Hrollur niður eftir hryggnum

dock.jpgÞað rann hrollur niður eftir hryggsúlunni á mér þegar seinni skjálftinn skall á húsinu mínu. Ég varð vel vör við fyrri skjálftann og var ekki hrifin en við þann seinni upplifði ég mun meiri ótta og veruleg ónot.

Ég hugsaði hversu skyndilega lífið getur breyst og hversu varnarlaus við erum gagnvart móður náttúru. Þar þýðir ekkert að deila við drottnarann. Fyrsta hugsunin var um fólkið mitt og um það hverju ég ætti að kippa með mér út úr íbúðinni ef ég þyrfti að hlaupa út í skyndi. Sú niðurstaða sem ég komst að í flýti var að ég þyrfti að ná kassanum með öllum filmunum mínum.

Þarna varð mér nokkuð ljóst hvað það er sem skiptir mig máli á svona stundu. Fólkið mitt og minningarnar um það líf sem ég hef átt fram að þessu. Það er minn fjársjóður. Sem betur fer eru minningarnar líka til í einhverri mynd í huga mér en myndirnar hjálpa til.

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við vitum aldrei hvað bíður okkar handan við næsta horn eða við næsta andartak. Það gerir lífið bæði dásamlegt og erfitt. Fólk, umhverfið og við sjálf erum sífellt að koma á óvart. Það er fæst sem er fullkomlega fyrirsjáanlegt. Stundum hefur maður einhverja óþægilega tilfinningu sem síðan reynist fyrirboði einhvers sem maður óttaðist. Stundum gerist eitthvað í umhverfinu sem veldur okkur ótta eða vanlíðan. Stundum veldur annað fólk okkur vonbrigðum með hegðun sinni eða hátterni.

Hin daglega rútína okkar og hversu upptekin við erum oft af smámunum er ákveðinn varnarháttur að mínu mati gegn því hversu lítils við megum okkar í stóra samhenginu. Þægindaramminn okkar sem við getum stýrt að nokkru leyti myndar ákveðinn skjöld gegn hinu síkvika lífi sem kemur sífellt á óvart í ýmsum myndum.

Ég held að það sé gott að byggja sér upp ákveðið öryggi. Það er ekki síður mikilvægt að fara eins vel með hvert andartak, hvern dag, viku, mánuð og ár og við mögulega getum. Það skiptir máli að maður fari eins vel með sjálfan sig og maður getur. Lífið er of dýrmæt gjöf til þess að deyfa sig frá því og láta sig reka stjórnlaust í gegnum það án þess að taka nokkra ábyrgð eða stefnu. Líkami okkar er of dýrmætur til þess að troða hann út af næringarlausu rusli, hreyfa hann ekkert eða misbjóða honum. Hugur okkar er of dýrmætur til þess að leyfa öðrum að planta illgresi þar. Við þurfum að gæta þess vel hvernig við hugsum og hverju við beinum huga okkar að. 

Við höfum vald yfir okkur sjálfum en ekki öðrum og ekki umhverfinu nema að mjög takmörkuðu leyti. Leiðin að betri heimi liggur í gegnum okkur sjálf. Til þess að breyta heiminum þurfum við að breyta okkur sjálfum og vera breytingin sem við viljum sjá.

Við eigum alltaf val. Val á hverju einasta andartaki um það hvernig við hugsum og hvað við gerum. Val um það að fara vel með okkur sjálf og koma vel fram við aðra sem í kringum okkur eru. Við munum samt alltaf gera einhver mistök og detta í pytti. En því meðvitaðri sem við erum og því skýrari sýn og stefnu sem við höfum því betur gengur okkur. 

Ef við höfum vandað okkur og farið vel með gjöfina stóru sem líf okkar er. Ef við höfum komið fram við fólk og sjálf okkur eins og við viljum að það komi fram við okkur þá munum við kveðja sátt þegar kemur að leiðarlokum eins og þeim sem gæti komið að ef náttúran hrifsar af okkur völdin yfir okkar eigin tilveru. Það er góð tilfinning að komast yfir óttann og ná sáttinni. Sátt við lífið sjálft og allt sem það innifelur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband