Hvað skiptir máli?

Í því ofsaflugi sem verið hefur undanfarna daga verður maður bara að draga djúpt andann og horfa fram á veginn. Maður verður að vera bjartsýnn þrátt fyrir allt.

Það er líka mikilvægt að horfa á málin í því ljósi að skoða hvað skiptir hvert og eitt okkar máli og hvað skiptir stjórnvöld mestu máli einmitt nú.

Það stakk mig illilega að sjá fréttir af næturfundum bankamanna og stjórnvalda þar sem hverri glæsikerrunni var raðað upp hlið við hlið. Bentley, Range Rover ... skiptir þetta mestu máli? Að menn muni jafnvel þurfa að leggja einkaþotunum sínum og kaupa sér einfaldari bíla? Nei, það skiptir mig engu máli þannig er það bara. Hins vegar gæti það skipt einhvern annan máli og ég ætla ekki að hafa áhyggjur af því.

Stjórnvöld eru fulltrúar heildarinnar, umbjóðenda sinna. Þau þurfa að einblína á hvað skiptir heildina máli og tryggja að ekki hrikti í grunnstoðum samfélagsins. Mér þykir þessi bílafloti heldur blóðugur þar sem manni leikur grunur á að einhverjir þessara bíla séu keyptir fyrir ofurlaun þau sem hafa verið mikið til umræðu í okkar samfélagi. Hver skilar svo gríðarlegu vinnuframlagi að það sé metið á tugi milljóna á viku? Og það sem vekur athygli manns við lestur Frjálsrar verslunar á hverju einasta ári er sá "skemmtilestur" að lesa um furðulega röðun manna hvað varðar laun og sumir þeir sem keyra um á glæsikerrum eru rétt á lágmarkslaunum! Manni ofbýður þetta brask bara hreinlega! Hvernig stendur á því að skattayfirvöld geti ekki fest klærnar í slíkt svindl? Það er nánast þjóðaríþrótt að stinga undan skatti!

Nú er tækifæri til breytinga. Nú þurfa stjórnvöld að einblína á samvinnustefnuna. Það þarf að koma í veg fyrir það að menn geti skammtað sér ógnarfjárhæðir í laun á kostnað skattborgara en það hefur orðið raunin í dag að einhverju leyti. Við höfum sennilega greitt stóra hluta í þeim Bentley-um og Range Roverum sem keyra um götur borgarinnar. Stjórnvöld þurfa að beina sjónum sínum að grunnstoðunum. Tryggja atvinnuvegina þarnnig að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki, hlúa að fjölskyldunum og þeim sem hvað verst verða úti í því fárviðri sem geysar.

Svo þarf að aðskilja algjörlega viðskiptabanka og þjónustubanka. Það má bara ekki "gambla" með almannafé. Og það á ekki að borga ofurlaun fyrir almannafé! Ef bankarnir ætla að halda áfram sinni útrás og áhættum þá þarf að aðskilja slíkt algjörlega skattfé almennings. Seðlabankinn og sjóðir svona fámennrar þjóðar geta ekki bakkað upp banka sem hafa þanist svona mikið út! Einhver myndi segja að bankarnir hafi skilað gríðarlegum fjárhæðum inn í kerfið. Að einhverju leyti er það rétt en að einhverju leyti tel ég það vera hálfgerða platpeninga. Ekki varð ég heldur vör við það að bankarnir væru að leyfa íslenskum almenningi að njóta góðs af þeirra miklu útrás nei, sá peningur fór í að greiða ofurlaun og bera undir peningamenn meðal annars ferðir til fjarlægra landa og flottar veislur á kostnað skattborgara og með ýmiss konar fáránlegum þjónustugjöldum sem þekkjast varla annars staðar.

Nú þurfum við að taka höndum saman, setja hausinn undir okkur og komast í gegnum næstu mánuði. Stjórnvöld þurfa að einblína á heildina en ekki hagsmuni nokkurra peningamanna. Mestu máli skiptir að halda atvinnuvegum opnum og sinna grunnþjónustu samfélagsins og fjölskyldunum í landinu. Það verður að gera allt sem hægt er til að tryggja áfram vinnu-vöxt-velferð landsmanna.


mbl.is Engar viðræður um sameiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Laun og bílaeign helst ekkert nauðsynlega í hendur.  Mér er hugsað til Útgerðarmannsins þarna í Eyjum, sem ók alltaf um á sama BMW bílnum.  Í 20 ár.  Góður bíll, það.

Hvaða bjáni sem er getur (eða gat) rölt inn í umboð og fengið í hendurnar 15 milljóna Range Rover með engri útborgun.  Skömmu seinna hirti lýsing hann náttúrlega, en það er fjör meðan það endist.  Þá er bara skift um kennitölu...

Ásgrímur Hartmannsson, 30.9.2008 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband