Jólakveðja 2011

Kæru vinir og ættingjar!

ÚtskriftÞá er árið 2011 að renna sitt skeið. Á þessum tímamótum finnst mér ágætt að líta um öxl, rifja upp og horfa fram á við.

Árið 2011 hefur einkennst af stórum áföngum sem ég lauk, afdrifaríkum ákvörðunum, ýmsum námskeiðum á ferðalagi lífsins og ánægjustundum með yndislegu fólki og litlum ljósgeislum fjölskyldunnar.

Mér eru minnisstæð verkefni eins og verkefni á vegum SSR þar sem ég tók saman ógrynni upplýsinga vegna yfirfærslu málefna fatlaðs fólks og öðlaðist ég titilinn „Excel gúrú SSR" fyrir vikið sem er nú ekki ónýtt. Einnig minnist ég með hlýju sumarsins sem ég eyddi í velferðarráðuneytinu að verkefni sem snerist um tillögu að innleiðingu árangursstjórnunar í ráðuneytinu. Stóra verkefni ársins var svo að ljúka rannsókninni minni sem ég hef lengi gengið með sem fjallar um tilfinningavanda í heilsugæslu og aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu. Það var yndisleg stund að senda „barnið mitt" glóðvolgt með pósti til Árósa og ekki síður að útskrifast, fá starfsréttindi sem sálfræðingur og fagna þessum langþráða áfanga með vinum og vandamönnum.

Stórfjölskyldan hefur stækkað um tvo litla ljósgeisla undanfarin tvö ár og er það hreint út sagt dásamlegt að fá svona litla gleðigjafa í hópinn.

Sviptivindar voru í pólitíska lífinu mínu þar sem ég var kjörin formaður landssambands framsóknarkvenna og ferðaðist mikið um í haust. Ég komst að þeirri niðurstöðu í nóvember að ég ætti ekki lengur samleið með Framsóknarflokknum þar sem mér fannst dýrmætum tíma og orku varið í að berjast fyrir breytingum innan flokksins og vegna ágreinings við einstaklinga sem ég á ekki samhljóm með. Lífið er stutt og vanda þarf vel hvernig hverju ári, mánuði, degi og andartaki er varið. Pólitíski áhuginn er hvergi farinn en ég tel kröftum mínum betur varið annars staðar í önnur verkefni.

Árið einkenndist líka af ýmsum „námskeiðum", til þess að bæta mig sem manneskju og tryggja betur mína eigin vellíðan en einnig námskeiðum sem ég vissi ekki að ég hefði skráð mig á en var engu að síður stödd á. Þar með talið má nefna námskeið í samskiptum við fólk bæði samskipti við erfiða einstaklinga og kynni af nokkrum froskum í leitinni að draumaprinsinum. Það eru ekki auðveldu einstaklingarnir sem kenna manni mest í lífinu.

Ég á skemmtilegar minningar sem ég mun taka með mér í bakpokann sem þú hefur gefið mér og ég vona að ég hafi líka gefið þér eitthvað. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér!

Að lokum langar mig að óska þér og þínum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári. Megi þú og þínir njóta ljóss og friðar yfir hátíðina og á nýju ári. Mundu svo að lífið sjálft er dýrmætasta gjöfin sem þú hefur fengið, heilsa þín og velferð og fólkið sem þig umlykur. Vandaðu þig vel hvernig þú nýtir þessa stórkostlegu gjöf og umfram allt njóttu ferðarinnar!

Gleðilega hátíð og megir þú og þínir njóta ljóss og friðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband