Niðurgreidd sálfræðiþjónusta

Það eru erfiðir tímar á Íslandi í dag. Það fer ekki framhjá nokkrum manni. Ofan á hefðbundið álag fólks og önnur skyndileg áföll leggst sú byrði að takast á við erfiða tíma í kjölfar bankahruns, óvissu og úrræðaleysis. Því er mikilvægasta spurningin sem við getum spurt núna, hvernig eigum við að snúa vörn í sókn?

Ég hef nokkrum sinnum skrifað pistla sem fjalla um þjóðhagslegt mikilvægi þess að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga á sama hátt og gert er með þjónustu geðlækna. Margar ólíkar leiðir má fara í þessum efnum eins og t.d. að innifalinn sé viss fjöldi tíma með tryggingum fólks, í gegnum TR, stéttarfélög (sem er að e-u leyti komið á í dag) eða vinnustaði. Aðalatriðið er að allir njóti aðgengis en vissulega þarf að vera þak á slíku og mat hver hefur mesta þörf fyrir aukna þjónustu.

Ég er sannfærð um að slík fjárfesting myndi skila sér í þjóðarbúið og með betri andlegri og jafnvel líkamlegri heilsu landsmanna, betri vinnuafköstum á vinnustöðum svo ekki sé minnst á mikinn sparnað vegna útgjalda sem verða þegar starfsmaður missir vinnugetu vegna til dæmis kvíða eða þunglyndis.

Mörg rök eru fyrir því að bjóða upp á þjónustu sálfræðinga jöfnum höndum og þjónustu geðlækna. Sálfræðingar sérhæfa sig í að beita ýmsum meðferðarúrræðum eins og til dæmis hugrænni atferlismeðferð sem færa fólki vopn í hendur sem gott er að eiga í handraðanum til að takast á við erfiðleika lífsins. Lyfjagjöf er stundum nauðsynleg til dæmis í upphafi eða við svæsin tilfelli en í mörgum tilfellum er samtalsmeðferð mun hentugra úrræði. Með því að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga sparast kostnaður við óþarfa lyfjagjöf og lyf sem jafnvel viðkomandi tekur ekki. Rannsóknir hafa sýnt fram á að stundum er árangur jafn eða betri af HAM meðferð en lyfjagjöf og minni líkur eru á hrösun að meðferð lokinni.

Geðrækt verður mikilvægasta ræktin okkar Íslendinga á næstu árum, samhliða líkamsræktinni að sjálfsögðu sem alltaf er lykillinn að góðu lífi. Við þurfum að hugsa fram í tímann, snúa vörn í sókn og takast á við vandann áður en hann verður óyfirstíganlegur. Slíkt er þjóðhagslega hagkvæmt. Ein þessara leiða er að veita almenningi aðgengi að þjónustu sálfræðinga í stað þess að slíkt sé lúxus sem einungis sé á færi tekjuhærri þegnanna.

Nú er tími sálfræðinga kominn!


mbl.is Gífurlegt þunglyndisálag á íslensku þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef Framsóknarflokkurinn, Valgerður Sverrisdóttir, Finnur Ingólfsson o.fl. verða dregin til ábyrgðar og flokkurinn lagður niður, myndi þunglyndið minnka til mikilla muna.

Rósa (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband