Skref í átt til framtíðar

Skrefið sem stigið var í gær er tímamótaskref.

Gríðarmikil vinna liggur að baki og nú er hægt að leggja af stað. Mjög líklegt verður að teljast að ýmislegt þurfi að endurskoða og gera betur þegar komið er af stað en þetta er byrjunin.

Fólk með geðraskanir og geðsjúkdóma er hópur sem hefur orðið utanveltu um langa hríð.

Margir hafa ekki átt þess kost að hafa traust þak yfir höfuðið, fá stuðning við að sinna athöfnum daglegs lífs og taka þátt í samfélaginu, félagslífi, atvinnu og menntun.

Í færslu minni áðan ræddi ég um mannauð. Í hópi þeirra sem greindir hafa verið með geðsjúkdóm (þetta er mjög stór og fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir) liggur mikil óvirkjuð orka, mikill mannauður sem legið hefur ónýttur og hefur mikla möguleika.

Með því að flytja þessa þjónustu yfir til borgarinnar þá færist hún nær notendum hennar og minni líkur eru á að mál lendi á milli tveggja brunna eins og títt hefur gerst á milli Ríkis og sveitarfélaga.

Þetta er framtíðin. Að þessu er stefnt strax árið 2011 að flytja málefni fatlaðra frá Ríki til yfir til sveitarfélaga. Þetta er gríðarstórt og flókið verkefni og er þetta ekki mín síðasta færsla um það efni.

Í þessari yfirfærslu er í ótal horn að líta. Þetta verkefni felur í sér dagleg lífskjör ótal einstaklinga og fjölskyldna þeirra og því þarf að standa ákaflega vel að verki.

Eru öll sveitarfélög nógu stöndug til að taka við þessu verkefni? Þyrfti ekki að vera um jöfnunarsjóð að ræða til þess að styðja þau smærri þannig að fólk sem nýta þarf þjónustuna hafi raunverulegt frelsi og öryggi um að fá þjónustuna hvar sem það býr. Hvernig verður staðið að því að flytja yfir alla þá gríðarlegu þekkingu sem aflað hefur verið. Hér er um mikla og ólíka þekkingu að ræða allt frá rekstrarþekkingu í þá sérhæfðu þekkingu sem er til staðar um þjónustu einstaks þjónustunotanda. Verður tryggð ákveðin þjónusta sem sveitarfélögum ber að inna af hendi til þess að fyrirbyggja mun á milli þeirra? Hvernig verður eftirliti háttað? Svona mætti lengi halda áfram. Að mörgu er að huga og ákaflega mikilvægt að náið samráð sé haft við fagmenn á sviðinu, þá á ég við notendur, aðstandendur, starfsfólk og fræðafólk á þessu sviði. Í dag er talsverður munur á sveitarfélögunum t.d. varðandi ferðaþjónustu og liðveislu og því mikilvægt að ákveðin lína verði dregin um lágmarksþjónustu.

Vonandi hafa öll sveitarfélög metnað í sér til þess að keppast um að veita sem besta þjónustu en því miður þá gæti það líka snúist um að hafa hana í lágmarki til þess að spara fjármagn. Sá fjármagnsstofn sem fylgir með verður að vera bundinn þessari þjónustu þannig að hann verði ekki notaður í annað og dregið úr þjónustunni. Einnig þarf að taka tillit til þess að mikil vakning er að verða í málefnum fatlaðs fólks og miklar breytingar í aðsigi svo sem hugmyndir um notendastýrða þjónustu og huga þarf að því að sá fjármagnsstofn sem veittur er í dag er ekki endilega sá stakkur sem raunhæfur er til framtíðar. Mun meiri krafa er um þjónustu í dag en var á árum áður og það er mikið fagnaðarefni okkar allra og mannréttindamál. Við erum bundin lögum og skyldum um að fólk geti lifað eðlilegu lífi á við aðra þjóðfélagsþegna og höfum ritað undir alþjóðlegar viljayfirlýsingar þess efnis og því má aldrei gleyma.


mbl.is Húsnæðisvandi 44 geðfatlaðra einstaklinga leysist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband