Að sjá ekki tréð fyrir skóginum

Tree in the forestÍ kvöld hitti ég yndislegar skólasystur. Við þurftum að rúlla aðeins hringinn, heyra hvað hver og ein væri að gera, kall, ekki kall, fjöldi barna og önnur grundvallaratriði. Um leið og við vorum búnar að tékka það allt af þá var bara eins og við sætum í saumaklúbb ennþá í MR (örfáum árum fyrr hmmm). Að mínu mati vorum við ekki mikið breyttar. Bara eldri, sætari, þroskaðri, vitrari og já kannski aðeins skuldugri enda erum við af kynslóðinni sem "verið er að steikja" á Íslandi. Einhver þarf að taka sig til og slökkva undir pönnunni áður en mín kynslóð brennur við eða skoppar af pönnunni eitthvað annað.

Það er svo gaman að hitta gott fólk og ræða öll heimsins málefni. Mér finnst svona hittingar oft vekja mig til heilmikillar umhugsunar. Umhugsunar um hvað þetta líf okkar er stórkostlegt ferðalag með öllu því merkilega samferðafólki sem er á sömu leið á svipuðum tíma.

Það sem situr eftir hjá mér í kvöld er þetta með að sjá ekki tréð fyrir skóginum. Þegar við erum stödd í einhverjum ákveðnum aðstæðum þá tökum við ákvarðanir okkar út frá öllu því sem vigtar á því augnabliki. Síðar þegar litið er tilbaka í baksýnisspegilinn þá áttar maður sig á að maður myndi taka allt aðra ákvörðun í sömu aðstæðum í dag. Maður furðar sig líka á ákvörðunum annarra. 

Ég var að rifja það upp með stelpunum að þegar ég var á fyrsta árinu mínu í sálfræði þá lést móðir mín. Ég var tvítug. Ég mætti í skólann á milli kistulagningar og jarðarfarar. Ég man þetta svo vel enn. Það kom einhvern veginn ekkert annað til greina. Daginn sem móðir mín var jörðuð átti að vera lítið próf í einum kúrsinum sem ég var í. Fyrirkomulagið var þannig að þetta voru þrjú próf og tvö bestu giltu 15% af lokaeinkunn. Ég fór upp að kennaranum og sagði honum að ég gæti ekki tekið prófið vegna þess að ég yrði í jarðarför móður minnar. Þau svör sem ég fékk voru að kennarinn vissi nú ekki hvort móðir mín hafi verið ung eða hvort þetta hafi verið mikil sorg en ég þyrfti að skila vottorði vegna fjarveru minnar. Ég man enn nákvæmlega hvar þessar samræður áttu sér stað á glerganginum á milli salanna í Háskólabíói. Ég varð bæði reið og sár og eiginlega agndofa. Það endaði þannig að faðir minn sem var að missa konuna sína og móður barnanna sinna skrifaði miða (eins og ég væri 7 ára í leikfimi) um það að Kristbjörg yrði í jarðarför móður sinnar og gæti þess vegna ekki mætt í prófið (7.5% virði skyndipróf í grunn háskólanámi). Daginn eftir labbaði ég með miðann að kennaranum og rétti honum þegjandi og hljóðalaust. Ég er ennþá reið yfir þessu en þarf að fyrirgefa og sættast við þetta.

Punkturinn er þessi. Hvaða máli hefði það skipt kennarann og mig ef hann hefði ekki verið fastur í regluverkinu og valið sér að bregðast við á mannlegri hátt (sálfræðikennarinn)? Hann hefði t.d. getað byrjað á því að hrósa mér fyrir dugnaðinn við það að vera mætt í skólann við þessar erfiðu aðstæður, sagt að hann sýndi því fullan skilning að auðvitað gæti ég ekki mætt og ég gæti valið um að sleppa prófinu eða tekið það jafnvel nokkrum dögum síðar? Hann hefði getað valið það að fara úr formföstu hlutverki sínu og hlúa að nemandanum sem var í þessari hörmulegu stöðu með manngæsku, skilningi og alúð. Reglur eru mikilvægar en í vissum tilfellum þarf maður að horfa á heildarmyndina og bregðast öðruvísi við en reglan segir til um.

Þarna sá hann ekki tréð fyrir skóginum að mínu mati. Hann horfði ekki á heildarmyndina heldur var fastur í því að bregðast við aðstæðunum á formfastan hátt án þess að hugsa um hvað þær snerust. Tvítug manneskja í háskólanámi er ekki líkleg til þess að ljúga til um það að hún verði í jarðarför móður sinnar til þess að sleppa við próf. Að biðja hana að láta votta það eru því viðbrögð sem að mínu mati voru kolröng og hreinlega skaðleg. Ég held að það hafi hreinlega komið á hann og hann ekki vitað hvernig hann ætti að svara þessu.

Mig langaði að skrifa þennan pistil og deila þessari lífsreynslu með ykkur. Einhverju sem ég mun aldrei gleyma. Þessum kennara mun ég aldrei gleyma og enn þá síður þessum afar óviðeigandi viðbrögðum sem voru fyrir mig eins og að sparkað væri í mig liggjandi. Það hefði skipt mig mjög miklu máli ef viðbrögð hans hefðu verið önnur og hann hefði tekið þessu eins og manneskja en ekki kennari sem keyrir á fyrirframgefnu forriti.

Munið alltaf að líta upp úr kassanum í öllum aðstæðum og reyna að setja ykkur í spor viðkomandi. Ef þið eruð slegin út af laginu og vitið ekki hvernig þið eigið að bregðast við segið það þá frekar en gera eitthvað sem skilur eftir sig ör á annarri manneskju ævilangt. Þið gætuð til dæmis sagt, "nú veit ég ekki alveg hvernig á að bregðast við, má ég heyra í þér á morgun með þetta?"

Munið að sjá tréð í stað þess að missa af því í skóginum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algjörlega ömurleg viðbrögð!

Knús á þig elsku vinkona, stundum þarf maður að fyrirgefa ófyrirgefanlega hluti. Þetta er einn af þeim. En örin standa samt eftir.

knús í hús

Linda (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 08:27

2 identicon

Þetta kalla ég pistil skrifaðan af mikilli næmni og af tærum heiðarleika.

Kennarinn brást þarna út af einhverri paragraff X reglu innprentaðri í hausinn á honum sjálfum, en leyfði sér að líta framhjá hinum  mannlega þætti.

Stundum verður mér hugsað til vísdómsorða alþýðu-heimspekingsins, Brynjólfs frá Minna-Núpi, að gildi menntunar sé ekki að verða meiri maður (til rembings), heldur meira maður (til mannúðar og samhygðar).

Gangi þér Kristbjörg svo vel í Samstöðu - flokki lýðræðis og velferðar. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 14.2.2012 kl. 03:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband