Gleðilegt nýtt ár

 

images.jpg

 

Jæja nú er kominn tími á bloggfærslu.

Nú þarf maður að kveðja jólin enn eina ferðina, búið að sprengja upp árið 2010 og árið 2011 er runnið í hlað.

Mér finnst þetta alltaf jafn merkilegur tími. Þrátt fyrir kuldann, myrkrið og tilfinninguna að vilja bara kúra af sér þessa mánuði þá er þetta samt svo heillandi tími. Tími kertaljósanna, jólaljósanna, bestu vinir manns þessir bústnu rauðu fá að njóta sín í stofunni þangað til þeim verður pakkað niður sem gerist um helgina reyndar... Þetta er líka tími með alvarlegra ívafi. Tími til þess að horfa á árið sem við vorum að kveðja og kemur aldrei aftur. Fara yfir það í huganum eins og ljúfa kvikmynd. Hvað gerði ég á þessu ári? Var eitthvað vit í því? Hvað stóð upp úr? Hvað lærði ég? Hverja hitti ég, hverja kvaddi ég og svo framvegis. Hvert og eitt okkar hefur sinn stíl á þessu.

Í upphafi nýs árs er svo tími til þess að skoða markmiðin sín. Náði ég þeim? Fór ég fram úr mér með einhver þeirra? Og svo er komið að því að setja sér ný markmið. Sumt setur maður sér aftur og aftur eða það geri ég amk. Hluti sem ég vil hafa á blaðinu mínu sem ég veit að ég mun enn þurfa að minna mig á þegar ég verð orðin öldruð kona. Ef ég verð svo heppin.

Lífið er hlaðborð. Hvert og eitt okkar býr yfir takmarkalausum tækifærum. Við getum breytt flestu af því sem við viljum breyta. Tækifærin eru okkar. Vissulega kemur lífið líka stundum aftan að okkur, gerir okkur bilt við eða færir okkur eitthvað ömurlegt upp í hendurnar. En við getum alltaf valið um það hvernig við tökum á móti því sem lífið sjálft færir okkur. 

Það er svo merkilegt með breytingarnar. Flest viljum við breytingar hér amk. eftir að allt hrundi. En samt gerum við svo lítið til þess að breyta hlutunum. Við höldum áfram í hinu þekkta fari vegna þess að það er kannski skárra en hið óþekkta. Hver vill fara út í óvissuna? 

Og einhvern veginn þá er oft svo miklu auðveldara að finna sér bara einhvern sem manni finnst mark takandi á og elta viðkomandi eins og hver önnur rollan í hinni þekktu og alræmdu hjarðhegðun. Ef þessi flotti einstaklingur vill svartan leðursófa, þá hlýt ég að vilja það líka! Einn svartan leðursófa takk! Ef það er töff að vera á jaðrinum þá er best að koma sér út á jaðarinn og vera eins og hinir. Það er líka fínt að skella sömu ímyndinni á mismunandi hópa þannig að maður geti notað bara eina stærð fyrir alla því þá þarf maður ekkert að vera að eyða orku í að mynda sér mismunandi skoðun á hverjum og einum, það er allt of flókið. Allir stjórnmálamenn eru spilltir, allir bankamenn eru glæpamenn...

En hvað finnst þér? Hvað vilt þú sjálf/sjálfur? Hver ert þú og hvert ertu að fara? Ertu að koma bara úr hægra horninu eins og Patterson eða hvað?

Ég held að það sé stóra verkefnið okkar. Það er að finna út hvað það er sem mér finnst, hvað það er sem ég vil, setja sér sín eigin markmið og byrja á því að bæta heiminn með því að bæta sjálfan sig. Þannig held ég að við sem heild komumst áfram. Ekki með því að reyna alltaf að elta misvitra aðila hverju sinni sem við höldum að hafi lausnina á hamingju lífsins. Hvert og eitt okkar hefur hana fyrir sig, innra með sér.

Gleðilegt nýtt ár og njóttu þess að líta inn á við í upphafi þessa nýja árs, rannsaka þinn innri mann og gera áætlun fyrir þig út frá því. Það er mín tillaga að uppskrift að hamingju og farsæld fyrir okkur öll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband