Ekki meira óréttlæti og smáskammtalækningar!

Ég trúði vart mínum eigin eyrum þegar ég heyrði Helga Hjörvar formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis lýsa "almennum aðgerðum" í fjölmiðlum í vikunni með þeim hætti að það kæmi til greina að leiðrétta lán þeirra sem væru með verðtryggð lán sem hefðu verið tekin á árunum 2004-2008. 

Ég skil ekki málflutning þingmannsins og skil heldur ekki þá sem þylja sífellt upp gömlu þuluna um það að ekki sé hægt að fara í alvöru almennar aðgerðir.

Strax að loknu hruni var fjármagni dælt inn í peningamarkaðssjóðina til þess að tryggja innistæður fjármagnseigenda en ekki var hægt að leiðrétta lán heimila og fyrirtækja (þrátt fyrir að þegar hafi verið búið að afskrifa stóran hluta þessara skulda í gömlu bönkunum). Kolröng forgangsröðun að mínu mati.

Síðustu þrjú og hálft ár hafa Hagsmunasamtök heimilanna og fleiri barist fyrir almennri leiðréttingu stökkbreyttra lána án árangurs. Aldrei er til fjármagn til þess að fara í aðgerðir. Svigrúmið er uppurið í bönkunum. Að loknum hæstaréttardómi virðist svo skyndilega hafa skapast svigrúm á ný til þess að bregðast við föllnum dómi.

Þau úrræði sem kynnt hafa verið aftur og aftur eru sértækar aðgerðir sem margsýnt hefur verið fram á að ná engan veginn yfir þann víðfeðma vanda sem við er að etja. Ég met það svo að stór hluti almennings upplifi gríðarlegt óréttlæti og ósanngirni varðandi uppgjör hrunsins þar sem reikningurinn var sendur á heimilin en reist hefur verið öflug skjaldborg um fjármálakerfið.

Núna þegar enn á ný hefur myndast pressa varðandi almennar skuldaleiðréttingar eru menn ennþá að tala fyrir sértækum úrræðum - smáskammtalækningum til þess að leysa vandann. Smáskammtalækningar þær sem farið hefur verið í hafa kostað okkur ómældar fjárhæðir, fólksflótta og hörmulega stöðu einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja. 

Með áframhaldi á gagnlitlum, sértækum, óréttlátum úrræðum mun hvorki nást samstaða né skapast möguleiki á víðtækri lausn vandans.

Sértækar aðgerðir:

  • Eru of flóknar og þungar í vöfum til þess að skilvirkni náist.
  • Verðlauna í einhverjum tilfellum þá sem glæfralegast fóru í fjármálum sínum
  • Refsa að sama skapi þeim sem sýndu ráðdeild og ábyrgð í fjármálum
  • Ná ekki fram því réttlæti og sanngirni sem þörf er á til þess að sátt náist í samfélaginu til þess að halda áfram og byggja upp að nýju

Nú er tími til kominn að ráðast í almenna skuldaleiðréttingu þar sem leiðrétt verði fyrir stökkbreytt lán þau sem heimili og fyrirtæki sitja uppi með. Það er kominn tími til þess að afnema verðtryggingu og ná fram raunverulegu réttlæti og sanngirni hér á landi.

Þannig getum við náð samstöðu og byggt upp heilbrigt samfélag á ný.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband