"Vér mótmælum öll"

Kæru Íslendingar,

mótmælum því að verið sé að hneppa okkur í skuldaþrældóm!

Við eigum að borga fyrir skuldir óreiðumanna, skuldir sem við berum enga ábyrgð á. Skuldir sem eru afsprengi sjúklegrar græðgi, vita vonlauss regluverks runnið undan rifjum EES samningsins og ESB. Skuldir sem eru tilkomnar vegna handónýts eftirlits.

Verðum við látin greiða þetta þá munum við þurfa að borga 100 milljónir í vexti af þessum óskapnaði á hverjum einasta degi um ókomin ár. Við vitum ekki einu sinni hversu lengi og hversu mikið við komum til með að borga á endanum. Á sama tíma er verið að klípa af öllu sem mögulegt er og verið að tína krónur og aura úr götóttum vösum almennings. Fólks sem búið er að sníða þrengsta mögulega stakk eftir vexti. Það er ekki nóg. Það er bara klippt af vestinu. Nýleg skerðing á fæðingarorlofi foreldra ófæddra barna okkar er svínslegt dæmi um það. Hvernig samfélag mun þetta skilja eftir sig?

Við eigum að fara með mál okkar fyrir alþjóða dómstóla og leita réttar okkar. Við eigum að auki að tryggja það að gerð verði upp þau hörmulegu mál sem átt hafa sér stað og menn dregnir til ábyrgðar. Við eigum að byggja upp nýtt regluverk og læra af mistökum fortíðar og við eigum að tryggja að hér verði eftirlit með því sem fram fer hjá stjórnvöldum og í viðskiptalífinu.

Við eigum ekki að halda áfram og gera samninga við menn sem liggja undir grun fyrir stórfelld brot og við eigum ekki að ráða til ábyrgðarstarfa fólk sem ber klárlega mikla ábyrgð á því hvernig fór. Á þeirri slæmu vegferð er ríkisstjórn Íslands. Sama stjórn og leynir upplýsingum og stendur hvorki við samráð það eða gagnsæi sem þeim var svo tamt að tala um þegar kaupa átti hylli kjósenda s.l. vor.

Með breyttu háttalagi eigum við von til þess að reisa hér nýtt og betra samfélag og öðlast traust hvers annars og alþjóðasamfélagsins á ný.

Það er sorglegt að við skulum ekki taka höndum saman sem þjóð og berjast gegn því ægivaldi sem nú vofir yfir okkur. Það er sorglegt að þessir annars ágætu flokkar Samfylking og Vinstri grænir skuli ekki hafa kjark til þess að berjast fyrir heill þjóðar sinnar. Það er sorglegt að íslenska þjóðin skuli ekki geta treyst leiðtogum sínum til þess að berjast fyrir hag alþjóðar en þess í stað beygja sig undir kúgun, óheiðarleika og ofbeldi stórvelda og gerast meðvirk í þessu sjúklega ferli. Ég held að þessu ágæta fólki geti ekki verið sjálfrátt. Hver gerir þjóð sinni þetta?

Ég mótmæli þessum óskapnaði harðlega. Ég mótmæli þessum hörmulegu vinnubrögðum og ég mótmæli óhæfri ríkisstjórn.


mbl.is Icesave-umræðu lýkur í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála hér ég mótmæli. Vér mótmælum allir!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.12.2009 kl. 18:31

2 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Ég er sammála þér frænka. Hvenær ferð þú á þing?

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 30.12.2009 kl. 18:41

3 identicon

Sammála, takk fyrir að skrifa um þetta;)

Anita (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 18:46

4 identicon

Ég er svo sammála þér.

Geir (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband