Hugleiðingar um aðgengi og samfélagið

KiddaReglulega er hollt að rýna í stöðu samfélagsins. Í þessum stutta pistli gefst aðeins færi á að skoða stöðu samfélagsins út frá einu sjónarhorni. Ég ætla að setja upp aðgengisgleraugun að þessu sinni. Staðan í þjóðfélagi okkar er enn þannig að fólk sem hefur skerðingar mætir hindrunum í samfélaginu. Þessar hindranir geta verið af ýmsum toga eins og manngert aðgengi, aðgengi að upplýsingum, aðgengi að samneyslu, fordómar, neikvæð viðhorf og fleira. Samfélagið er skipulagt með þarfir meginstraumsins í huga en jaðarhópar eru ekki teknir með nema að takmörkuðu leyti. Sem dæmi um hindranir sem skapa fötlun í formi manngerðs aðgengis eru tröppur og þröngar hurðir. Það er undarlegt að opinber fyrirtæki sem og þjónustufyrirtæki skuli geta starfað án þess að geta tekið á móti öllum sínum viðskiptavinum á mannsæmandi hátt. Þetta ætti að vera bundið innan lagarammans og þjónustustofnanir fengju ekki starfsleyfi nema hafa þessi mál í lagi. Varðandi aðgengi að upplýsingum þá eru langflestar heimasíður veraldarvefsins hannaðar á þann hátt að erfitt er fyrir fólk með skerðingar að nota þær á þægilegan máta. Aðrar upplýsingaveitur senda sjaldnast frá sér efni á auðskildu máli, með stóru letri eða á aðgengilegan hátt. Varðandi samneyslu þá byggja þegnar þjóðfélagsins saman upp velferðarkerfi sem á að þjóna okkur öllum. Samneyslan er meðal annars heilbrigðiskerfið og skólarnir. Skólar eiga að vera án aðgreiningar eins og framast er kostur en sjaldnast er það raunin. Nemendur með skerðingar eiga ekki greitt aðgengi inn í þá og ef þeir eiga það skortir iðulega stuðning til þess að þeir nái að fylgja sínum félögum eftir. Því er greinilegt að betur má ef duga skal. Við munum seint byggja upp hið fullkomna samfélag en mörg atriði er einfalt að leiðrétta ef hugað er að þeim strax í upphafi. Það sem betra er að flest það sem eykur aðgengi fyrir fólk sem þarf á því að halda eykur aðgengi fyrir alla aðra í leiðinni. Því er ekki einungis verið að greiða götu þeirra einstaklinga sem búa við skerðingar heldur er einnig verið að einfalda samfélagið fyrir nýja Íslendinga af erlendu bergi brotnu, fyrir aldrað fólk, fyrir börn og alla aðra að einu eða öðru leyti. Sem dæmi um þetta má nefna það að ef heimasíður eru settar upp á þann máta að auðvelt sé að stækka letur eða breyta bakgrunni og efnið er sett fram á auðlesinn og skýran hátt þá hefur sú breyting jákvæð áhrif á flesta í samfélaginu. Allt frá þeim sem hefur slæma sjón til þess sem skamman tíma hefur til að renna yfir efnið. Hér þarf stórátak en fyrsta skrefið er hugarfarsbreyting. Viðhorfið þarf nefnilega að vera það að öll eigum við sama rétt og því þarf að hafa alla í huga við uppbyggingu samfélagsins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband