Hvað ætlar þú að kjósa? X-Breytingar!

Næstkomandi laugardag þann 25. apríl gengur þjóðin til kosninga og kýs sér nýja forystu. Kosningar þessar eru sennilega þær mikilvægustu á lýðveldistímanum.

Þær snúast um það að kjósa það fólk og framboð sem hver og einn treystir best til þess að fylgja eftir rannsókn á efnahagshruninu, takast á við bráðavanda heimila og fyrirtækja, vinna að úrlausn til framtíðar og uppbyggingu betra samfélags. Nú dugar ekki lengur að karpa og þrasa um keisarans skegg... Það sem hjálpar íslenskri þjóð er málefnaleg, góð og lausnamiðuð umræða.

Við í Framsókn höfum í vetur verið boðberar nýrra tíma og um okkur leika ferskir vindar breytinga. Í janúar kusum við okkur nýja forystu til að leiða okkur inn í nýja tíma. Flokkurinn hefur afrekað ótalmargt þau rúmlega 90 ár sem hann hefur starfað og verið kjölfesta í íslensku samfélagi. Hann hefur líka gert mörg mistök í gegnum tíðina og stundum borið af leið frá grundvallarstefnu sinni. Við erum reynslunni ríkari og gerum betur í dag en í gær!

Við erum flokkur sem lætur róttækar aðgerðir fylgja orðum. Í vetur og vor höfum við barist af alefli fyrir stjórnlagaþingi sem færa myndi þjóðinni tækifæri til þess að semja sér nýja stjórnarskrá og gera grundvallarbreytingar á stjórnskipun landsins. Stjórnarskrá okkar sem er nánast óbreytt frá Danakonungi er barn síns tíma og þarfnast þeirrar endurgerðar sem lengi hefur staðið til að gera. Grundvallaratriði þarf að skoða eins og til dæmis að skerpa á þrískiptingu ríkisvaldsins, auka möguleika til persónukjörs og setja inn ákvæði um að auðlindir okkar séu í þjóðareigu. Því miður tókst Sjálfstæðismönnum að taka þetta tækifæri af þjóðinni að minnsta kosti um sinn og svæfa í þinginu.

Við viljum aðgerðir strax og lýsti formaður flokksins því yfir að kjöri sínu loknu að hann vildi leita ráðgjafar færustu sérfræðinga til þess að takast strax á við bráðavanda heimila og fyrirtækja. Sú vinna fæddi af sér vel útfærðar efnahagstillögur í 18 liðum þar sem sú umræddasta fjallar um 20% leiðréttingu á skuldum heimila og fyrirtækja með því markmiði að forða enn frekara hruni.

Framsóknarmenn vildu einnig að kosið yrði við fyrsta tækifæri til Alþingis til þess að þjóðin gæti valið sér nýja leiðtoga við gjörbreyttar aðstæður. Kosningarnar á laugardaginn eru í boði Framsóknar sem náði að ýta fyrrverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðismanna upp úr þeim pytti úrræðaleysis sem þeir sátu með alla þjóðina fasta í.

Margt af því sem við í Framsókn höfum talað fyrir hefur komið fram í stefnu ýmissa grasrótarhópa og borgarahreyfinga sem sprottið hafa upp úr jarðvegi búsáhaldarbyltingarinnar. Það má ekki gleymast í þeirri umræða sem ríkt hefur um fjórflokkana að stjórnmálaflokkur er hvorki meira né minna en fólkið sem í honum er. Mín reynsla er sú að stjórnmálaflokkar séu ekki lokað vígi heldur fjöldahreyfingar sem hver og einn getur gengið inn í og haft mikil áhrif fylgi áhugi og vilji til virkrar þátttöku. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að sem flestir taki þátt í því að reisa nýtt og betra Ísland. Saman komumst við lengra!

Ekkert er svo slæmt að það boði ekki eitthvað gott. Það má segja um þá erfiðu og dimmu tíma sem nú ríkja. Á þessum tímum má aldrei gleyma því einstaka tækifæri sem landsmenn hafa til þess að hugsa samfélag sitt frá grunni, hugsa út fyrir rammann af krafti og þor og byggja upp á nýtt reynslunni ríkari.

Ég hvet þig kjósandi góður til þess að skoða vel stefnumál okkar Framsóknarfólks og hvað við sem flokkur og frambjóðendur okkar standa fyrir í dag og merkja X við B á laugardaginn. Við munum leggja okkur öll fram við að byggja upp betra samfélag fyrir okkur öll með góðu liðsinni þínu!

Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.

(pistill birtur á www.suf.is 21.4.2009)


mbl.is Margir ætla að skila auðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband