Jólahefðir - jólaandi

image001[1]
 

Í þessum rituðu orðum eru landsmenn flestir að fagna hátíð ljóss og friðar. Ég óska þess að allir nái að njóta jólahátíðarinnar eins og best verður á kosið.

Ég hef verið að hugsa um jólahefðir. Hversu mikilvægar þær eru. Það er eitthvað við jólin hjá hverjum og einum sem er alveg heilagt. Eitthvað sem maður heldur í á hverju ári. Eitthvað sem segir manni að nú sé komið að þessari stund enn á ný.

Af hverju ætli jólin skipti okkur flest svona miklu máli? Ég hef verið að velta þessu fyrir mér. Ég held að það sem skipti máli sé það að á þessum dögum þá kemst maður nærri sjálfum sér og öðrum en vanalega. Tilfinningar manns eru óvenju lifandi þessa dagana og maður hugsar meira um sjálfan sig, þá sem maður elskar og náungann. Hið hefðbundna dægurþras við sjálfan sig og aðra fær að víkja.

Eitt af því sem er mér alveg heilagt á jólum er að fara í kirkjugarðana og sjá öll fallegu ljósin og þann bjarma sem lýsir allt upp þar. Hvert einasta ljós er tákn um lífshlaup. Hvert einasta ljós er tákn um að einhver skuli minnast og virða þessa manneskju sem nú er fallin frá. Minningin lifir er sagt og það á virkilega vel við um jólin þegar minningar lifa og lýsa upp kirkjugarðana. Þær lýsa líka upp hjörtu okkar því manni verður mun meira hugsað til annars fólks. Maður fer yfir fyrri ár, og árið sem er að renna sitt skeið í huganum og skoðar minningar. Það verður fátt dýrmætara í þessu lífi en góðar minningar. Svo kveikir maður ljós á leiði látinna ættingja til að heiðra þessa minningu, sendir þeim sem eru manni kærir jólakveðju og gefur einnig gjafir til að gleðja þá sem standa manni næst.

Á jólum er þetta það sem ég tel vera mikilvægast. Ekki hver fær stærstu og dýrustu gjöfina eða hver gaf stærstu eða dýrustu gjöfina. Það er augnablikið og það er fólkið sem skiptir máli. Þessi ólýsanlega orka sem myndast þegar fólk nær að hleypa fram þeim kærleika sem við öll eigum óhindrað í gleði hátíðarinnar. Það eru sjálf jólin. Toppurinn er svo gleði barnanna sem ná að sýna hana í leik og gleði. Ég held að þegar fólk eignist börn þá endurheimti það á einhvern hátt sín eigin barnajól á  ný með því að lifa jólin með börnum sínum. Þannig eru jólin mismunandi eftir því á hvaða lífsskeiði maður er en þau eru alltaf þessi dýrmæti pendúll sem kemur enn á ný, ár eftir ár og mikið má maður vera þakklátur fyrir að hafa fengið að njóta þeirra enn á ný.

Gleðilega hátíð kæru vinir, megið þið öll njóta ljóss og friðar á nýju ári og upplifa hinn sanna jólaanda :).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fallega orðað hjá þér elsku vinkona. Já jólin breytast sko heldur betur þegar maður á barn til að upplifa þau með.

 Knús til þín elskan og jólakveðja frá öllum hér.

Linda (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband