Að ræna banka í nútíð og framtíð

Hvernig gat þetta gerst?

Þessi spurning hefur sveimað um í kollinum á mér í ótal skipti allt frá því 6. október síðastliðinn. Hvernig gátu hlutirnir farið svona hrikalega úrskeiðis? Hvað voru menn að hugsa?

Upplifun mín af þessu er sú að bankarnir hafi í raun verið rændir innan frá. Ekki nóg með það... heldur voru þeir rændir í nútíð og framtíð. Hvernig er það eiginlega hægt??? Þeir voru hvoru tveggja tæmdir og skuldsettir langt fram í nútíð.

Það er EKKI HÆGT né forsvaranlegt á neinn máta að skella þessum stóra skell yfir almenning sem langstærstur hluti tók ekki þátt í milljarða sukkveislunni né hafði grænan grun um hvað væri að gerast. Það má ekki gerast að við sem þjóð séum kúguð til þess að taka á okkur skuldaklafa sem er afleiðing ónýts efnahagskerfis og regluverks . Þeir sem lögðu sparifé sitt inn á Icesave reikninga voru að mínu mati að taka þátt í ákveðnu gullgrafaraæði - íslenska efnahagsundrinu... Þeir sóttust eftir skjótfengnu gulli sem varð að glópagulli.

Hvernig getur það verið réttlátt að skella reikningnum fyrir því ævintýri á fámenna þjóð okkar? Það er ekki sanngjarnt að hneppa þannig almenning í ævilanga fátækt, fædd og ófædd börn okkar meðtalin. Nei, við verðum að berja hnefanum í borðið öll sem eitt og neita að taka þessar byrðar á okkur. Hvernig getur það talist réttlátt að hver einasta fjölskylda taki á sig 680 þúsund króna skuld á ári hverju AÐEINS vegna skulda Björgólfs Guðmundssonar. Þá eru ótaldir allir hinir svokölluðu "auðmenn" sem eiga eftir að fara í þrot því það vita allir að enginn nær að greiða upp margra milljarða skuld einn og óstuddur. En skuldin á að mínu mati ekki að falla á saklausan almenning. Hún á að falla á þá sem tóku áhættu við það að ætla að eignast skjótfengið fé.

Ég skil bara ekki hvert þessi ríkisstjórn er að fara með okkur. Að binda þjóðina í skuldaklafa. Setja svo flata línu í launamálum að mikið af vel menntuðu og öflugu fólki mun ekki sjá sér annað fært en flytja úr landi. Að stöðva neysluna svo hressilega í þjóðfélaginu að engin þíða verði á næstunni í hagkerfinu. Ég er ekki hagfræðingur en þessi leið er ekki fallin til farsældar. Hún mun halda okkur niðri, okkur sem eftir verðum (ef við verðum hér) án þess að eiga möguleika á að reisa okkur við á ný. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hið frjálsa, ábyrgðarlausa, stjórnlausa græðgismarkaðshagkerfi keyrði í kaf (sem er vel að vissu leyti) og hér þarf virkilega að hugsa málin upp á nýtt.

Lausnin að mínu viti er alls ekki sú að fara alveg yfir á hinn öfgaendann. Lausnin felst í hinum gullna meðalvegi. Þar sem einstaklingsframtakið fær að njóta sín innan vel hannaðs regluverks (byggt á nýfenginni reynslu) og afar öflugu eftirliti allra aðila en jafnframt þeirri samtryggingu sem nauðsynleg er í samfélagi til þess að ákveðið réttlæti sé fyrir hendi og stuðningur við hvert annað. Við megum aldrei aftur falla í þá gryfju að líta í hina áttina þegar við verðum vör við misferli. Einhverjir sáu allt það misferli sem nú er að koma upp á yfirborðið og horfðu í hina áttina. Því miður.

Nokkrum aðilum hefur sem sagt tekist það sem manni dytti ekki einu sinni til hugar í sínum villtustu glæpaævintýrum, rænt bankana okkar í nútíð og framtíð. En nú er stóra verkefnið okkar allra að takast á við eftirmálann af skynsemi, festu og með það að leiðarljósi að slíkt geti aldrei nokkurn tíma komið fyrir aftur. Tryggja þarf að öll þjóðin sé ekki látin afplána fyrir þann glæp sem orðið hefur - bankarán Íslandssögunnar! Slíkt mun aðeins leiða til enn meiri hamfara og engrar lausnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Stórt er spurt;

Legg til að þú, sem innanbúðarmanneskja og stoltur framsóknarmaður, beini þessari spurningu til a) Finns Ingólfssonar b) Ólafs Ólafssonar c) Halldórs Ásgrímssonar og takir svo eina hægri sveiflu og spyrjir a) Davíð Oddsson b) Björgólfa c) Geir Haarde.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.8.2009 kl. 01:27

2 identicon

víst er að einka(vina)væðing bankanna var með þeim hætti að kaupendurnir höfðu ENGA peninga til kaupanna svo seljandinn gékk þannig frá því að þeir fengju lán hvor hjá öðrum sniðugt en fulltrúar seljanda LUGU því að kaupendurnir hefðu átt peningana helmingur þessara ósannindamanna eru í liði með þér.

Tryggvi (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 02:47

3 identicon

Jenný og Tryggvi þið meigið mín vegna þó ég sé Framsóknarmaður kenna Finni, Ólafi,Halldóri og fl. um bankahrunið.Þeir meiga skammast sín. Hinsvegar missir þessi málfluttningur ykkar alveg marks,ef þið skoðið ekki verk Viðeyjarstjórnar þ.e. Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks sem m.a. komu á frjálsu framsali fiskveiðiréttinda. Og orðum Jóns Baldvins sem sagði,, að með EES samningunum hefðu Íslendingar  fengið allt fyrir ekkert". Þeim handabakasamningi sem ef til vil var upphafið á þeim fjárhagserfiðleikum sem Íslendingar eiga nú í.  

Eins má ekki gleima því að Samfylkingarsullumbullið var búið að vera 18 mánuði í ríkisstjórn þegar bankahrunið var í Október 2008. Þar man ég eftir nöfnum eins og Ingibjörg Sólrún,Össur,Björgvin,Jóhanna,Þórunn, Kristján og svo mörgum nöfnum handónýtra Sjálfstæðismanna. Hvar var fjármála eftirlitið í þessa 18 mánuð?

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband