Mánudagur, 25. janúar 2010
Að lifa í núinu
Að lifa í núinu er mikil kúnst sem fáir hafa alveg á valdi sínu. Oft erum við svo upptekin af því sem fram fór í fortíðinni, fyrir árum, mánuðum, vikum eða dögum síðan að við erum ekki til staðar hér og nú. Eða að við lifum í framtíðinni, erum stanslaust að skipuleggja, dreyma og lifa í þeirri framtíð sem við viljum sjá. Ja, eða hafa áhyggjur af hlutum sem við óttumst í náinni framtíð. Sjáum svo skýrt fram á við að við missum af því sem fram fer á þessu eina augnabliki. Ég hugsa að margir geri sér ekki alveg grein fyrir þessu fyrr en þeir leiða hugann að því hvort þeir séu raunverulega hér og nú. Á einni ökuferð úr ræktinni og heim til mín þurfti ég að kippa mér 10 sinnum tilbaka í núið, í rigninguna sem buldi á götunni, lagið í útvarpinu, hina bílana, ljósin, götuna, hitann í sætinu já allt sem var að gerast á því augnabliki. Ég fór um á ógnarhraða á milli fortíðar og framtíðar og gleymdi að stoppa í núinu nema þegar hugurinn mundi eftir því og ég meðvitað kippti mér að áreitunum í núinu.
Hugurinn okkar er ákaflega öflugur, svo öflugur að stundum er eins og hann lifi sínu eigin lífi. En það má aldrei gleymast að það liggur í okkar hlutverki að temja þennan villta huga og skoða hvaða hugsanir eru á flakki og hvaða tilfinningar fylgja með. Góður fréttirnar eru þær að þrátt fyrir að fá ýmsar hugsanir sem oft eru erfiðar þá getum við markvisst skoðað þær eins og rannsakandi með stækkunargleri og breytt þeim og þannig haft áhrif á hvernig okkur líður. Þessar hugsanir koma sjaldnast af sjálfu sér, þær eiga oft rætur að rekja í kjarnann okkar og þær reglur sem við höfum sett okkur í lífinu.
Hvað er að vera í núinu? Að vera í núinu er að vera nákvæmlega meðvitaður og til staðar á því augnabliki sem líður hjá. Nota skynfærin til þess að greina þessa stund, þessa einstöku stund. Ég mun aldrei aftur lifa þá stund sem ég lifi að heyra hvernig vindurinn ryðst fram og tilbaka fyrir utan gluggann, ljóstýran af þessum kertum gefur hlýlegan bjarma og þessi orð eru slegin niður á lyklaborðið á tölvunni. Þetta andartak kemur, líður og fer. Það kemur aldrei aftur.
Það er list að geta setið einn með sjálfum sér og leyft þeim hugsunum og tilfinningum sem koma að koma í núinu og leyfa þeim bara að fljóta hjá eins og öldur á hafinu eða ský sem flakka um himininn án þess að dæma hugsunina eða bregðast við. Og vera bara. Vera maður sjálfur með öllu því sem maður er. Það er friður og það gefur sátt.
Þegar ég fer á hestbak þá hef ég ekkert fyrir því að lifa í núinu. Ég er bara á hestbaki, hugsa um hestinn undir mér, hreyfingar hans, hreyfingar mínar, umhverfið, veðrið og stundina sem er einmitt þá. Sjaldnast læðast áhyggjupúkarnir að mér, fortíðarplatan er ekki á fóninum og framtíðin og verkefnin sem bíða fá að liggja planlaus. Það er ótrúlega dýrmætt að eiga svona andartök, því fleiri stundir sem maður á í þessum hlutlausa gír, því betra að mínu mati.
Vissulega getum við öll lært af fortíðinni og því má ekki þurrka hana út, við getum einnig haft mjög gott af því að setja niður punkt á landakortið um lífshlaup okkar og sjá þannig hvert við ætlum í framtíðinni og hvað við ætlum að gera á leiðinni þangað en það er núið sem er núna og skiptir máli. Við lærum af fortíðinni, stefnum á framtíðina en lifum í núinu. Þetta er góð setning sem mæt kona kenndi mér og einnig heyrði ég á Dale Carnegie námskeiði sem ég var eitt sinn á að sá sem er með annan fótinn í fortíðinni en hinn í framtíðinni pissar á núið. Ég er því sennilega ekki fyrst og ekki síðust til að pæla í mikilvægi þess að lifa í núinu.
Prófaðu á morgun eftir að hafa lesið þessa færslu að skoða huga þinn og velta því fyrir þér hvar þú ert? Ertu að hugsa um hluti sem hafa þegar gerst, í gær, í fortíðinni? Ertu að skipuleggja framtíðina (jafnvel bara kvöldmatinn) eða ertu raunverulega hér og nú og upplifir öll þau áreiti sem er að finna á þessu andartaki?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.