Óháðan aðila - takk!

Ég velti því fyrir mér við lestur þessarar fréttar hver í ósköpunum í okkar litla samfélagi gæti mögulega verið rétti aðilinn í slíkt embætti?

Hvers vegna er ekkert minnst á erlenda aðila sem eru algjörlega óháðir í þessu samhengi?

Við erum bara of lítið samfélag að mínu mati til þess að "innanbæjarmaður" geti skipað slíkt embætti.

Hvernig stendur á því að þessu ferli miðar svona hægt?

Hvernig stendur á því að ekki eru löngu komnir erlendir aðilar til að vinna fyrir íslenska þjóð að þessari rannsókn?

Hvernig stendur á því að enn er hjakkað í sama hjólfarinu, með sama regluverkið, sömu stjórnvöld, sama fólk í sömu stólum og sömu útrásarvíkingana í sínum hlutverkum?

Mun ekkert breytast við það að heil þjóð fari á hliðina?

Hvað þarf til?

Þjóðin mun ekki sofna yfir þessu, ég trúi því ekki! Til þess eru afleiðingarnar of áþreifanlegar á hverjum einasta degi í hverri fjölskyldu nánast.

Það VERÐUR að fá erlenda aðila í þjónustu þjóðarinnar til þess að rannsaka málin með okkur (stjórnvöld geta ekki séð um þetta því þau eru samsek í málinu).

Það VERÐUR að fara rækilega yfir allt regluverkið og endurvinna það með því hugarfari að fyrirbyggja að menn geti farið svona fram nokkurn tímann aftur.

Það VERÐUR að rétta yfir þeim sem brotið hafa af sér.

Til þess að þetta geti gerst þá VERÐUR nýtt fólk að koma til. Það gengur ekki að þeir sem báru pólitíska ábyrgð og voru fullir þátttakendur í þeim vinnubrögðum sem leitt hafa okkur í þennan dimma dal skuli sjá um eftirleikinn. Þeir hafa nú þegar haft 3 mánuði til þess að láta snjóa í förin eftir sig og geta endanlega gengið frá því ef engum óháðum aðilum er hleypt að.

Við getum ekki sem þjóð setið uppi með öll þessi mistök og horft upp á málamyndarannsóknir sem verða aldrei fullkomlega óháðar og stjórnað er af sömu leikendum og áður.

Við getum ekki horft upp á það að fyrirtæki sem verða gjaldþrota geti skipt bara um kennitölur og klippt sig þannig frá skuldunum sem verði skellt á þjóðarbúið og að athafnamenn sem lagt hafa óbærilegar byrðar á okkur geti haldið uppteknum hætti og styrkt enn frekar stöðu sína með kaupum á fjölmiðlum og fyrirtækjum á spott prís!

Við getum ekki horft upp á það að bankarnir skuli skella sínum áhættuskuldum á okkur þegar veislan er búin og við séum látin greiða ofurlaunin, lúxusinn, veislurnar og ruglið en aldrei hafi okkur verið boðið í partýið ekki einu sinni með því að lækka þjónustugjöld á þeim tíma sem allt var á fullri siglingu upp á við! Við eigum að þrífa upp eftir veislu sem okkur var ekki einu sinni boðið í og veitingarnar voru keyptar fyrir sparifé okkar!

Eru 50 milljónir nægt fjármagn í slíkt verkefni? Ég tel að þarna eigi ekki að spara því við skulum kosta því til sem þarf til þess að fá ALLT UPP Á BORÐIÐ og fá ráðgjöf um hvernig við getum byggt okkur upp á ný með nýtt kerfi, nýtt regluverk og nýtt fólk! Það er fljótt að skila sér aftur ef hægt er að endurheimta það fjármagn sem horfið hefur undanfarið eins og stórar fjárhæðir sem grunur leikur á að fluttar hafi verið í öruggt skjól erlendis sem eru með réttu þjóðarinnar! Ég óttast að ansi mikið af því fjármagni sem rænt hefur verið af þjóðinni sé komið erlendis. Sá auður sem t.d. var tekinn út úr kvótakerfinu leggst tvöfalt á þjóðina að mínu mati, fyrst sem rán til nokkurra aðila úr sameiginlegri auðlind okkar og svo sem skuld í bönkunum sem þjóðin mun þurfa að greiða. Á sama tíma njóta fáir aðilar þess að fjárfesta um hvippinn og hvappinn erlendis fyrir þessar upphæðir!

Þetta er svo ótrúlegt mál allt saman að það nær engri átt og maður skilur bara ekki hvernig mönnum dettur í hug að þetta geti bara haldið áfram sinn vanagang án nokkurrar ábyrgðar eða hreinsunar!

Ég á mér draum um nýtt og betra Ísland en ekki sama graut í sömu skál! Það er nú tímabært að taka bananahýðið af þessu bananalýðveldi hérna og byggja upp fyrirmyndar samfélag! Oft var það þörf en nú er það hrein nauðsyn.


mbl.is Umsóknarfrestur að renna út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Já svona er lífið eða bara Ísland í dag. En gleðilegt ár til þín og þinna systra (það væri gaman að frétta af þeim)  Knús Dúna sem er komin á aldur =að verða ættfræðióð eins og Guðrún amma.

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 31.12.2008 kl. 00:56

2 Smámynd: Finnbogi Rúnar Andersen

Ég er sammála þér Kidda, það þarf að fara yfir þetta allt af einhverjum sem ekki hefur neina hagsmuni.

En annars gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir það liðna, megir þú hafa það sem allra best á nýja árinu.

Finnbogi Rúnar Andersen, 2.1.2009 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband