Tímamót

Það urðu tímamót hjá mér og tvíburasystur minni síðasta föstudag en þann dag urðum við þrítugar eða samtals sextugar.

Það eru fimmtán mínútur á milli okkar og er undirrituð korteri yngri og flokkast því sem örverpið í fjölskyldunni. Það er ansi merkilegt að verða þrítugur. Þegar ég varð tvítug þá þótti mér það mjög spennandi því þá var maður orðinn fullorðinn! Þegar ég varð 25 þá þótti mér það ekki eins spennandi og ákvað að halda ekkert mikið upp á það. Mér fannst þessi fimm ár hafa liðið of hratt og ég ekki búin að áorka því sem stóð til fyrir þennan tíma. Og þegar ég varð þrítug þá þóttu mér sú fimm ár hafa liðið allt of hratt og ég á enn langt í land með að komast á þann stað sem ég ætlaði að vera á þegar ég yrði þrítug.

Þegar ég var krakki þá þótti mér fólk á þessum aldri vera orðið miðaldra og ég bjóst við að ég yrði búin að mennta mig, eignast varanlegt húsnæði og fjölskyldu á þessum tíma. En lífið er ekki alltaf eins og maður planar það. Þegar ég hugleiddi það betur þá er ég bara mjög þakklát fyrir þrítugsafmælið þrátt fyrir að það hafi ekki alveg fylgt fyrirfram ákveðinni uppskrift.

Af hverju ætti maður að vera þakklátur fyrir slíkt? Jú, það eru alls ekki allir sem eru svo heppnir að ná þessum aldri. Þess vegna tel ég að maður eigi að þakka fyrir hvern einasta afmælisdag sem maður á og fagna honum með veislu. Ég og tvíbbinn minn héldum veislu fyrir okkar nánasta fólk og það var dásamlegt að eyða deginum með því og rifja upp gamlar og góðar minningar.

Það er ansi merkilegt að vera tvíburi. Þrátt fyrir að vera tvíeggja og því ekki í raun skyldari en hver önnur systkini erfðafræðilega þá er ansi stutt taug á milli okkar. Þegar við vorum litlar þá viðbeinsbrotnaði ég og tvíbbinn fann sársaukann. Við þekkjum hvor aðra svo vel að það er erfitt að ímynda sér það. Það er mögnuð tilfinning að vera á þennan hátt hluti af tvíeyki. Það er líka ekki hægt að lýsa því hvernig það er að eiga tvíbura sem styður mann alltaf í gegnum súrt og sætt og er tilbúin að verja mann með kjafti og klóm. Þegar við vorum litlar og enn þá vegum við hvora aðra upp. Ég sá um þann hluta að rökræða við fólk og ná fram niðurstöðu en hún ruddi veginn!

Elsku Alla mín!

Takk fyrir yndislegan afmælisdag og takk fyrir samfylgdina síðustu 30 ár og níu mánuði. Ég hlakka til að deila næstu 70 árum með þér Smile.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Kristinsdóttir

Til hamingju með daginn,

Anna Kristinsdóttir, 13.5.2008 kl. 13:18

2 Smámynd: Aðalheiður Þórisdóttir

Sömuleiðis takk fyrir mig

Ég vona að ég fái 40 til 45 ár til viðbótar en ekki meira.  Miðað við hvernig komið er fram við gamalt fólk á Íslandi í dag, þá hef ég ekki minnstu löngun í að verða gömul og fara á elliheimili!!

Ég ætla að lifa hvert ár sem ég fæ líkt og það sé mitt síðasta.  Mín heitasta ósk er að deyja ekki sem gömul veikburða kona.  Ég vil deyja á meðan ég bý enn í mínu húsi og held enn mínu stolti.  Þú sérð það Kidda mín, kona sem getur ekki hugsað sér fjölbýlishús mun varla þola við á elliheimili þegar hún þarf líklega að deila herberginu með einhverjum öðrum .  Algjör skömm af því hvernig farið er með gamalt fólk, arrg.

Aðalheiður Þórisdóttir, 14.5.2008 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband