Málefni nýrra Íslendinga og erlends vinnuafls

Ég hef verið að velta þessum málum svolítið fyrir mér að undanförnu í kjölfar þeirra óeirða sem verið hafa í Danmörku.

Ég tel eins og margir aðrir að það sé mjög mikilvægt að vinna vel að þessum málum strax og ekki seinna vænna því annars mun verða til gríðarstórt verkefni á næstu árum við að vinna tilbaka það sem strax hefði átt að gera í upphafi.

Það er mjög mikilvægt að hlúa vel að og styðja það fólk sem kýs sér að koma hingað til lands til langframa búsetu. Ég tel að skylda eigi fólk til íslenskunáms sem hefur það hlutverk að kenna íslenskuna og um leið að aðlaga fólk að samfélaginu. Það er hægt að tvinna saman íslenskunám og um leið fara yfir félagslegan rétt einstaklinga og grunnþekkingu á íslensku samfélagi. Ég tel að fólk eigi að gangast undir ákveðin próf og fái ekki búseturétt hér til lengri tíma nema gangast undir íslenskupróf (ég tek það fram að ég þekki þessi málefni ekki og kannski erum við komin talsvert lengra en tilfinning mín segir mér). Alþjóðahús er að vinna í þessum málum og eflaust að vinna mjög gott starf. Ég efast nú þó um að þeir hafi bolmagn í þann fjölda sem flutt hefur á síðustu árum.

Einnig að það sé gerð krafa á fólk á vinnumarkaðnum að það tali íslensku eins og það mögulega getur. Of oft tel ég fólk fara beint yfir í enskuna. Þetta þýðir það að fólk almennt þarf að vera jákvætt og sýna samstarfsvilja. Leggja sig fram við að skilja það sem nýir Íslendingar eru að reyna að segja og tala skýrt á móti. Það tekur langan tíma að aðlagast hér og læra tungumálið en það er hægt.

Ég er í dönskuskóla (Sprogskolen) í Danmörku og þar er fólk alls staðar að úr heiminum sem stundar þar dönskunám enda skilst mér að það sé skilyrði ríkisborgararéttar. Það er með ólíkindum hversu góðum tökum sumir þeirra hafa náð á dönskunni og hversu góðan skilning þau eru komin með á dönsku samfélagi.

Ég þekki þessi málefni ekki nægilega vel hér á landi en tel að við eigum langt í land með vinnu og stefnumótun í þessum málum. Það þarf að gerast hratt og örugglega ef við ætlum að vanda vel til verka og ná árangri. Það er til dæmis að mínu mati mikilvægt að námið og námsefni sé fólki að kostnaðarlausu (eins og í Danmörku) og skyldumæting.

Svo er það hinn hópurinn sem er fólk sem kemur hér til skamms tíma að vinna á "vertíð" og ætlar sér aldrei að setjast hér að. Ég tel eins og Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefur verið að beita sér fyrir að þar þurfi að vera virkt eftirlit og að þessir starfsmenn búi og starfi við mannsæmandi aðstæður og gott eftirlit sé með því að farið sé að lögum og reglum um kjarasamninga.

Ef ekki verður unnið nægilega vel í þessum málefnum getur myndast hér hópur nýrra Íslendinga sem skilur ekki samfélagið, lendir upp á kant við það og það getur haft mjög slæmar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni.

Við erum svo smá þjóð að það er mikilvægt að standa sterkan vörð um okkar einstaka tungumál en eigum auk þess að bjóða fólk velkomið til okkar. Ef enska fer að verða megintungumál hér í þjónustustörfum þá elst upp ungt fólk hér sem ekki aðeins verður fyrir enskum áhrifum í gegnum meðal annars fjölmiðla heldur mun einnig verða fyrir miklum áhrifum úr þjónustugeiranum og þannig getur móðurmál okkar veikst verulega.

Það er mikilvægt að hugsa strax til framtíðar því eins og er að gerast í Danmörku þá er að alast þar upp hópur ungmenna sem hefur ekki aðlagast samfélaginu, getur ekki staðið undir kröfum skólakerfisins, talar dönskuna en finnur sig ekki í samfélaginu og á jafnvel foreldra sem tala upprunalegt mál fjölskyldunnar og þetta unga fólk lifir í hálfgerðu "einskis manns landi" því það þekkir ekki menningu upprunalandsins en hefur ekki fundið sig í Danmörku.

Málefni innflytjenda eru mikið hitamál í Danmörku og við eigum að horfa til annarra þjóða, læra af mistökum þeirra og vanda vel til verka hér og horfa til framtíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband