Ný bjartari sýn með sigri Obama

Barack Obama hefur tekist það sem fæstir hefðu trúað að væri mögulegt. Honum hefur tekist að komast í valdamesta embætti heims. Aðeins nokkrum áratugum eftir að kynbræður hans máttu líða óréttlæti og þjáningar af hendi hvíta mannsins hefur honum sem er bæði svartur og hvítur tekist að sameina marga ólíka kynþætti og gefa öllum heiminum nýja von. Það er táknrænt að hann skuli vera sonur svarts föður og hvítrar móður. Hann er sameiningartákn nýrra tíma.

Það er eitthvað við Obama sem veldur því að hann sker sig úr. Eitthvað heillandi. Það er eitthvað við hans persónulega sjarma sem gefur manni von um betri og yfirvegaðri tíð. Hann er sameiningartákn okkar allra. Það er engin tilviljun að allur heimurinn fylgdist með sigurgöngu hans og allur heimurinn fór hátt upp á kosninganótt með sigri hans. Hann mun hafa áhrif. Áhrif til góðs. Hann gefur minnihlutahópum von um að allt sé hægt og undirstrikar að það séu breyttir tímar.

Í sumar var ég stödd í Berlín á ráðstefnu á sama tíma og Obama var þar. Það var tilviljun að ég frétti af ræðu hans því leigubílstjóri sem keyrði okkur heim sagði okkur frá því að hann ætti að tala á þessu torgi næsta dag. Það skemmtilega við þetta var að þetta var einungis nokkuð hundruð metra frá íbúðinni sem við stelpurnar höfðum leigt. Ég lét því ekki segja mér þetta tvisvar og fór snemma heim af ráðstefnunni næsta dag og rölti í áttina að þessu torgi. Einhvern veginn óafvitandi um hvað biði mín þá var ég með stútfulla ráðstefnutösku og allt of mikið klædd í hitanum í háhæluðum skóm. Ég tímdi ekki að fara heim og losa mig við draslið af ótta við að missa af ræðunni.

Það tók óratíma að komast loksins inn að aðalmiðju torgsins þar sem sviðið var. Slíkan troðning hef ég aldrei á ævinni upplifað enda voru minnir mig 200 þúsund manns stödd þarna og hver einasti cm var skipaður fólki sem var þarna í sama tilgangi og ég. Að heyra í vonandi tilvonandi forseta Bandaríkjanna. Til þess að komast alveg inn í miðjuna þurfti að fara í gegnum vopnaleit og það tók óratíma að komast í gegnum það. En biðin og þrengslin, föst innan um ókunnugt fólk með troðna ráðstefnutöskuna og að kafna úr hita var þess virði. Það var mögnuð tilfinning að heyra ræðu hans og upplifa viðbrögð áheyrenda. Maður fann það á hverju skynfæri sínu að þarna væri sannur leiðtogi fólksins á ferð. Það var mjög mikið af lituðu fólki þarna og sæluvíman og brosið á andliti hvers og eins bar vott um þá tíma sem fólkið er að upplifa núna. Ásýnd þeirra bar vott um sigur. Að hafa eignast nýjan leiðtoga sem mun leiða okkur inn á alveg nýja braut.

Ég spái því að Obama muni taka Vestræna heiminn lengra inn að miðju og til vinstri en hann hefur verið hingað til. Það má segja að það sé bara engin stemming fyrir þeirri pólitík sem stunduð hefur verið víða síðustu ár. Sú hægristefna sem stjórnast af peningagræðgi, markaðsöflum og einstaklingshyggju á ekki upp á pallborðið á krepputímum og hefur beðið skipbrot. Obama boðar að mínu mati meiri samvinnustefnu þar sem samfélagið tryggir ákveðnar grunnstoðir eins og til dæmis aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Obama vill lagfæra það ömurlega tvískipta einkavædda heilbrigðiskerfi sem er í Bandaríkjunum og tryggja aðgengi. Það stefndi hratt í að áþekkt kerfi yrði til smám saman á Íslandi með einkavæðingaráformum íhaldsins.

Ég bind von við réttlátari heim með komu hans í þetta embætti. Heim þar sem við öll erum fædd sem manneskjur og eigum sömu tækifæri og sama rétt og vinnum saman að því að marka okkur gott samfélag án þess að það bæli niður frelsi okkar og framúrstefnu. þetta er vel í anda miðjustefnunnar þar sem samvinna ríkir um grunnþætti samfélagsins án þeirrar öfgafullu skattpíningar og flatneskju sem flokkar of langt til vinstri stunda. Einstaklingsframtakið má ekki bæla alveg niður en það má heldur ekki algjörlega taka stjórnina. Hinn gullni meðalvegur er bestur.

Ég spái því að staðan á Íslandi sé ekki ósvipuð. Sjálfstæðisflokkurinn er dottinn úr tísku. Fólk lítur meira inn á miðjuna eða til vinstri við þær aðstæður sem eru uppi núna. Þau málefni sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð og sem þegnar alþjóðasamfélagsins krefjast ríkrar samvinnu. Þar þýðir ekki að standa bara í horni frjálshyggjunnar og segjast vera sinn eigin gæfu smiður. Þeir tímar sem framundan eru krefjast samtryggingar samfélagsins. Fólk fer misilla út úr þessu og samfélagið þarf að koma þeim sem verst eru staddir til hjálpar. Einnig þarf að styðja vel við bakið á allri nýsköpun og menntun því þar liggur lykill okkar að framtíðinni.

Ég hef fengið nýja sýn með sigri Obama, sýn um að allt sé hægt í þessum heimi. Ég er því bjartsýnni í dag en ég var áður fyrr.

Draumar hvers og eins geta ræst.


mbl.is Barnið skal heita Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Já gott að hann náði kjöri, knús og kveðjur.

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 6.11.2008 kl. 22:32

2 Smámynd: Einar Sveinn Ragnarsson

Hæbbs, rosa grein hjá þér hehe.  Alveg er ég sammála að það sjái fram á bjartari og betri tíma með kosningu þessa tímamótamanns.  Hins vegar langaði mig að benda þér á að "kynbræður" Obama eru víst allir karlkyns og sennilega væri engin kona "kynbróðir" hans.  Ekki þori ég að fara með hvort að orðið "kynþáttabróðir" sé orð en ég held að það væri samt réttara að beita því þar sem að um er rætt misrétti í garð þeldökks fólks. 

Þessi athugasemd er bara sett fram í góðu og ekki er ég að reyna að setja út á þennann annars ágæta pistil hjá þér.  Því síður er ég femenisti en ég vil meina að hörundsdökkar kynsystur þínar hafi orðið fyrir misrétti "hvíta mannsins" alveg eins og hörundsdökkir kynbræður mínir.

Einar Sveinn Ragnarsson, 7.11.2008 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband