30 ára hátíðarþingi LFK lokið

LFK15. landsþingi Landssambands framsóknarkvenna var slitið í dag. Framsóknarkonur héldu árangursríkt og ánægjulegt þing sem haldið var í Grindavík. Þingið var með sérstaklega hátíðlegu sniði vegna 30 ára afmælis landssambandsins. Á þinginu komu saman brautryðjendur landssambands framsóknarkvenna og núverandi framlínukonur. Þingað var laugardag og sunnudag. Sérstök hátíðardagskrá var haldin á laugardagskvöldinu þar sem framsóknarkonum var boðið í heimsókn í Bláa Lónið. Að því loknu var snæddur hátíðarkvöldverður í Salthúsinu í Grindavík.

 

Ályktanir landsþings landssambands framsóknarkvenna haldið í Grindavík 3. - 4. september 2011

Fjölgun kvenna í forystusveit Framsóknarflokksins
Landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Grindavík helgina 3. og 4. september 2011 bendir á ákvæði í lögum Framsóknarflokksins um að hluti hvors kyns á framboðslistum verði ekki lakari en 40%. Í næstu sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum skulu konur skipa annað af tveimur efstu sætum á lista og konur leiða framboðslista til jafns á við karla. Þannig gefst báðum kynjum tækifæri til þess að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi og uppbyggingu íslensks samfélags.

 

Jafnréttisstarf í efnahagskreppu
Landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Grindavík helgina 3. og 4. september 2011  skorar á stjórnvöld að leggja mikla áherslu á að efnahagskreppan sem nú ríkir í landinu dragi ekki úr jafnrétti í samfélaginu. Að yfirlýst stefna stjórnvalda um kynjaða hagstjórn sé ekki bara í orði heldur líka á borði. Reynslan hefur sýnt að sá þjóðfélagshópur sem verður verst úti í efnahagskreppum og eru lengur að jafna sig eru konur og börn.

Þjóðaratkvæði

Landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Grindavík helgina 3. og 4. september 2011 styður heils hugar   ályktun Framsóknarflokksins um að: „Íslendingar skulu áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. ... Þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðunum um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu.

 

Stefna í atvinnu- og sjávarútvegsmálum

Landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Grindavík helgina 3. og 4. september 2011sem haldinn var í Grindavík 3. og 4.september 2011 hvetur þingmenn Framsóknarflokksins, að fylgja fast eftir samþykktri stefnu  flokksþings í sjávarútvegsmálum og atvinnumálum.

 

Lausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja

Landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Grindavík helgina 3. og 4. september 2011 skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér af öllu afli á komandi haustþingi fyrir raunverulegri leiðréttingu á skuldavanda heimila og fyrirtækja. LFK skorar á stjórnvöld að fella niður verðtryggingu lána. Íslenska þjóðin þarf tafarlausar lausnir í efnahags- og atvinnumálum.

 

Brottflutningur fólks frá landinu

Landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Grindavík helgina 3. og 4. september 2011 lýsir yfir þungum áhyggjum af brottflutningi fólks frá landinu sem oft á tíðum er með sérhæfða og góða menntun.

 

Siðareglur
Landsþing landssambands framsóknarkvenna haldið í Grindavík helgina 3. og 4. september 2011 skorar á allt framsóknarfólk að kynna sér vel og fara eftir þeim siðareglum sem samþykktar voru á flokksþingi 2011.

 

Skipulagsnefnd

Landsþing landssambands framsóknarkvenna haldið í Grindavík helgina 3. og 4. september 2011 þakkar fulltrúa sínum Önnu Kolbrúnu Árnadóttur einstaklega gott og óeigingjarnt starf við endurskoðun innra skipulags flokksins á vegum Samvinnunefndar sem skilaði af sér á flokksþingi 2011.

 

Ný forysta var kjörin á þinginu.

Formaður

Kristbjörg Þórisdóttir

Framkvæmdastjórn

Aðalmenn

  • Elín Gunnarsdóttir
  • Gerður Jónsdóttir
  • Rakel Dögg Óskarsdóttir
  • Valgerður Sveinsdóttir

Varamenn

  • Guðmunda Vala Jónasdóttir
  • Vigdís Guðjónsdóttir

 

Landsstjórn

  • NV Ragnheiður Ingimundardóttir
  • NA Anna Kolbrún Árnadóttir
  • S Silja Dögg Gunnarsdóttir
  • SV Ólöf Pálína Úlfarsdóttir
  • RS Ragna Óskarsdóttir
  • RN Fanný Gunnarsdóttir

 

Varamenn

  • NV Svava Halldóra Friðgeirsdóttir
  • NA Gunnhildur Ingvarsdóttir
  • SV Þórey A. Matthíasdóttir
  • S Drífa Sigfúsdóttir
  • RS Ása María Potter
  • RN Eva Pandora Baldursdóttir

 

 


Uppskeruhátíð

Hérna sit ég með tölvuna í fanginu og fer yfir daginn í huganum...

Mér líður eins og ég sé stödd á minni eigin uppskeruhátíð. Ég er full þakklætis, ánægju, gleði og hamingju.

Stundum hef ég unnið eins og berserkur í því sem ég tek mér fyrir hendur, stundum hafa komið erfiðir dagar þar sem allt virðist öfugsnúið en maður hefur sáð einhverju góðu og allt í einu spretta blómin upp allt í kringum mann og maður svífur um með sól og gleði í hjarta.

Ég er að fara að halda útskriftarveislu á morgun. Langþráð partý! Ég sagðist alltaf ætla að halda gott partý þegar ég myndi útskrifast sem sálfræðingur. Vá, hvað ég hugsaði það oft þegar ég sat sveitt yfir lokaverkefninu, sá ekki marklínuna og þrjóskaðist upp "Heartbreak hill"...Nú er komið að því!!! :) Stundum er lífið svo gott að maður þarf að vanda sig við að vera bara í augnablikinu. Njóta.

Ég er líka í framboði til formanns Landssambands framsóknarkvenna og ég finn fyrir svo miklum velvilja, finn svo mikinn styrk frá fólki sem stendur við bakið á mér og fyrir það er ég mjög þakklát.

Dagurinn fór í að gera mig sæta fyrir annað kvöld, snúninga, kaffihitting með elskulegri vinkonu að ræða pólitík og undirbúning veislu í yndislegum hópi vinkvenna. Ég gaf mér samt tíma til þess að hlaupa með besta skokkhópnum í bænum, Mosóskokki. Við hlupum um miðbæinn og ég get sagt með stolti að ég hef hlaupið Laugaveginn! Á eftir fórum við í baðstofuna og nutum lífsins, hentum okkur í ískalt ker, heitan pott, gufu, saunu og snæddum allar saman yndislegan kvöldverð. 

Vá, hvað lífið getur verið gott. Vá, hvað það er gott að njóta þess í topp. Algjör sparidagur og ekki verður morgundagurinn síðri. 

Ætla að taka smá af þessum sólardögum og "sulta í krukku" til að eiga til að opna þegar koma rigningardagar... :)

Þvílík uppskera er það að eiga svona stórkostlega vini, fjölskyldu og gott fólk í kringum sig! Eitthvað hefur maður gert rétt í lífinu þegar maður á svona auðævi það er alveg ljóst :)

Þess vegna held ég ótrauð áfram ætla að njóta morgundagsins í botn en stíga svo inn í óttann. Ég ætla að halda áfram frá ostastöð C (fyrir þá sem hafa lesið bókina Hver tók ostinn minn) því ég veit að með því að fara út í óttann mun ég finna eitthvað nýtt og spennandi og fullt af osti :)

Þegar þér finnst þú sá og sá og sérð engan árangur eða uppskerubrestur verður... mundu þá eftir því að það kemur rigning en svo allt í einu birtist ríkuleg uppskeran þín :) Njóttu hennar og haltu svo áfram að sá!


Nú reynir á...

"Summer came and left without a warning..." sönglar í einu af uppáhalds lögunum mínum. Efnisinnihaldið finnst mér þó ekkert spennandi þar sem ég er mikill aðdáandi sumars en síður vetrar.

Íslenska þjóðin horfir fram á haust og svo vetur. Á endanum mun vora á ný með sumri og sól.

6. október getum við haldið upp á 3 ára afmæli hrunsins. Efast samt um að nokkur mæti í þetta 3 ára afmæli eða komi með köku. Það mætti kannski blása á kerti og óska sér þess að skuldaklafinn hyrfi, allir fengju atvinnu, þeir sem bera ábyrgð á hruninu myndu sæta ábyrgð en væru ekki meðal hæstu skattgreiðenda landsins, regluverkið yrði lagað, eftirlitinu kippt í lag, umbætur gerðar á öllu stjórnkerfinu og hæft fólk ráðið inn fyrir óhæft.

Við höfum verið í rússíbanareið frá því að sjúkleg græðgishyggjan, spillingin, stjórnleysið, eftirlitsleysið, ónýtt regluverk og siðlaust fólk keyrði okkur fram af. Eftir situr ráðvillt fólk í sárum og skuldum. Við réðum ekki neitt við neitt og gerum ekki enn, því miður. Innviðir samfélagsins eru í hættu og ríkisstjórnin skattleggur allt á milli himins og jarðar með tilheyrandi frosti. Mikil endurbótavinna er óunnin og siðbót eða viðhorfsbreyting hefur tæpast orðið.

Engin hefðbundin úrræði duga á slíkt ástand og ekki myndaðist samstaða um að leita bestu lausna fyrir heildina eða hreinlega varð sátt um hver hún væri. Samvinnu skorti. Sumir kannski of uppteknir af því að hugsa um eigin hagsmuni ofar almannahag? 20% leið Framsóknar var slegin útaf borðinu eins og fluga sem dustuð er í burtu. Leiðin sem margir hafa lýst yfir að hefði breytt miklu hefði hún verið skoðuð, aðlöguð og græjuð. 

Núna horfum við á eftir mörgu af okkar besta fagfólki, ungu fólki og ótal fjölskyldum flytja úr landi. Námsmenn sumra greina sleppa því að koma heim með nýfengna þekkinguna í farteskinu. Kannski endum við eins og Færeyjar sem misstu ákveðinn hóp sem aldrei kom aftur þó ástandið væri orðið framúrskarandi á ný. Fólk festi rætur og kom ekki aftur en eftir sátu þeir með óhefðbundinn mannfjöldapíramída. Kannski lendum við í því sama og Finnar og missum heilu kynslóðirnar í atvinnuleysi, þunglyndi og reiðileysi með tilheyrandi kostnaði.

Þetta vitum við og þetta vissum við fyrir. Þetta á ekki að þurfa að endurtaka sig. Það sem við gerum núna hefur úrslitaáhrif á komandi framtíð.

Við kusum fólk til að leggja drög að nýrri stjórnarskrá (þó kosningin hafi heldur klúðrast). Stjórnlagaráð var skipað. Hvað gerist nú? Mun þingið taka tillöguna og tæta hana í sig, svæfa drögin í nefnd eða reyna að ná sátt um breytingar á stjórnarskrá sem aldrei hefur tekist frá stofnun lýðveldis? Er líklegt að þingmenn sem standa úti í miðri jökulá hrunsins fari að ná sögulegri sátt um nýja stjórnarskrá? Er eðlilegt að þingmenn fari að eiga við drögin áður en almenningur fær að segja sitt ráðgefandi álit? Eru þingmenn hlutlausir um málefni sem snerta löggjafarvaldið og þeirra eigin störf?

Þingið gæti lært mikið af vinnu stjórnlagaráðs sem náði sögulegri sátt í erfiðum málum. 

Mín skoðun er skýr. Nú á þingið að gefa valdið eftir til fólksins í landinu og leyfa því að segja sitt álit á drögunum lið fyrir lið. Við stöndum á sögulegum krossgötum. Á þessar aðstæður þýðir ekki fyrir þingmenn að ætla að stunda "business as usual". Þá verður þeim vonandi fleygt út við fyrsta tækifæri og valdið fært til þeirra sem vilja raunverulegar breytingar.

 


Lífið er langhlaup

Í gær hljóp ég mitt fyrsta hálfmaraþon. Ég hef reyndar hlaupið hringinn tvisvar sinnum áður í æfingahlaupum en aldrei tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Hlaupið var þvílík veisla og ég brosti allan hringinn af ánægju.

Ég hljóp fyrir Samtök kvenna með Endómetríósu (legslímuflakk) en það er málefni sem þarf að auka fræðslu um og bæta greiningu m.a. þarf að opna göngudeild fyrir konur með sjúkdóminn. Sjúkdómurinn veldur konum miklum sársauka og getur m.a. valdið ófrjósemi. Alls fékk ég 23 áheit og safnaði 37.000 krónum. Reyndar er enn hægt að leggja inn áheit með því að fara inn á þessa síðu, Hlaupastyrkur.

Segja má að lífið sé eins og langhlaup.

Maður þarf að hafa einhverja hugmynd um leiðina sem maður ætlar að hlaupa, allt getur komið upp á á leiðinni og maður þarf að hlaða sig orku reglulega til þess að vera tilbúinn til að bregðast við óvæntum uppákomum.

Funny marathonStundum gleymir maður sér á hlaupunum í tómri gleði og finnst maður geta hlaupið endalaust og sigrað heiminn. Stundum er hvert skref þyngra en orð fá lýst og maður leitar logandi ljósi að góðri ástæðu til þess að hætta hlaupunum. Það skiptir svo miklu máli að halda áfram. Því með því að hlaða sig orku þá léttast skrefin á ný og erfiði hjallinn er yfirstaðinn og áfram getur maður farið. Vissulega þarf ákveðna líkamlega getu til að hlaupa langhlaup en hin hliðin snýst um hugarfar. Það skiptir öllu máli að maður sjálfur hafi trú á því að maður geti þetta.

Maður þarf líka að vera einbeittur því ef maður er sífellt að hlaupa út úr hlaupinu og sinna einhverju öðru þá týnir maður leiðinni sinni og kemst aldrei í mark.

Mundu næst þegar þér finnst þú vera föst/fastur, skrefin þyngri en tárum taki og þig langar að hætta því sem þú ert að gera, að hlaða þig orku, halda áfram og sjá hvort erfiði hjallinn verði ekki fljótt yfirstaðinn og þú getir haldið áfram með bros á vör.

Life is like a marathon...Marathon

Its not starting off brutally and then slow down the pace...

But to keep up on the rhythm and walk step by step..

you may walk slowly, fast..then suddenly running

without warning you may fall down...

but if you keep your head and mind straight...

put your heart in the right place

Then only you can make it...

(Óþekktur höfundur)

 


Ástin og sorgin eru systur

Ást og sorg eru tilfinningar sem flestar mannverur kynnast á lífsleiðinni. Þessar tilfinningar eru nátengdar. Þær eru sem systur. Kahlil Gibran skrifaði í Spámanninum:

Sorgin er gríma gleðinnar.

Og lindin, sem er uppspretta gleðinnar, 

var oft full af tárum.

Og hvernig ætti það öðruvísi að vera?

Þeim mun dýrpa sem sorgin grefur sig í 

hjarta manns, þeim mun meiri gleði getur það rúmað.

...

En ég segi þér, sorgin og gleðin ferðast

saman að húsi þínu, og þegar önnur situr við 

borð þitt sefur hin í rúmi þínu.

(Spámaðurinn, Kahlil Gibran)

Sorgin getur rist sig djúpt í andlit þess sem saknar. Hún getur verið yfirþyrmandi, óumflýjanleg og ógnvænleg. Á sama hátt er hún svo falleg. Djúpar rákir sorgarinnar og tárvot, tóm augun bera vott um sanna ást og minningu um gleði.

Þegar andlit þitt er hulið sorg mundu þá eftir gleðinni og ástinni sem að baki sorginni býr.

Sorgin hefur sest við borðið en gleðin og ástin eru ekki farnar, þær hafa einungis lagt sig í rúminu þínu og fengið sér ljúfan blund.


Hvar á fatlaður karlmaður að pissa?

Ég fór á einn af mínum uppáhalds veitingastöðum í kvöld, Saffran, með góðri vinkonu.

Eftir að ég lærði Fötlunarfræði þá er ég svolítið upptekin af aðgengismálum. Í mínum huga er þetta ekki mjög flókið. Ef við ætlum að byggja samfélag saman þá á það að vera jafn aðgengilegt öllum þeim sem tilheyra samfélaginu að því marki sem raunhæft er. Sé samfélagið ekki aðgengilegt er það að valda óþarfa hindrunum og skapa fötlun.

Því vakti það undrun mína þarna eins og reyndar oft áður á öðrum stöðum að sjá salerni sem var með breiðri hurð, stórt og aðgengilegt sem merkt var konum og fötluðu fólki. Beint á móti er svo salerni sem er merkt karlmönnum. Á kvennasalerninu er svo skiptiborð sem er ekki á karlasalerninu. Er ekki örugglega árið 2011?

Hvar á fatlaður karlmaður að pissa? Á kvennaklósettinu?

Hvar á karlmaður að skipta á barninu sínu? Á kvennaklósettinu?

Ef við ætlum raunverulega að breyta viðhorfum í samfélaginu m.a. um það að jafnrétti ríki meðal foreldra og jafnrétti ríki meðal fólks almennt þá verðum við líka að breyta hinu efnislega manngerða umhverfi. 

Ég teldi eðlilegast að bæði salernin væru aðgengileg og bæði hefðu skiptiaðstöðu.

Í mínum huga þarf að skerpa verulega á þessu í lögum og reglugerðum og standi þetta allt heima þar þá ætti að beita þá aðila sem ekki fara að þessu dagsektum og svipta þá sem veita þjónustu starfsleyfi þar til þessi mál eru komin í lag verði þeir ekki við því að lagfæra hlutina innan tilskilins frests.

Fann áhugavert lesefni á vefnum um aðgengi fyrir alla.


Orð að sönnu

Nokkrar góðar tilvitnanir sem ég held mikið upp á og nýjar sem ég hef rekist á. Mikið til í þessum textum.

Kannski?soulmates.jpg

Kannski ...  verðum við að hitta ranga fólkið áður en við hittum rétta fólkið, svo að við kunnum að vera þakklát þegar við hittum loksins þann sem hentar okkur ...

Kannski ... opnast dyr hamingjunnar á einum stað um leið og þær lokast á öðrum, en oft störum við svo lengi á lokuðu dyrnar að við sjáum ekki hinar sem hafa opnast ...

Kannski ... er besti vinurinn sá sem þú getur rólað þér með á veröndinni án þess að segja orð og síðan gengið í burtu og liðið eins og þú hafir átt eitt besta samtal ævi þinnar ...

Kannski ... er satt að við vitum ekki hvað við höfum átt þangað til að við missum það, en það er líka satt að við vitum oft ekki hvers við höfum saknað fyrr en við öðlumst það. Það eitt að gefa einhverjum alla okkar ást tryggir ekki að viðkomandi elski okkur á móti. Ekki búast við ást í skiptum fyrir ást; bíddu þangað til ástin vex í hjörtum annarra og ef það gerist ekki, skaltu þakka fyrir að ástin hafi vaxið og dafnað í þínu hjarta ...

Kannski ... tekur það einungis mínútu að brjóta einhvern niður, klukkutíma að láta sér líka við einhvern og einn dag að verða ástfanginn af einhverjum, en það getur tekið lífstíð að gleyma einhverjum ...

Kannski ... ættir þú að reyna að ná í einhvern sem fær þig til að brosa, vegna þess að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Ekki fara eftir útliti, það getur blekkt. Ekki fara eftir auðævum, þau geta horfið. Finndu einhvern sem fær hjarta þitt til að brosa ...

Þegar þú fæddist varstu grátandi og allir í kringum þig voru brosandi.

Lifðu þannig að þegar þú deyrð verðir þú brosandi og allir í kringum þig grátandi.

(Höfundur óþekktur)

 

Heiðarleiki

Aldrei segja að þú ætlir að vera, ef þig langar að fara.
Aldrei halda í höndina mína, ef þú ætlar að sleppa.
Aldrei segjast vera hér, ef þú ert það í alvörunni ekki.
Aldrei horfa í augun mín, ef það eina sem þú gerir er að ljúga.
Aldrei segja að ég sé eitthvað, ef ég er það ekki.
Aldrei segja „ég elska þig", ef það eru bara orð.
Aldrei tala um tilfinningar, ef þær eru ekki til staðar.
Aldrei gera mig glaða, ef þú ætlar að særa mig,
ekki vera kyrr, ef þú ætlar að fara...

(Höfundur óþekktur)

 

 Stormsveipur

Til er fólk sem kemur inn í líf þitt eins og stormsveipur og feykir þér um koll tilfinningalega.

Aðrir yfirgefa þig þegar verst lætur.

Sumir koma sem sumargola, þeir vefja sig um þig eins og hlýtt teppi. Þeir geta horfið í langan tíma en koma svo alltaf tilbaka.

Hlúðu vel að þessum aðilum, það eru þeir sem hjálpa þér í gegnum lífsins storm.

(fengið frá Katrín Guðjónsdóttir, uppruni óþekktur)

 

Að lokum

Vertu með þeim sem fá þig til að brosa og hlæja ...

Elskaðu þann sem gerir þig hamingjusama/n og styður þig ...

Aldrei gleyma þeim sem elska þig af öllu hjarta ...

Gleymdu þeim sem standa á sama ...

Og líka þeim sem koma illa fram og eiga ekki virðingu þína skilið ...

Við lifum aðeins einu sinni ...

Lifum til þess að njóta ...:)

(fengið frá Sigurlína H Steinarsdóttir, uppruni óþekktur)


Fjöldamorðingi dreifir kærleika

munkar.jpgÞað eru áhugaverðir hlutir að gerast í heiminum. Nálægt okkur hérna á okkar litlu fögru eyju.

Ónefndur fjöldamorðingi ætlaði að koma málstað sínum á framfæri, taldi sig vera riddara í krossferð. Myrti fjölda ungmenna og aðra með hrottalegum og óhugnalegum hætti. Ungmenni sem höfðu ekkert unnið sér til saka annað en þátttöku í pólitísku félagsstarfi með viljann um betri heim fyrir alla að vopni.

Planið virðist hafa verið úthugsað og þaulpælt. Þrátt fyrir það fór plan morðingjans alls ekki eins og hann áætlaði.

Hann sá heiminn með sínum augum, gegnum sín gler. Gler illsku og mannvonsku.

Þess vegna sá hann ekki þann möguleika að í stað þess að dreifa illsku þá myndi hann dreifa kærleika. Í stað þess að sundra mannfólkinu þá sameinaði hann það. Í stað þess að koma á stríði þá kom hann á friði. Hann breytti heiminum kannski, en þveröfugt við það sem hann virðist hafa ætlað sér.

Fjöldamorðinginn minnti okkur öll á það að sama hversu hrottalega aðrir koma fram, þá getum við alltaf valið friðinn. Við getum alltaf valið leið fyrirgefningar. Stríðinu getum við lokið ef við ákveðum það eins og John Lennon sagði. Hvert og eitt okkar getur komið á friði og betri heimi með ákvörðuninni einni saman. Þegar kærleikurinn vex í hjörtum okkar þá blómstrar hann um allan heim.

Kaldlyndur fjöldamorðinginn hefur sennilega síst af öllu ætlað að dreifa kærleika um allan heim en upp úr því blóði sem hann úthellti spratt upp kærleikur. rose.jpg


mbl.is „Þú skalt vita að þér mistókst"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjól fyrir storminum og gimsteinar lífsins

loose-diamonds.jpgRokið sem bylur á glugganum mínum núna og sumarblómunum á svölunum minnir mig á það hversu skjótt veður getur skipast í lofti. Einn daginn skín sólin á sumardegi en skyndilega dregur ský fyrir, rignir og hvessir upp úr öllu.

Ekki er þessu ólíkt farið í lífi hvers og eins. Allt getur leikið í lyndi en svo skyndilega getur eitthvað gerst sem breytir öllu og tekur hið daglega lif alveg úr skorðum og samhengi.

Stundum verðum við fyrir reynslu sem minnir okkur á þetta.

Við slíka upplifun er maður áminntur svo ákveðið um það sem maður er alltaf að reyna að lifa eftir og það er að vera í andartakinu. Ekki fresta lífinu. Ekki fresta því að gera hlutina sem maður ætlar alltaf að gera seinna. Ekki fresta því að segja fólki hversu mikið þér þykir vænt um það og taka utan um það. 

Mundu hvað er þér dýrmætast, hvar gimsteinana þína er að finna og taktu þá aldrei sem sjálfsögðum hlut.

Þegar hvessir í lífinu er ekkert eins mikilvægt eins og að eiga sinn griðastað. Að geta setið í hreiðrinu sínu með kertaljós og slökunartónlist. Að eiga netið sitt, fólkið sitt til að leita til. Þegar eitthvað gerist óvænt þá veit maður hvað það er sem skiptir öllu máli.

Sem betur fer fara hlutirnir ekki alltaf eins illa og maður óttast. Sem betur fer eru 99% af áhyggjum okkar óþarfar. Þetta þarf maður alltaf að minna sig á þegar maður lendir í óvæntum aðstæðum þar sem hugann langar til þess að fara alla leið, að mála verstu myndina á vegginn. Til hvers að vera að hleypa óttanum upp úr öllu valdi fyrr en maður veit að ástæða er til? Það er ekki hjálplegt. Ef eitthvað gerist í lífi okkar er nóg að taka á því þegar það er orðið ljóst. Ef þú getur ekkert gert til að bregðast við áhyggjunum skaltu geyma þær.

Það er mikilvægt að mínu mati að finna hverjir eru gimsteinar manns, hvað er það sem skiptir mann mestu máli, minna sig reglulega á það og muna að dag einn geta þeir verið horfnir úr kistunni manns og einungis blikandi ljós minninganna um þá eftir. Hvað er það sem maður myndi sakna mest ef maður missti? Alveg örugglega ekki Range Roverinn.

Á meðan allt leikur í lyndi og maður er heppinn og ekkert kemur fyrir á maður að vera þakklátur á hverjum degi. Það er ekki sjálfsagt. Hörmungar gerast ekki bara hjá öðrum, líka flestum okkar. Og meðan sólin skín er gott að byggja sér griðastað og eiga gott skjól fyrir storminum þannig að maður standi hann frekar af sér þegar hann hvessir sig.


Með kærleikann að vopni

roses.jpgÞað hefur vakið athygli mína í ringulreið tilfinninga undanfarna daga hversu vel Jens Stoltenberg hefur tekist að halda utan um þjóð sína sem sannur leiðtogi.

Voðaverkið er orðið og því er ekki hægt að breyta. En viðbrögðin við því skipta miklu máli.

Viðbrögð Bush við árásinni á tvíburaturnana voru eitthvað á þessa leið: Við munum ná þeim öllum sama hvað það kostar. Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Áframhald á blóðbaðinu.

Viðbrögð Stoltenberg voru frekar á þessa leið: Við munum fara að lögum og reglum. Við skulum standa saman og láta þennan harmleik ekki hafa áhrif á okkur heldur efla lýðræðið enn frekar og opna samfélagið. 

Hvor viðbrögðin ætli séu líklegri til að ala af sér betri heim? Að mínu mati þau seinni.

"Ilmur loðir við hendur þess sem gefur rósir" stendur í einni af uppáhalds bókunum mínum (Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn e. Robin S. Sharma).

Það er gott að sjá hvernig norska þjóðin hefur ákveðið að takast á við voðaverkin með kærleikann að vopni í líkingu rósarinnar og kertanna. Með því að dreifa rósum og ilmi kærleika. Í stað þess að láta reiðina, óttann og hefndina ná tökum á sér.

Þau hafa valið að stíga út úr óttanum og inn í kærleikann og leitt fólk alls staðar að úr heiminum með sér. Þetta val höfum við öll.

Við eigum öll sama rétt og það má aldrei gerast að ein manneskja telji sig æðri annarri eða telji réttlætanlegt að fórna mannslífi fyrir málstað sinn, sama hver hann er.

Við getum öll gert heiminn að hörmulegum stað fyrir okkur og aðra. Við getum líka öll gert heiminn að betri stað fyrir okkur og aðra, á hverju einasta augnabliki með kærleikann að vopni.


mbl.is Bjóst við að verða skotinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband