Afþreying eða fjölmiðlun?

Undanfarið hefur verið gósentíð hjá fjölmiðlum. Mikið hefur gengið á í stjórnmálum og því nóg af bitastæðu efni fyrir fjölmiðlana.

Eitthvað hefur harðnað á dalnum.

Stundum veltir maður því fyrir sér hvert hlutverk fjölmiðla landsins er. Stundum standa fjölmiðlamenn sig frábærlega í því að miðla nýjustu fréttum á faglegan og hlutlausan hátt til almennings. Stundum gera þeir það ekki.

Stundum miðla þeir fréttum sem eru ekki pappírsins eða innsláttursins virði. Allt of mörg dæmi eru um það að fréttamenn séu handbendi stjórnmálaflokka eða séu litaðir af sínum eigin stjórnmálaskoðunum og misnoti aðstöðu sína til þess að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Margt er gefið í skyn sem annað hvort er byggt á sandi eða hreinlega ósatt.

Auðvitað geta fjölmiðlamenn hlaupið á sig eins og hver einasta lifandi manneskja. Þá er bara þeirra verkefni eins og allra annarra að viðurkenna mistök sín og styrkja sig þannig.

Maður efast stundum um það að sumir fjölmiðlamenn geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð og þeim áhrifum sem þeir hafa á samfélagið. Það er ekki að ósekju sem þeir eru sagðir fjórða valdið!  Fjölmiðlar eru virkasti miðillinn til þess að spegla, skapa og endurskapa ríkjandi menningu okkar. Þannig viðhalda fjölmiðlar oft ýmsum röngum staðalmyndum eins og umræða um fatlað fólk hefur stundum birst á rangan hátt í fjölmiðlum og þannig ýtt undir neikvæð viðhorf.

Almenningur verður að geta treyst því að efni sé miðlað á faglegan, fræðilegan og ábyrgan hátt. Ef fólk vill sjá sápuóperur þá getur það horft á þá þætti í stað fréttatíma eða annarra fréttamiðla. Þegar fréttir eru í sápuóperustíl án þess að fótur sé fyrir því þá eru viðkomandi fjölmiðlamenn ekki aðeins komnir út á hálan ís heldur komnir ofan í vök.

Að vissu leyti verður fréttaflutningar ætíð litaður af þeim sem þær flytur. Annað er óhjákvæmilegt. Fréttamenn sem skynverur velja úr þau áreiti sem ná athygli þeirra og um hverja manneskju flæða ótal áreiti á hverjum degi. Hver fréttamður velur þannig það sem hann trúir á. Það sem hann telur áhugavert og muni vekja eftirtekt og skjóta honum hærra upp sem fréttamanni, fjölmiðlamanni. Það sem vönduð fjölmiðlun snýst um að mínu mati er þó að halda sig við faglega umfjöllun í stað þess að skauta af stað í æsiblaðamennsku, sorpblaðamennsku og jafnvel hunsa eða breyta staðreyndum. Þá ætti fólk að snúa sér að einhverju öðru ævistarfi eins og því að skrifa sápuóperur. 

Ég er ein þeirra sem fylgist náið með fréttum. Sjálf reyni ég að skrifa þannig að ég sé ekki ærumeiðandi eða sýni öðrum virðingarleysi. Sú krafa hlýtur að vera í ráðningarsamning hvers fjölmiðlamanns eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband