Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 10. apríl 2012
Flutt á Eyjuna
Ég er komin með nýtt blogg á slóðinni: http://blog.eyjan.is/kristbjorg/ .
Endilega kíktu við, skildu eftir ummæli og vertu í sambandi.
Laugardagur, 31. mars 2012
Óvissuferð
Líf hvers og eins er líkt og óvissuferð. Við höfum einhverjar hugmyndir um það hvert við erum að fara en vitum samt í raun ekkert um það. Höfum kannski kort í höndunum en það getur enginn lofað því hvernig eða hvort ferðaáætlunin gengur upp. Við gætum vaknað upp á morgun og verið komin í allt annað landslag en við reiknuðum með samkvæmt okkar plani. Það eru svo margar breytur í ferðalaginu okkar sem við höfum enga stjórn á. Við hefjum ferðina ein og endum hana ein en þess á milli ferðumst við með mörgum öðrum. Sumum lengur, öðrum skemur. Ferðafélagarnir okkar móta okkur flestir eitthvað, sumir mikið, aðrir minna. Hvert og eitt okkar á sitt einstaka líf, sína sérstöku reynslu af þessu ferðalagi, þessari óvissuferð sem lífið sjálft er.
Stór hluti þess sem veldur okkur erfiðleikum eða vanlíðan dags daglega er að við skiljum ekki annað fólk. Við getum aldrei stigið alveg í þeirra spor, lifað þeirra lífi eða öðlast þeirra reynslu. Við getum ekki ætlast til þess að fólk sem ekki hefur lifað okkar lífi skilji okkur til fullnustu, hvaðan við komum og hvert við erum að fara. Við eigum víst nóg með að skilja okkur sjálf. Hvaðan við komum og hvert við erum að fara. Það tekur okkur ævina að kynnast okkur sjálfum, átta okkur á því hvernig við mótuðumst í uppvextinum og hvernig við erum enn að viðhalda ákveðnum mynstrum og móta ný. Atvik sem situr fast í minni úr barnæsku getur haft áhrif á þann persónuleika sem við þekkjum í okkur sjálfum í dag. Atburðir lífsins halda svo áfram að móta okkur ævina á enda.
Ég held að við eigum það flest sameiginlegt að vera að reyna að gera okkar besta. Við leggjum öll upp með misgóðan búnað í óvissuferðina og keyrum um mistorfætt landslag. Sumir keyra nánast á sléttum, beinum vegi alla leið, aðrir lenda í hverju þvottabrettinu og þverhnípinu á fætur öðru, jafnvel á illa búnum bíl. Stundum þurfum við að fara yfir hengibrýr og þá skiptir máli hvort við keyrum um á Fiat uno eða stórum trukk hvort brúin haldi.
Mig langar til þess að enda þessa færslu á góðum orðum Frank Outlaw:
Gættu hugsana þinna, þær verða orð þín.
Gættu orða þinna, þau verða gerðir þínar.
Gættu gerða þinna, þær verða vani þinn.
Gættu vana þíns, hann verður persónuleiki þinn.
Gættu persónuleika þíns, hann verður örlög þín.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 7. mars 2012
Húsnæði óskast!
SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar leitar að góðu húsnæði miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæðið þarf ekki að vera mjög stórt en þarf að rúma málefnastarf okkar sem verður unnið í hópum og minni fundi.
Hafir þú yfir að ráða hentugu húsnæði sem þú getur leigt okkur á mjög sanngjörnu verði eða styrkt okkur með því að lána það þá mátt þú gjarnan hafa samband á netfangið samstada@xc.is eða hafa beint samband við einhvern úr stjórninni.
Sé um styrk að ræða þarf hann að rúmast innan laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda en í þeim segir m.a.:
7. gr. [Hámarksframlög, leiðbeiningarreglur og kostnaður vegna kosningabaráttu.]1)
Stjórnmálasamtökum og frambjóðendum er óheimilt að taka á móti hærri framlögum frá lögaðilum en sem nemur [400.000 kr.]1) á ári. Undanþegin slíku hámarki eru þó framlög í formi afslátta svo fremi um sé að ræða almenna afslætti sem veittir eru frá markaðsverði með opinberum hætti og slíkir afslættir séu sérgreindir í reikningum. Lögaðilar, sem inna af hendi framlög til stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda, skulu sérgreina heildarfjárhæð slíkra framlaga í ársreikningum sínum. Telja skal saman framlög tengdra aðila.
[Stofnframlög, þ.e. framlög frá lögráða einstaklingum og lögaðilum sem eru veitt í beinum tengslum við stofnun stjórnmálasamtaka, mega að hámarki nema sem svarar til tvöföldu hámarksframlagi skv. 1. mgr.]1)
Stjórnmálasamtökum og frambjóðendum er heimilt að taka á móti framlögum frá lögráða einstaklingum sem nemur allt að [400.000 kr.]1) á ári. ...1)(birt af heimasíðu SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar www.xc.is )
Fimmtudagur, 1. mars 2012
Hrollur niður eftir hryggnum
Það rann hrollur niður eftir hryggsúlunni á mér þegar seinni skjálftinn skall á húsinu mínu. Ég varð vel vör við fyrri skjálftann og var ekki hrifin en við þann seinni upplifði ég mun meiri ótta og veruleg ónot.
Ég hugsaði hversu skyndilega lífið getur breyst og hversu varnarlaus við erum gagnvart móður náttúru. Þar þýðir ekkert að deila við drottnarann. Fyrsta hugsunin var um fólkið mitt og um það hverju ég ætti að kippa með mér út úr íbúðinni ef ég þyrfti að hlaupa út í skyndi. Sú niðurstaða sem ég komst að í flýti var að ég þyrfti að ná kassanum með öllum filmunum mínum.
Þarna varð mér nokkuð ljóst hvað það er sem skiptir mig máli á svona stundu. Fólkið mitt og minningarnar um það líf sem ég hef átt fram að þessu. Það er minn fjársjóður. Sem betur fer eru minningarnar líka til í einhverri mynd í huga mér en myndirnar hjálpa til.
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við vitum aldrei hvað bíður okkar handan við næsta horn eða við næsta andartak. Það gerir lífið bæði dásamlegt og erfitt. Fólk, umhverfið og við sjálf erum sífellt að koma á óvart. Það er fæst sem er fullkomlega fyrirsjáanlegt. Stundum hefur maður einhverja óþægilega tilfinningu sem síðan reynist fyrirboði einhvers sem maður óttaðist. Stundum gerist eitthvað í umhverfinu sem veldur okkur ótta eða vanlíðan. Stundum veldur annað fólk okkur vonbrigðum með hegðun sinni eða hátterni.
Hin daglega rútína okkar og hversu upptekin við erum oft af smámunum er ákveðinn varnarháttur að mínu mati gegn því hversu lítils við megum okkar í stóra samhenginu. Þægindaramminn okkar sem við getum stýrt að nokkru leyti myndar ákveðinn skjöld gegn hinu síkvika lífi sem kemur sífellt á óvart í ýmsum myndum.
Ég held að það sé gott að byggja sér upp ákveðið öryggi. Það er ekki síður mikilvægt að fara eins vel með hvert andartak, hvern dag, viku, mánuð og ár og við mögulega getum. Það skiptir máli að maður fari eins vel með sjálfan sig og maður getur. Lífið er of dýrmæt gjöf til þess að deyfa sig frá því og láta sig reka stjórnlaust í gegnum það án þess að taka nokkra ábyrgð eða stefnu. Líkami okkar er of dýrmætur til þess að troða hann út af næringarlausu rusli, hreyfa hann ekkert eða misbjóða honum. Hugur okkar er of dýrmætur til þess að leyfa öðrum að planta illgresi þar. Við þurfum að gæta þess vel hvernig við hugsum og hverju við beinum huga okkar að.
Við höfum vald yfir okkur sjálfum en ekki öðrum og ekki umhverfinu nema að mjög takmörkuðu leyti. Leiðin að betri heimi liggur í gegnum okkur sjálf. Til þess að breyta heiminum þurfum við að breyta okkur sjálfum og vera breytingin sem við viljum sjá.
Við eigum alltaf val. Val á hverju einasta andartaki um það hvernig við hugsum og hvað við gerum. Val um það að fara vel með okkur sjálf og koma vel fram við aðra sem í kringum okkur eru. Við munum samt alltaf gera einhver mistök og detta í pytti. En því meðvitaðri sem við erum og því skýrari sýn og stefnu sem við höfum því betur gengur okkur.
Ef við höfum vandað okkur og farið vel með gjöfina stóru sem líf okkar er. Ef við höfum komið fram við fólk og sjálf okkur eins og við viljum að það komi fram við okkur þá munum við kveðja sátt þegar kemur að leiðarlokum eins og þeim sem gæti komið að ef náttúran hrifsar af okkur völdin yfir okkar eigin tilveru. Það er góð tilfinning að komast yfir óttann og ná sáttinni. Sátt við lífið sjálft og allt sem það innifelur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.3.2012 kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 29. febrúar 2012
Ekki meira óréttlæti og smáskammtalækningar!
Ég trúði vart mínum eigin eyrum þegar ég heyrði Helga Hjörvar formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis lýsa "almennum aðgerðum" í fjölmiðlum í vikunni með þeim hætti að það kæmi til greina að leiðrétta lán þeirra sem væru með verðtryggð lán sem hefðu verið tekin á árunum 2004-2008.
Ég skil ekki málflutning þingmannsins og skil heldur ekki þá sem þylja sífellt upp gömlu þuluna um það að ekki sé hægt að fara í alvöru almennar aðgerðir.
Strax að loknu hruni var fjármagni dælt inn í peningamarkaðssjóðina til þess að tryggja innistæður fjármagnseigenda en ekki var hægt að leiðrétta lán heimila og fyrirtækja (þrátt fyrir að þegar hafi verið búið að afskrifa stóran hluta þessara skulda í gömlu bönkunum). Kolröng forgangsröðun að mínu mati.
Síðustu þrjú og hálft ár hafa Hagsmunasamtök heimilanna og fleiri barist fyrir almennri leiðréttingu stökkbreyttra lána án árangurs. Aldrei er til fjármagn til þess að fara í aðgerðir. Svigrúmið er uppurið í bönkunum. Að loknum hæstaréttardómi virðist svo skyndilega hafa skapast svigrúm á ný til þess að bregðast við föllnum dómi.
Þau úrræði sem kynnt hafa verið aftur og aftur eru sértækar aðgerðir sem margsýnt hefur verið fram á að ná engan veginn yfir þann víðfeðma vanda sem við er að etja. Ég met það svo að stór hluti almennings upplifi gríðarlegt óréttlæti og ósanngirni varðandi uppgjör hrunsins þar sem reikningurinn var sendur á heimilin en reist hefur verið öflug skjaldborg um fjármálakerfið.
Núna þegar enn á ný hefur myndast pressa varðandi almennar skuldaleiðréttingar eru menn ennþá að tala fyrir sértækum úrræðum - smáskammtalækningum til þess að leysa vandann. Smáskammtalækningar þær sem farið hefur verið í hafa kostað okkur ómældar fjárhæðir, fólksflótta og hörmulega stöðu einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja.
Með áframhaldi á gagnlitlum, sértækum, óréttlátum úrræðum mun hvorki nást samstaða né skapast möguleiki á víðtækri lausn vandans.Sértækar aðgerðir:
- Eru of flóknar og þungar í vöfum til þess að skilvirkni náist.
- Verðlauna í einhverjum tilfellum þá sem glæfralegast fóru í fjármálum sínum
- Refsa að sama skapi þeim sem sýndu ráðdeild og ábyrgð í fjármálum
- Ná ekki fram því réttlæti og sanngirni sem þörf er á til þess að sátt náist í samfélaginu til þess að halda áfram og byggja upp að nýju
Nú er tími til kominn að ráðast í almenna skuldaleiðréttingu þar sem leiðrétt verði fyrir stökkbreytt lán þau sem heimili og fyrirtæki sitja uppi með. Það er kominn tími til þess að afnema verðtryggingu og ná fram raunverulegu réttlæti og sanngirni hér á landi.
Þannig getum við náð samstöðu og byggt upp heilbrigt samfélag á ný.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.3.2012 kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 10. febrúar 2012
Að sjá ekki tréð fyrir skóginum
Í kvöld hitti ég yndislegar skólasystur. Við þurftum að rúlla aðeins hringinn, heyra hvað hver og ein væri að gera, kall, ekki kall, fjöldi barna og önnur grundvallaratriði. Um leið og við vorum búnar að tékka það allt af þá var bara eins og við sætum í saumaklúbb ennþá í MR (örfáum árum fyrr hmmm). Að mínu mati vorum við ekki mikið breyttar. Bara eldri, sætari, þroskaðri, vitrari og já kannski aðeins skuldugri enda erum við af kynslóðinni sem "verið er að steikja" á Íslandi. Einhver þarf að taka sig til og slökkva undir pönnunni áður en mín kynslóð brennur við eða skoppar af pönnunni eitthvað annað.
Það er svo gaman að hitta gott fólk og ræða öll heimsins málefni. Mér finnst svona hittingar oft vekja mig til heilmikillar umhugsunar. Umhugsunar um hvað þetta líf okkar er stórkostlegt ferðalag með öllu því merkilega samferðafólki sem er á sömu leið á svipuðum tíma.
Það sem situr eftir hjá mér í kvöld er þetta með að sjá ekki tréð fyrir skóginum. Þegar við erum stödd í einhverjum ákveðnum aðstæðum þá tökum við ákvarðanir okkar út frá öllu því sem vigtar á því augnabliki. Síðar þegar litið er tilbaka í baksýnisspegilinn þá áttar maður sig á að maður myndi taka allt aðra ákvörðun í sömu aðstæðum í dag. Maður furðar sig líka á ákvörðunum annarra.
Ég var að rifja það upp með stelpunum að þegar ég var á fyrsta árinu mínu í sálfræði þá lést móðir mín. Ég var tvítug. Ég mætti í skólann á milli kistulagningar og jarðarfarar. Ég man þetta svo vel enn. Það kom einhvern veginn ekkert annað til greina. Daginn sem móðir mín var jörðuð átti að vera lítið próf í einum kúrsinum sem ég var í. Fyrirkomulagið var þannig að þetta voru þrjú próf og tvö bestu giltu 15% af lokaeinkunn. Ég fór upp að kennaranum og sagði honum að ég gæti ekki tekið prófið vegna þess að ég yrði í jarðarför móður minnar. Þau svör sem ég fékk voru að kennarinn vissi nú ekki hvort móðir mín hafi verið ung eða hvort þetta hafi verið mikil sorg en ég þyrfti að skila vottorði vegna fjarveru minnar. Ég man enn nákvæmlega hvar þessar samræður áttu sér stað á glerganginum á milli salanna í Háskólabíói. Ég varð bæði reið og sár og eiginlega agndofa. Það endaði þannig að faðir minn sem var að missa konuna sína og móður barnanna sinna skrifaði miða (eins og ég væri 7 ára í leikfimi) um það að Kristbjörg yrði í jarðarför móður sinnar og gæti þess vegna ekki mætt í prófið (7.5% virði skyndipróf í grunn háskólanámi). Daginn eftir labbaði ég með miðann að kennaranum og rétti honum þegjandi og hljóðalaust. Ég er ennþá reið yfir þessu en þarf að fyrirgefa og sættast við þetta.
Punkturinn er þessi. Hvaða máli hefði það skipt kennarann og mig ef hann hefði ekki verið fastur í regluverkinu og valið sér að bregðast við á mannlegri hátt (sálfræðikennarinn)? Hann hefði t.d. getað byrjað á því að hrósa mér fyrir dugnaðinn við það að vera mætt í skólann við þessar erfiðu aðstæður, sagt að hann sýndi því fullan skilning að auðvitað gæti ég ekki mætt og ég gæti valið um að sleppa prófinu eða tekið það jafnvel nokkrum dögum síðar? Hann hefði getað valið það að fara úr formföstu hlutverki sínu og hlúa að nemandanum sem var í þessari hörmulegu stöðu með manngæsku, skilningi og alúð. Reglur eru mikilvægar en í vissum tilfellum þarf maður að horfa á heildarmyndina og bregðast öðruvísi við en reglan segir til um.
Þarna sá hann ekki tréð fyrir skóginum að mínu mati. Hann horfði ekki á heildarmyndina heldur var fastur í því að bregðast við aðstæðunum á formfastan hátt án þess að hugsa um hvað þær snerust. Tvítug manneskja í háskólanámi er ekki líkleg til þess að ljúga til um það að hún verði í jarðarför móður sinnar til þess að sleppa við próf. Að biðja hana að láta votta það eru því viðbrögð sem að mínu mati voru kolröng og hreinlega skaðleg. Ég held að það hafi hreinlega komið á hann og hann ekki vitað hvernig hann ætti að svara þessu.
Mig langaði að skrifa þennan pistil og deila þessari lífsreynslu með ykkur. Einhverju sem ég mun aldrei gleyma. Þessum kennara mun ég aldrei gleyma og enn þá síður þessum afar óviðeigandi viðbrögðum sem voru fyrir mig eins og að sparkað væri í mig liggjandi. Það hefði skipt mig mjög miklu máli ef viðbrögð hans hefðu verið önnur og hann hefði tekið þessu eins og manneskja en ekki kennari sem keyrir á fyrirframgefnu forriti.
Munið alltaf að líta upp úr kassanum í öllum aðstæðum og reyna að setja ykkur í spor viðkomandi. Ef þið eruð slegin út af laginu og vitið ekki hvernig þið eigið að bregðast við segið það þá frekar en gera eitthvað sem skilur eftir sig ör á annarri manneskju ævilangt. Þið gætuð til dæmis sagt, "nú veit ég ekki alveg hvernig á að bregðast við, má ég heyra í þér á morgun með þetta?"
Munið að sjá tréð í stað þess að missa af því í skóginum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 7. febrúar 2012
SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar kemur eins og stormsveipur inn í íslensk stjórnmál og samfélag :)
Mikið er þetta ánægjulegur og eftirminnilegur dagur.
Dagurinn sem við stígum fram sem höfum staðið að undirbúningi SAMSTÖÐU nýs stjórnmálaflokks og hlökkum til að fá sem flesta til liðs við okkur. Það var lýsandi að finna storminn sem geisaði úti á meðan blaðamannafundurinn fór fram. SAMSTAÐA kemur eins og stormsveipur inn í íslenskt samfélag og stjórnmálin og svo er nú sitjandi varaformaður og einn undirbúningsaðilanna kenndur við storm :).
Hópurinn hefur starfað vel saman í góðri samvinnu og samstöðu og er afar margbreytilegur þar sem bakgrunnur okkar er æði misjafn. Mörg okkar hafa starfað með öðrum stjórnmálaflokkum en eigum það sameiginlegt að hafa ekki fundið nógu góða samleið með þeim og teljum að ráðast þurfi í róttækari breytingar og aðgerðir en rótgrónir flokkarnir hafa verið tilbúnir í.
Það sem við eigum sameiginlegt að mínu mati er að við viljum breytingar í íslenskum stjórnmálum og breytingar í samfélaginu. Við viljum tryggja það að á þessu litla stórbrotna auðuga landi geti allir haft það gott. Þannig ætti það að vera þar sem við erum fámenn þjóð sem búum á einu gjöfulasta landi heimsins. Velferð okkar allra er algjör grundvöllur heilbrigðs samfélags. Eitthvað hörmulegt hefur farið úr skorðum á undangengnum árum þar sem misskipting er sívaxandi og sameiginlegur auður þjóðarinnar hefur safnast á örfárra manna hendur sem hafa leikið sér með framtíð okkar eins og matador peninga og ógnað öryggi okkar. Þetta verður að leiðrétta. Hér þarf einnig að endurskoða allar þær leiðir sem færa valdið aftur til fólksins en Ísland á að geta verið fyrirmyndarland lýðræðis. Með því að fólk geti haft bein áhrif á samfélag sitt og tekið ábyrgð á erfiðum ákvörðunum eykst SAMSTAÐA.
Breytingar krefjast framkvæmda. Við höfum nú þegar sett inn í grundvallarstefnuskrána að þingmenn geti einungis setið 10 ár í einu á þingi en það er afar mikilvægt til þess að tryggja að Alþingi sé skipað fulltrúum almennings en ekki stjórnmálastétt sem missir tengsl sín við almenning og hugsjónir sínar í upphafi. Einnig er að mínu mati of mikið af verkum sitjandi þingmanna sem mögulega ráðast af þeirra eigin áframhaldandi setu og því mikilvægt að koma í veg fyrir það.
Í SAMSTÖÐU munum við leggja mikla áherslu á gagnsæi með því að almenningur hafi alltaf aðgang að upplýsingum sem ekki eru varðar t.d. persónuverndarlögum eins og til dæmis upplýsingar um hvaða fólk skipar trúnaðarstöður flokksins. Hagsmunaskráning þeirra sem gegna trúnaðarstöðum er einnig mjög mikilvæg til að tryggja að möguleg hagsmunatengsl séu gagnsæ.
Drög að siðareglum eru í mótun hjá undirbúningshópnum og munum við leggja mikla áherslu á þá siðvæðingu í stjórnmálum sem er svo mikilvæg forsenda þess að traust skapist að nýju og raunveruleg endurreisn verði.
Ég hvet áhugasama til þess að koma á kynningarfund í Fjörukránni annað kvöld kl. 20 og svo munum við auglýsa fundi í öllum landshlutum í febrúar þar sem mikil eftirspurn hefur verið eftir því að fá okkur líka út á land enda erum við framboð á landsvísu og hlökkum til að hitta sem flesta um landið :).
Á vefsíðu SAMSTÖÐU er hægt að sjá frekari upplýsingar m.a. grundvallarstefnuskrána en vissulega er ýmislegt enn í mótun hjá okkur :)
SAMSTAÐA til nýrrar og betri framtíðar fyrir íslenska þjóð :)
C-vítamín þarf í samfélagið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.2.2012 kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 4. febrúar 2012
Life is what happens to you while you are busy making other plans
Ég rakst á þessa sögu á samskiptasíðunni Facebook og hún vakti mig til umhugsunar. Hér er sagan fyrir þá sem hafa tíma til að lesa.
A man sat at a metro station in Washington DC and started to play the violin; it was a cold January morning. He played six Bach pieces for about 45 minutes. During that time, since it was rush hour, it was calculated that thousands of people went through the station, most of them on their way to work.
Three minutes went by and a middle aged man noticed there was musician playing. He slowed his pace and stopped for a few seconds and then hurried up to meet his schedule.
A minute later, the violinist received his first dollar tip: a woman threw the money in the till and without stopping continued to walk.
A few minutes later, someone leaned against the wall to listen to him, but the man looked at his watch and started to walk again. Clearly he was late for work.
The one who paid the most attention was a 3 year old boy. His mother tagged him along, hurried but the kid stopped to look at the violinist.
Finally the mother pushed hard and the child continued to walk turning his head all the time. This action was repeated by several other children. All the parents, without exception, forced them to move on.
In the 45 minutes the musician played, only 6 people stopped and stayed for a while. About 20 gave him money but continued to walk their normal pace. He collected $32. When he finished playing and silence took over, no one noticed it. No one applauded, nor was there any recognition.
No one knew this but the violinist was Joshua Bell, one of the top musicians in the world. He played one of the most intricate pieces ever written,with a violin worth 3.5 million dollars.
Two days before his playing in the subway, Joshua Bell sold out at a theater in Boston and the seats average $100.
This is a real story. Joshua Bell playing incognito in the metro station
was organized by the Washington Post as part of a social experiment about perception, taste and priorities of people. The outlines were: in a commonplace environment at an inappropriate hour: Do we perceive beauty?
Do we stop to appreciate it? Do we recognize the talent in an unexpected context?
One of the possible conclusions from this experience could be: If we do not have a moment to stop and listen to one of the best musicians in the world playing the best music ever written, how many other things are we missing?
TRUE STORY !!!
Eins og kemur fram hér að ofan fjallar þessi sanna saga um samfélagstilraun þar sem heimsfrægur fiðluleikari bregður sér í hlutverk götuspilara og leikur heimsfrægt tónverk og kannað er hvernig fólk bregst við honum. Athugað er hvort fólk skynji sanna fegurð í erli dagsins. Niðurstaða rannsóknarinnar sýndi að nánast allir þutu framhjá honum og einhverjir skutluðu klinki í hljóðfæraboxið. Þeir sem aðallega vildu stoppa við og hlusta á dásemdina voru börn sem foreldrar jafnharðan kipptu í til þess að gefa þeim skýrt til kynna að ekki væri í boði að stoppa og hlusta heldur yrðu þau að flýta sér.
Það kemur einnig fram í sögunni að skömmu áður hafði þessi sami maður fyllt tónleikasali þar sem fólk hafði greitt stórfé fyrir að hlusta á nákvæmlega sama heimsfræga tónverkið, sama heimsfræga hljóðfæraleikarann spila á sömu 3.5 milljóna dollara virði fiðluna.
Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta vera ansi lýsandi fyrir hvernig við högum okkur oft í samfélagi. Við látum umhverfið um það að dæma hvað sé verðugt athygli okkar og hvað sé það ekki í stað þess að stoppa og leggja okkar eigið mat á það. Séum við búin að borga okkur inn á sýningu listamanns sem búinn er að fá ákveðinn gæðastimpil þá keppumst við um að lofa viðkomandi en sami listamaður nýtur engrar aðdáunar sé hann á lestarstöð að leika sama tónverkið því þar hefur hann engan gæðastimpil og samfélagið í heild sinni er ekki búið að lyfta honum á stall.
Við látum því umbúðirnar og umhverfið um að dæma innihaldið.
Þessi pistill er áskorun til okkar allra að láta ekki glepjast svona auðveldlega. Látum ekki aðra selja okkur hvað okkur eigi að finnast verðugt eftir umbúðunum og umhverfinu einu saman. Stöldrum frekar við og notum okkar eigin skynfæri til þess að dæma hvað sé þess virði að staldra við og veita athygli.
Þetta á svo vel við á öllum sviðum samfélagsins því hjarðhegðun þar sem hjörðin eltir einhverja fyrirfram ákveðna línu eða umbúðir í ákveðnu umhverfi er eitt okkar stærsta vandamál. Þannig fer heil hjörð fram af brúninni án þess að nokkur staldri við, veiti umhverfinu athygli til að sjá að leiðin fram á við liggur beint fram af.
Treystu því á sjálfa/sjálfan þig og þína upplifun. Taktu þínar ákvarðanir út frá þinni upplifun og skynjun. Stýrðu þinni eigin för því þannig mun þér og samfélaginu í heild sinni farnast vel.
Life is what happens to you while you are busy making other plans (Lennon).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 23. janúar 2012
Saman út úr storminum
Ástandinu hér á landi hefur undanfarin þrjú og hálft ár oft verið líkt við storm, fárviðri, hamfarir og fleira í þeim dúr. Þessi stormur hefur þá sérstöðu að vera af mannavöldum.
Ástandið sem blasir við okkur er ekki tilviljun óheppilegra atvika sem pöruðust saman og ollu ofsaveðri. Það er afleiðing margra mjög slæmra atriða sem röðuðust saman óvart og viljandi. Afleiðing m.a. græðgi, glæpa, ónýts regluverks, spillingar, óhæfra starfsmanna og sjúkrar menningar sem skapaðist. Það paraðist svo við erfiðleika af svipuðum toga í alþjóðlegu samhengi.
Ég var á borgarafundi í kvöld þar sem þetta ástand var rætt. Einum af mörgum fundum sem ég hef sótt. Allt mjög góðir fundir. Fundir þar sem hugsjónafólk kemur saman, ræðir saman, deilir reynslu og leitar lausna.
Ég er svolítið hugsi eftir fundinn. Á fundinum var ekki eins áberandi reiði og oft hefur verið áður. Stemmingin var meiri sáttastemming en ég fann líka fyrir ákveðnu vonleysi. Það mættu um 450 manns (skv. þessari frétt taldi það ekki). Við fundum aftur og aftur en ekkert breytist í raun. Ég hugsaði til þess að sennilega eru þó nokkrir af þeim sem sótt hafa þessa fundi farnir úr landi, aðrir orðnir veikir af ástandinu og einhverjir búnir að gefast upp. Það þarf mikla seiglu, þrautseigju og styrk til þess að halda áfram í blindbyl, stiku fyrir stiku (eins og Andrea formaður HH orðaði það svo vel). Einhverjir segja þetta eflaust bara bölsýni og svartagallsraus en myndirnar og tölurnar tala sínu máli. Þetta ástand er ekki hægt að hunsa eða humma fram af sér og vonast til að ástandið lagist af sjálfu sér. Sjálfkvæmur bati verður seint í ónýtu kerfi.
Annað sem ég velti fyrir mér var það að ávallt er sama fólkið á þessum fundum. Við erum að ræða við hvert annað. Vandanum er lýst og lausnir ræddar meðal brotabrots heillar þjóðar sem er í vanda. Flestir sammála um að núverandi stjórnarflokkar og Sjálfstæðisflokkur hafi ekki eins miklar áhyggjur og við eða vilja til að ráðast í þær róttæku aðgerðir sem framkvæma hefði átt strax í október 2008.
Samkvæmt því sem fram kom á fundinum eru 60.000 heimili í þeirri stöðu að skulda meira en þau eiga eða um 40% allra heimila. Ég hef líka heyrt að staðan sé jafnvel enn verri. Við sáum súlurit sem eru skuggaleg um hvernig staðan hefur snarversnað eftir hrun og hvert stefnir að óbreyttu.
Hversu lengi ætlum við þegjandi og hljóðalaust að borga stökkbreyttu lánin okkar og tuða um það á kaffistofunni?
Hvar er allt þetta fólk sem situr fast í skuldafangelsi, án lífsgæða, í viðjum óréttlætis og eignaupptöku?
Hversu miklu ætlum við að læta ræna af okkur til viðbótar áður en við rísum upp í alvöru og breytum þessu?
Valdið er okkar.
Þessi stormur er þess eðlis að hann mun ekki ganga yfir af sjálfu sér. Hann mun einungis magnast upp og versna. Með hverri fjölskyldunni sem flytur úr landi, hverri manneskjunni sem veikist undan álagi, hverju gjaldþroti fyrirtækja og heimila verður stormurinn dýpri og tekur meira með sér.
Við verðum að taka höndum saman og koma okkur saman út úr þessum stormi.
Það þarf að ráðast í stórfelldar aðgerðir til leiðréttingar. Meðal annars þarf að afnema verðtrygginguna, leiðrétta stökkbreytt lán heimila og fyrirtækja og ráðast þarf í aðgerðir til þess að leiðrétta þá gríðarlegu misskiptingu sem hér er að verða í samfélagi okkar.
Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott. Því lengur sem við bíðum því erfiðara verður að ná því markmiði.
Gamla Ísland er ekki lengur til það er farið.
Núna búum við á Óvissu Íslandi í blindbyl og þoku.
Við verðum að brúa nýja tíma ætlum við að geta byggt þetta land fyrir okkur og börnin okkar til nýrrar framtíðar og nýs Íslands.
Borgarafundur um verðtryggingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
Mánudagur, 16. janúar 2012
Saltbragð í munni
Ég er með hálfgert saltbragð í munni yfir þessu máli.
Hvernig stendur á því að matvælafyrirtæki skuli blákalt nota aðföng sem eru merkt í bak og fyrir til notkunar í iðnaði? Það stendur ekki food industrial salt... eða hvernig sem salt til matvælavinnslu útleggst á ensku. Mér finnst líka skrýtið að menn skuli ekki vera með það á hreinu í upphafi þegar þeir flytja inn vöru eða kaupa hana af innflytjanda til hvers hún er ætluð og það sé ekki vottað rækilega að það sé í lagi með vöruna og hún henti viðkomandi framleiðslu? Einnig skil ég ekki hvernig svona getur viðgengist í mörg ár án þess að upp komist og svo komist þetta upp allt í einu núna!
Það er því þannig með þetta mál að það er ansi mörgum spurningum ósvarað.
Ég hef séð umræður bæði um það að engin ástæða sé til þess að hafa áhyggjur þar sem saltið sé nánast það sama og matarsalt en einnig séð umræðu um að saltið sem notað var sé alls ekki til þess fallið að nota í matvælavinnslu.
En það sem ég upplifi í þessu máli er hálfgert saltbragð í munni. Það er hreinlega yfir því hversu berskjölduð við erum sem neytendur. Þar sem við lifum í nútímasamfélagi þá erum við ekki sjálfbær hvert og eitt með heimaræktuð matvæli úti í garði og gullið okkar undir koddanum. Við lifum í samfélagi þar sem við skiptumst á vörum og þjónustu af ýmsu tagi sem saman myndar þá samfélagslegu heild sem við lifum í. Við verðum einhvern veginn að geta treyst hverju öðru og treyst því að sú matvara sem við verslum sé okkur ekki hættuleg. Vegna þess hafa verið settir ýmiss konar staðlar, regluverk og eftirlit. Það sama á við um bankakerfið. Við hlutum að treysta því að það sem sérfræðingurinn í bankanum sagði væri í lagi og að bankastjóri komi ekki í umræðuþátt og fullyrði það að allt sé í himnalagi en sé á sama tíma að flytja sitt eigið fjármagn af sökkvandi skipi af kappi. Mér verður líka hugsað til Enron málsins þar sem glæpamenn misnotuðu sér þessa berskjöldun almennings fyrir grundvallarþjónustu til þess að græða. Það er eitt af hlutverkum hins opinbera að tryggja hag og velferð almennings með því að hafa eftirlit með hlutum og bregðast við með afgerandi hætti þegar einhver framkvæmir glæpsamleg athæfi eða bregst vegna mistaka.
Núna hafa á mjög skömmum tíma þrjú mál verið í umræðunni þar sem hlutirnir eru í stakasta ólagi með mögulegum heilsufarslegum afleiðingum fyrir fólk, áburðurmálið, brjóstapúðarnir og saltið. Gætum við átt von á einhverju fleiru?
Hins vegar verður líka að hafa í huga að það er í eðli manneskjunnar og samfélagsins að mistök verði. Ég sem sálfræðingur legg mig fram eins vel og ég get í mínu starfi. Það er þó sama hversu mikið ég legg mig fram, ég kemst aldrei hjá því að gera einhvers konar mistök. Það skiptir hins vegar miklu máli hvernig tekist er á við það, hvort fólk læri af því og bæti úr. Ég þarf líka að vera meðvituð um að bera ábyrgð á mér og mínu starfi og leita aðstoðar ráði ég ekki við verkefnin. Það sama þurfa allar stofnanir samfélagsins að gera.
Núna finnst mér nóg vera komið. Með hverjum deginum verður mér ljósara að við þurfum á öllum stigum samfélagsins að leggja harðar að okkur við það að bæta okkur og efla fagleg vinnubrögð. Það er greinilega mikið svigrúm til breytinga og í þær þarf að ráðast til þess að lágmarka skaðann og byggja hér upp samfélag þar sem við getum betur treyst hverju öðru og ólíkum einingum samfélagsins.
Það er ekki nóg að raula bara fyrir munni sér... "Þetta reddast"!
MS innkallar fimm vörutegundir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)