Töfra frambjóðendur

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir!

Ég fagna því að nú kemur fram hver frambjóðandinn á fætur öðrum sem vill taka að sér það spennandi verkefni að leiða Framsókn inn í nýja tíma til heilla fyrir þjóðina.

Margir ákaflega hæfir frambjóðendur hafa boðið fram krafta sína og ljóst er að úr vöndu verður að velja.

Ég persónulega mun vega og meta hvern frambjóðanda af kostgæfni og spyrja sjálfa mig margra spurninga varðandi þann aðila, hvaða kostum hann býr yfir, hvaða galla hann hafi og hvað hann geti gert fyrir flokkinn okkar. Mun hann spyrja sig fyrst hvað hann geti gert fyrir flokkinn og þjóðina áður en hann spyr sig hvað hann geti gert fyrir sig og sína?

Ég verð að játa það að ég tel það ekki heillavænlegt þegar menn stíga fram sem hafa ekki verið að vinna í flokknum fyrst þegar um bitastæð hlutverk er að ræða. Ég vil leiðtoga sem eru til staðar bæði í blíðu og stríðu. Hvar voru sumir þessir frambjóðendur þegar flokkurinn þurfti á þeim að halda? Af hverju stíga þeir fram í dagsbirtuna núna? Þetta er svona eins og með makaval. Ég myndi frekar giftast manni sem hefur heillað mig hægt og bítandi og sýnt mér hvaða kostum hann býr yfir í blíðu og stríðu heldur en einhverjum sem mætti á svæðið hálfum mánuði fyrir brúðkaupið. Ég hvorki kýs eða giftist mönnum sem ég þekki ekki (ég kýs heldur ekki konur sem ég þekki ekki ;) ). Það er mín strategía. Það tel ég of mikla áhættu á báðum sviðum!

Varðandi flokkseigendafélög þá er gott að muna það að enginn á flokka sem láta ekki stjórna sér. Hvorki flokkseigendafélög, fyrirtæki eða einstaklingar! Ef flokkurinn er sannur sínum gildum og sinni grasrót getur enginn eignað sér hann. Það á enginn flokka sem eiga sig sjálfir... svo einfalt mál er það!

Það er eins með það verkefni sem stendur Framsókn fyrir dyrum og þeim verkefnum sem við öll stöndum frammi fyrir sem þjóð eins og ákvörðun með Evrópumálin. Það eru ekki til neinar töfralausnir. Það kemur enginn sem segir hókus pókus og allt er í lagi. Til þess að ná settum markmiðum mun þurfa að kosta til blóði, svita og tárum en með þeim dugnaði, elju og framsýni sem við búum yfir munum við ná á leiðarenda á endanum!

Ég hlakka til flokksþings og ég hlakka til ársins 2009 og ætla að líta á málin björtum augum. Hvoru tveggja verður stormasamt og erfitt en engu að síður leynast ótal tækifæri undir hverri einustu þúfu sem ég treysti okkur til að nýta rétt.

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og hafið það sem allra best um helgina.

2009 verður ár nýrra tækifæra fyrir Framsókn og þjóðina alla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband