélagi þar sem maður finnur óttann sem drýpur af andrúmsloftinu og mætir svo framtíð landsins, leikskólabörnunum og fyllist kvíða fyrir þeirra hönd. Kvíða yfir því að geta ekki fært þeim það sem þau eiga skilið. Er það furða að fólk vilji betri tíma?

Í samfélagi þar sem sumir Alþingismenn ýmist rífast í persónulegum skotgröfum sandkassaleiksins án vitrænnar rökræðu eða flissa yfir nýju sætunum sínum á sama tíma og fólk býr við örvæntingu hinum megin veggjanna. Er það furða að fólk fái nóg?

Ég er ekki hissa.

 


mbl.is Hávær mótmæli við þinghúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég get verið sammála flestu (öllu) sem þú segir. En Akkuru ertu í varaformaður framsóknarkvenna?? Ég viðurkenni að ég held með Skaganum sama hvaða stjórn er við völd í IA en það er svolítið annað. Ég var í Samvinnuskólanum svo ég kann svolítið í framsóknarfræðum - og hafði svolítið sympaty með flokknum lengi vel - en hann varð gjörspilltur og átti meira en lítinn þátt í hruninu. Flokkur sem gerir Halldór Ásgríms og Finn Ingólfs að sínum leiðtogum ætti einfaldlega að leggja sig niður. Kv Gunnar

Gunnar Magnússon (IP-tala skráð) 2.10.2010 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband