Þjóðarskútan Titanic

Það er ljóst af atburðum gærdagsins að Íslendingar munu ekki þegja þunnanda hljóði á meðan ríkisstjórnin heldur uppteknum hætti og Davíð Oddsson seðlabankastjóri neitar að segja frá leyndarmálum sínum.

Söguþráðurinn af því sem gerst hefur undanfarnar vikur er orðinn svo flókinn að það er vægast sagt erfitt að fylgjast með og átta sig á hvað snýr upp og hvað snýr niður.

Þetta minnir mig á söguna um Titanic. Skipstjórarnir voru svo pollrólegir að þeir fylgdust ekki vel með hvað var framundan við sjónarrönd, gættu ekki að sér og skipið var sett á fulla ferð til þess að ná á forsíður fréttablaðanna. Hönnuður skipsins varaði við en skellt var við skollaeyrum.

Söguna þekkjum við öll. Hið ósökkvandi skip náði heldur betur á forsíðu blaðanna og var skráð á spjöld sögunnar en ekki var það fyrir að ná fyrr en allir aðrir á áfangastað heldur fyrir það að ná aldrei á áfangastað. Við sem fórum í ímyndarherferð til að auka jákvæða umfjöllun um okkur úti í heimi fáum nú umfjöllun sem er alls ekki sú sem lagt var upp með. Við erum á forsíðum fréttablaða úti í heimi fyrir allt annað en þjóðarskútu sem siglir hraðast.

Þjóðarskútan okkar hefur því miður siglt í anda Titanic og steytt á ísjaka. Vegna þess að henni var siglt svo hratt og lítið fylgst með hvað bar við sjónarrönd varð áreksturinn við ísjakann harður og sökkti skipinu. Ég vona að endir sögunnar verði annar og betri hjá okkur enda er ég bjartsýnismanneskja að eðlisfari og trú mín á þjóðina sem var mikil fyrir hefur stigvaxið. Annað hvort að takist að lagfæra skútuna eða að takist að koma öllum í björgunarbátana. Ég efa að skipstjórar Titanic hefðu verið látnir halda áfram siglingunni eftir þeirra alvarlegu yfirsýn hefði skipið haldið og þolað áreksturinn.

Nú er spurning hvernig björgunarstörfum verður háttað. Verður þetta í anda Titanic þar sem þeim sem eru aðeins betri en hinir verði raðað í björgunarbátana fyrst með nægt pláss en hinir sem ekki sigldu á eins góðum farrýmum verði látnir mæta afgangi og drukkna? Eru til björgunarbátar fyrir alla á Íslandi?

Ég skil ekki alveg í henni Ingibjörgu Sólrúnu. Hún segir fólkið koma fyrst en svo flokkinn. Hvað var hún þá að hugsa þegar hún gerði sig seka um það sem hún hefur gagnrýnt Davíð Oddsson fyrir þegar hún skipaði samstarfskonu sína og vinkonu sendiherra í utanríkisráðuneytinu nýlega. Er það ekki í mótsögn við það sem hún boðar? Um hvern var hún að hugsa þá? Hún virkar ekki trúverðug með slíkum athöfnum þegar hún segir eitt en gerir annað. Er hún góður skipstjóri við áframhaldandi siglingu? Hvað með Geir? Eru líkur á því að hann myndi fylgjast betur með varnaðarorðum næst og hægja á skútunni? Myndi hann raða sanngjarnt í björgunarbátana? Hefur ekki Sjálfstæðisflokkurinn verið þekktur fyrir það að vinna fyrir einstaklingshyggjuna. Myndi hann skapa pláss þannig að allir kæmust í bátana eða myndi hann frekar fækka þeim til þess að hafa betra rými fyrir þá sem eru aðeins "betri" en hinir?

Mér heyrist a.m.k. 7000 manns hafa gefið skýr svör um þetta í gær.


mbl.is 31,6% stuðningur við stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband