Virkjum þjóðina

Það er ein auðlind sem þarf að virkja betur og kom það meðal annars fram í þætti Egils Helgasonar "Silfri Egils" núna rétt fyrir stöndu. Sú auðlind er íslenska þjóðin.

Mér þótti það koma fram í málum margra viðmælenda hans að stjórnmálamenn og þjóðin eru ekki að ganga í takt og ekki er verið að stefna saman að skýrum markmiðum heldur fer gríðarleg orka til spillis í það að benda á blóraböggla og sökudólga í stað þess að einhenda sér í þau mikilvægu verkefni sem bíða. Þetta hef ég skrifað um og er þeirrar skoðunar að almennt fari alltof mikil orka í gagnslaust þras í stað þess að leita lausna. Í stjórnmálum til að mynda þá er betra að eyða orkunni í að þróa þá lausn sem maður trúir á og svo geta kjósendur valið á milli nokkurra vandaðra leiða í stað þess að eyða drjúgum hluta orkunnar í að reyna að sannfæra þá um að leið hinna sé ekki nógu góð og er þá jafnvel farið inn á persónulegar nótur í þeim efnum.

Ég tek undir með Hafliða Jósteinssyni viðmælanda Egils sem kallaði eftir því að stjórnvöld fari að tala mannamál við íslensku þjóðina. Það þýðir ekki að kalla fram hvern sérfræðinginn á fætur öðrum til þess að leggja mat á stöðuna á fagmáli á meðan stjórnvöld sem leiða eiga þjóðina í gegnum þá erfiðleika sem að steðja eru ekkert að tala við hana á mannamáli og eru þess í stað að hendast út og suður í öðrum verkefnum á fálmkenndan hátt og í varnarstöðu þegar þeir tala við þjóðina. Málfar þeirra hefur einkennst af svona: "Við erum sko víst að gera helling... þið bara vitið það ekki!" tóni.

Í þannig aðstæðum verður bara um meira vonleysi og meiri örvinglun að ræða. Þeir sem þjóðin hefur kosið til stjórnar hverju sinni eru þeir sem eiga að taka stjórnina af festu þegar upp koma erfiðar aðstæður og þjappa henni saman í að komast sem best í gegnum það. Þetta er fólkið sem á að stjórna björgunaraðgerðum í stað þess að eyða allri orkunni í það að benda út og suður um hver beri ábyrgð á vandanum eða forða eigin skinni. Þetta er bara eins og að sitja í flugvél sem lendir í vandræðum í háloftunum og hafa flugáhöfn sem eyðir allri orkunni í að rífast eða hlaupa inn á klósett í stað þess að grípa til fumlausra þaulæfðra aðgerða samkvæmt skipulagi og halda öllum farþegum í ró.

Þjóðin hefur farið of langt til hægri undanfarin ár, misst sig í efnishyggju og glatað hluta af sér í einstaklingshyggjunni. Það tel ég vera fyrst og fremst áhrif Sjálfstæðismanna. Við þurfum að efla á ný samvinnu fólksins í landinu, samfélagsleg gildi, efla jákvæðni og nýta þá miklu orku sem býr í þjóðinni í uppbyggingu og til að leysa vandamálin í stað þess að 54% af orkunni fari í innbyrðis núning eins og kom fram í könnun Capacent sem Bjarni Snæbjörnsson hagfræðingur kynnti í Silfrinu . Það þarf samhent átak allra en til þess að svo geti orðið þarf sterka leiðtoga til að leiða slíkt til lykta. Því miður virðast þeir sem nú sitja í því hlutverki ekki ná utanum verkefnið.

Mér þótti einnig áhugaverð gagnrýni hins annars ágæta Sjálfstæðismanns Bjarna Benediktssonar í Silfrinu á leið okkar framsóknarmanna að leggja það fyrir þjóðina hvort hefja eigi aðildarviðræður um inngöngu í ESB með því markmiði að fá fram í slíkum viðræðum um hvað sé verið að tefla þannig að hægt sé að velja á milli þessara tveggja kosta þeas. krónunnar og Evrunnar á upplýstan hátt. Ekki vildi ég vera kjósandi Sjálfstæðisflokksins sem myndi ekki spyrja mig álits um svo mikilvægt mál! Það virðast vera aðrar hugmyndir um íbúalýðræði á þeim bænum. Ég er þeirrar skoðunar að kjörnir fulltrúar eigi að sjálfsögðu að vinna eftir þeirri stefnu sem þeir eru kosnir eftir dags daglega í umboði þjóðarinnar en þegar um slík gríðarleg áhrifamál er að ræða þá eigi alltaf að spyrja þjóðina og fá þannig fram á ótvíræðan máta skoðun hennar. Kannski óttast Bjarni bara það svar sem þjóðin gefur í slíkri kosningu? Það skyldi þó ekki vera?


mbl.is Krafturinn í fórum þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband