Hring eftir hring í þægindahringnum

 

Comfort zone

 

Talsvert hefur verið rætt um það að lítið breytist hér á landi þrátt fyrir algert hrun.

Að mínu mati er þægindahringurinn ein ástæða þess. Það er ríkt í mannlegu eðli að leitast við að halda sig innan þægindahringsins. Hugtakið þægindahringur þekkja flestir. Það merkir það umhverfi sem við þekkjum og hrærumst um í daglegu lífi okkar. Það er fyrirsjáanlegt, öruggt og við höfum lært hvernig við eigum að bregðast við í því. Hinn þægilegi hringur! Eðlilega er ein af frumþörfum okkar að tryggja okkar eigið öryggi. Í síbreytilegu umhverfi þar sem dynja á okkur ógrynni áreita af ýmsu tagi er rökrétt að reyna að halda í allar þær þekktu stærðir sem þó er að finna í kring um okkur. Þar fyrir utan erum við mjög fastheldin flest á venjur okkar.

Menn þurfa markvisst að hafa fyrir því að fara út fyrir þægindahringinn. Það krefst miklu meiri fyrirhafnar, orku, óöryggis og óvissu. Takist okkur það, öðlumst við nýja þekkingu, þroska og stækkum hringinn. Einhver sagði að það tæki 21 dag að breyta venju, þeas. gera eitthvað nýtt og búa til nýjan vana.

Það er einnig þekkt að sumir gera hvað sem er til þess að halda sig innan þægindahringsins því versta helvíti er betra en óvissan! Óvissan er oft okkar stærsti ótti. Við vitum hvað við höfum, sama hversu slæmt það er, en við vitum ekki hvað við fáum þeas. hvað liggur handan þægindahringsins. 

Þegar fólk hefur svo stigið út fyrir þægindahringinn þarf mikla staðfestu til þess að leita ekki í sama gamla farið. Hver kannast ekki við það að hafa ætlað að grenna sig, breytt matarræðinu svo aðdáun vakti meðal annarra og hamast í ræktinni eins og hamstur á hlaupahjóli hlaupandi eins og hann eigi lífið að leysa. Að sigla svo aftur smám saman inn í sama gamla farið... og hlaupahjólið stöðvast. Nokkrum mánuðum seinna eru vöðvarnir rýrir og spikið búið að margfalda sig og komið tvöfalt tilbaka! Til þess að koma í veg fyrir þetta hefði maður þurft að tjóðra sig eins og hamsturinn á brettið í langan tíma þangað til brettið væri orðið að föstum vana og inni í þægindahringnum. Nýr lífstíll.

Mín upplifun af samfélaginu hér og stjórnmálaflokkunum er að hægt og bítandi séum við að sigla inn í sama gamla farið. Inn í hinn þekkta þægindahring gamaldags stjórnmála. Það er það sem fólk kann og þar er það öruggt. Þrátt fyrir að það hafi ekki reynst okkur vel. Ferðin að nýju Íslandi virðist enn sem komið er vera of fyrirhafnarmikil, of mikilli óvissu bundin og því leggja menn ekki í hana. Óvissuferð.

Við þurfum í sameiningu að taka skrefið út fyrir þægindahringinn og nema nýtt Ísland ætlum við okkur betri framtíð. Við þurfum að hafa fyrir því, hugsa hlutina upp á nýtt, taka erfið og óþægileg skref. Óvenjulegt ástand kallar á óvenjulegar lausnir. Við þurfum að fara inn í óvissuna með kjark, von og trú að vopni.

Það er í þínu valdi að taka fyrsta skrefið með okkur!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Gott en samt ekki til framtíðar!!þetta er svona Færeyjaleiðin að minu mati,það að berjast við auðvaldið er samtaða,og meiri samtaða,sem býr í okkur ennþá/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 5.12.2011 kl. 01:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband