Færsluflokkur: Bloggar

Til háborinnar skammar!

Mér finnst þessi leiksýning í þinginu í dag vera þingheimi öllum til háborinnar skammar.

Að menn skuli eyða dýrmætum tíma og starfsorku í það að þræta og skæla yfir einum einasta stól er móðgun við fólkið sem kaus þessa fulltrúa sína.

Nú erum við að horfast í augu við grafalvarlega stöðu þar sem hverju einasta heimili landsins svíður og blæðir vegna atvinnumissis, heimilismissis og óöruggs ástands. Þetta er allt í boði raða mistaka stjórnvalda, ónýts regluverks og útrásarvíkinga sem veðsettu þjóð sína og földu góssið svo rækilega.

Hvar eru annars erlendu óháðu aðilarnir sem eiga að taka til hendinni hér???

Ég ætla rétt að vona að þingheimur nýti þann tíma sem eftir lifir í mikilvægari verkefni því ekki er nein gúrkutíð á þeirra verkefnalista í vændum í fyrirsjáanlegri framtíð.

Mér finnst þessi uppákoma vera lýsandi fyrir það ástand sem hefur verið á stjórnvöldum. Menn eru svo fastir í sínum lokaða heimi að passa eigin hag og völd að þeir hafa enga yfirsýn og láta einhverja smámuni taka orku frá mun mikilvægari verkefnum!


mbl.is Mögnuð fráhvarfseinkenni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til þess eru fjölskylda og vinir

Þau eru fólkið sem er alltaf.

Þau eru fólkið sem er með manni þegar maður dansar á bleikum rósum.

Þau eru fólkið sem er ennþá þegar rósirnar fölna, grár hversdagsleikinn tekur við og rósunum sem maður dansaði á rignir yfir mann með sorg.

Þau eru fólkið sem hringir í mann bara til að kanna hvernig maður hefur það.

Þau eru fólkið sem maður þarf að gefa "update" reglulega um að maður sé ekki týndur og tröllum gefinn.

Þau eru fólkið sem hristir fram heila veislu rétt á meðan maður skellir sér í sturtu þegar maður kom heim 20 mín. áður en veislan átti að byrja.

Þau eru fólkið til að hlæja með og líka til að gráta með.

Þau eru fólkið sem mann langar að gefa allan heiminn bara til að sjá þau brosa.

Þau eru fólkið sem hvetur mann áfram, fólkið sem maður vill standa sig fyrir.

Þau eru fólkið sem maður getur speglað sig í og séð bæði kosti sína og galla.

Þau eru fólkið sem maður getur opnað sig fyrir en líka átt gott kvöld án þess að sökkva sér of djúpt.

Þau eru fólkið sem geta séð mann hvernig sem maður lítur út og hvernig sem heimili manns er.

Þau eru fólkið sem þú treystir fyrir öllu þínu.

Þau eru fólkið sem hjálpar þér þegar á þarf að halda og þú vilt hjálpa.

Þau eru fólkið sem lætur manni líða eins og maður sé heima, hvar sem maður er.

Þau eru fólkið sem nær bröndurunum þínum.

Þau eru fólkið sem þú hugsar til þegar þú sérð eitthvað sniðugt.

Þau eru fólkið sem gefur öllu þínu lífi gildi.

Og...

þau eru svo miklu miklu meira því hver og einn er einstakur og skiptir mann máli á svo einstakan máta.

Eigið góða helgi kæru vinir.


Tímamót

Það urðu tímamót hjá mér og tvíburasystur minni síðasta föstudag en þann dag urðum við þrítugar eða samtals sextugar.

Það eru fimmtán mínútur á milli okkar og er undirrituð korteri yngri og flokkast því sem örverpið í fjölskyldunni. Það er ansi merkilegt að verða þrítugur. Þegar ég varð tvítug þá þótti mér það mjög spennandi því þá var maður orðinn fullorðinn! Þegar ég varð 25 þá þótti mér það ekki eins spennandi og ákvað að halda ekkert mikið upp á það. Mér fannst þessi fimm ár hafa liðið of hratt og ég ekki búin að áorka því sem stóð til fyrir þennan tíma. Og þegar ég varð þrítug þá þóttu mér sú fimm ár hafa liðið allt of hratt og ég á enn langt í land með að komast á þann stað sem ég ætlaði að vera á þegar ég yrði þrítug.

Þegar ég var krakki þá þótti mér fólk á þessum aldri vera orðið miðaldra og ég bjóst við að ég yrði búin að mennta mig, eignast varanlegt húsnæði og fjölskyldu á þessum tíma. En lífið er ekki alltaf eins og maður planar það. Þegar ég hugleiddi það betur þá er ég bara mjög þakklát fyrir þrítugsafmælið þrátt fyrir að það hafi ekki alveg fylgt fyrirfram ákveðinni uppskrift.

Af hverju ætti maður að vera þakklátur fyrir slíkt? Jú, það eru alls ekki allir sem eru svo heppnir að ná þessum aldri. Þess vegna tel ég að maður eigi að þakka fyrir hvern einasta afmælisdag sem maður á og fagna honum með veislu. Ég og tvíbbinn minn héldum veislu fyrir okkar nánasta fólk og það var dásamlegt að eyða deginum með því og rifja upp gamlar og góðar minningar.

Það er ansi merkilegt að vera tvíburi. Þrátt fyrir að vera tvíeggja og því ekki í raun skyldari en hver önnur systkini erfðafræðilega þá er ansi stutt taug á milli okkar. Þegar við vorum litlar þá viðbeinsbrotnaði ég og tvíbbinn fann sársaukann. Við þekkjum hvor aðra svo vel að það er erfitt að ímynda sér það. Það er mögnuð tilfinning að vera á þennan hátt hluti af tvíeyki. Það er líka ekki hægt að lýsa því hvernig það er að eiga tvíbura sem styður mann alltaf í gegnum súrt og sætt og er tilbúin að verja mann með kjafti og klóm. Þegar við vorum litlar og enn þá vegum við hvora aðra upp. Ég sá um þann hluta að rökræða við fólk og ná fram niðurstöðu en hún ruddi veginn!

Elsku Alla mín!

Takk fyrir yndislegan afmælisdag og takk fyrir samfylgdina síðustu 30 ár og níu mánuði. Ég hlakka til að deila næstu 70 árum með þér Smile.


Sumarið er tíminn...

Sumarið er tíminn... eins og Bubbi söng um árið.

Ó já þetta er eitt af mínum uppáhalds lögum. Það lýsir svo vel því sem gerist innra með manni þegar vorið er í fullu fjöri, bægir köldum vetrinum frá og greiðir leið sumarsins.

Það lýsir svo vel fiðringnum sem maður finnur.

Að heyra fuglana syngja.

Að fylgjast með því hvernig brumið á trjánum springur út með hverjum deginum.

Hvernig sólin hækkar á lofti og vermir allt og kyssir með geislum sínum.

Hvernig maður fyllist smám saman meiri og meiri orku og spennu.

Og hlakkar til þess að sumarið komi í allri sinni dýrð með hlýju sinni, birtu og endalausum sumarnóttum.

Þetta er minn uppáhalds tími.

Ég elska vorið og sumarið.

Gleðilegt sumar gott fólk!

Sumarið er að minnsta kosti komið í DK InLove.


Góðir molar

Fékk þessa góðu mola að láni af blogginu hennar Rósý vinkonu Wink. 

Fegrunarráð frá Audrey Hepburn

- til að fá fagrar varir skaltu bara hafa eitthvað gott að segja

- til að hafa falleg augu skaltu svipast um eftir því fallega í fólki

- til að hafa fallegar línur skaltu gefa með þér af matnum

- við höfum tvær hendur. Eina til að hjálpa okkur sjálfum og eina til að rétta hjálparhönd.

Aldrei...

Aldrei segja að þú ætlir að vera, ef þig langar að fara.
Aldrei halda í höndina mína, ef þú ætlar að sleppa.
Aldrei segjast vera hér, ef þú ert það í alvörunni ekki.
Aldrei horfa í augun mín, ef það eina sem þú gerir er að ljúga.
Aldrei segja að ég sé eitthvað, ef ég er það ekki.
Aldrei segja " ég elska þig", ef það eru bara orð.
Aldrei tala um tilfinningar, ef þær eru ekki til staðar.
Aldrei gera mig glaða, ef þú ætlar að særa mig,
ekki vera kyrr, ef þú ætlar að fara... ...verum samstíga.

Konudagur

Í dag er konudagur.

Hann er búinn að vera alveg hreint yndislegur.

Það er yndislegt að fá blóm og njóta lífsins í hópi vina og fjölskyldu. Blómvöndur getur lýst upp heilt herbergi. Það er eitthvað við blóm, orkan í þeim.

Dagurinn snýst um það að njóta þess að vera kona.

Ég fékk til dæmis kennslu í förðun, fékk blóm, fór í dekurbað, hitti bestu vini mína hestana, kýrnar og kálfana og borðaði guðdómlega gott lamb og ekki síðri ís og páskaegg.

Vá! þvílíkur dagur.

Mikið er ég ánægð með það að við skulum hafa þessa daga. Allir þessir dagar þjappa fjölskyldunni saman.

Þegar upp er staðið er það fjölskyldan og vinirnir sem eru það langdýrmætasta af öllu sem maður á.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband