Vinnuhamstrar á hlaupahjólum...

Það hefur verið í tísku hér síðastliðin ár að hamast eins og hamstur á hlaupahjóli myrkranna á milli. Það hefur þótt smart að skila inn ógrynni tíma á viku, langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Ef ekki á sama vinnustaðnum þá í mörgum störfum.

Þessi vinnusemi hefur ekki endilega komið okkur til góðs. Hún hefur leitt til þess að vinnumarkaðurinn gerir of einsleitar kröfur og börnin fá dauðþreytta foreldra þegar loksins er tími til samveru. Það er heilmikið til af efnilegum starfskröftum sem hafa skerta starfsorku og það hefur ekki verið nægilegt rými fyrir fólk sem passar ekki inn í rammann. Það hefur einnig þótt leti að vinna t.d. "bara 75% starf" og vilja sinna börnum hinn tímann.

Hér í Danmörku er algengast að fólk skili 37 klst. á viku fyrir fullt starf. Það eru alls ekkert allir í fullu starfi. Í raun er hægt að sækja um starf sem er 1klst. á viku. Í fullu starfi vinnur fólk sem svarar 8-16 og 8-13 á föstudögum. Hér sér maður fólk iðulega sækja börnin sín snemma á föstudögum.

Ég tel þetta vera eitthvað sem við Íslendingar eigum að tileinka okkur. Við eigum að vinna minna hvert og eitt og breikka rammann þannig að sem flestir geti fundið sig á almennum vinnumarkaði.

1) Það skilar betri vinnuafköstum því fólk hvílir sig þá betur. Fólk sem vinnur allt of mikið skilar ekkert endilega besta vinnuframlaginu!

2) Það leiðir til þess að störf skapast fyrir fleiri en "hamstrana á vinnuhjólunum".

3) Fólk á meiri tíma með börnunum sínum sem leiðir til vellíðanar og ánægju þeirra. Það er sko fjárfesting sem skilar þjóðfélaginu arði og sparar kostnað í velferðarkerfinu.

4) Fólk glímir síður við vinnutengda vanlíðan eins og líkamlega kvilla, streitu, kvíða eða þunglyndi vegna of mikils álags. Það er líka góð fjárfesting og skilar okkur sparnaði í heilbrigðiskerfinu.

5) Með breiðari og margbreytilegri starfsmannahóp fáum við einfaldlega miklu skemmtilegri vinnustaði! Það ætti að byrja með því að veita fyrirtækjum viðurkenningu sem endurskipuleggja starfsmannahaldið í þessa veru.

Það mætti t.d. byrja á Alþingi því það er vitað mál að vinnuaðstæður þar eru til skammar. Að sitja undir ræðum og flytja ræður langt fram eftir nóttu getur ekki leitt til vitrænna vinnubragða eða bestu niðurstöðu í flóknum ákvörðunum fyrir þjóðina! Það gerir líka fjölskyldufólki ákaflega erfitt fyrir að bjóða sig fram til Alþingis. Ég vil sjá Alþingi breyta háttalagi sínu í þá veru að krafist sé 37 klst. vinnuframlags af alþingismönnum. Held það myndi oft skila okkur mun faglegri vinnubrögðum og heilbrigðari alþingismönnum.

Tökum niður hlaupahjólin og förum að ganga í takt, hvert á sínum hraða!!!


mbl.is Öld testósterónsins lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Tryggvason

Frábær og tímabær ábending, Kristbjörg; um leið mætti auka afköst (framleiðni) á þeim færri vinnustundum sem lagðar væru að mörkum - því að flestar þjóðir hafa meiri framleiðni á hverja vinnustund en við.

Gísli Tryggvason, 7.2.2009 kl. 15:31

2 identicon

Ágætis ábending.

 Þó er Danmörk ekki gott fordæmi þegar kemur að börnum. Meirihluti dana fleygir 3-6 mánaða gömlum börnum á heilsdagsstofnanir.  Notkun þeirra á stofnunum til barnauppeldis er ekki til fyrirmyndar.

Doddi D (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 20:11

3 Smámynd: Freyja Haraldsdóttir

Góður pistill og mikilvægur

Freyja Haraldsdóttir, 8.2.2009 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband