Sunnudagur, 7. mars 2010
Gildismat
"Gildismatið á Íslandi er ónýtt" skrifaði Sölvi Tryggvason á Pressuna um daginn http://www.pressan.is/pressupennar/LesaSolvaTryggvason/staersta-hrunid-a-islandi.
Mikið er ég sammála honum. Gildismat er eitthvað sem við þurfum að ræða og skoða sem þjóð. Hvað er það í lífinu sem skiptir raunverulega máli? Hvað er það sem færir okkur hamingju? Hvað er það sem verður minnisstætt þegar við horfum tilbaka? Er það afrekið að hafa náð að hámarka verðbréfin sín og blása upp verðið á þeim með alls konar klækjum og brögðum þannig að í þykjustunni er maður alveg ógeðslega ríkur? Er það Range Rover jeppinn? Er það einbýlishúsið með heita pottinum og heimabíókerfinu? Er það íbúðin á besta stað í stórborgum heimsins? Er það sumarhúsið hér og þar um heiminn eða íslenski dalurinn sem maður keypti upp (sem blés by the way upp jarðarverð og gerði ungu fólki nær ókleift að stunda landbúnað)? Er það lýtaaðgerðin og allir flottu kjólarnir og glingrið sem nefnt var sérstaklega í Séð og heyrt? Er það álit annarra ráðamanna heimsins á íslenska efnahagsundrinu sem slær öllu öðru við? Að vera þjóð meðal þjóða sem birtist til dæmis í því að vera með ógrynni af sendiráðum út um allan gervallan heim? Allt það flottasta?
Þetta er eiginlega tvíþætt: Annars vegar gildismat hvers og eins sem er í raun micro gildismatið og svo gildismat okkar sem þjóðar sem er macro gildismatið.
Í hinni smáu micro mynd þá tel ég það sem skipta máli vera góð heilsa og gott fólk í kringum mann. Að maður hafi eins góða heilsu og möguleiki er á andlega og líkamlega og eigi góða að til þess að njóta lífsins með og til að hjálpa manni í gegnum erfiðari daga. Það eru litlu hlutirnir sem skipta öllu máli er nokkuð sem ég var minnt á nýlega. Það eru svo mikil orð að sönnu. Að njóta þess að hugsa um börnin sín, fara í gönguferð og taka eftir einhverju nýju í umhverfinu, gleðjast með góðum vini, líða vel. Það er gott að geta notið líðandi stundar fram í fingurgóma. Eiga fæði, klæði og öryggi er vissulega grunnur að þessu. En fæðið þarf ekki að vera fimm rétta, klæðin þurfa ekki að vera keypt í New York eftir frægan fatahönnuð og öryggið er jafnmikið í huggulegri lítilli íbúð og stórri höll. Það að geta gefið og þegið og notið hvers dags er það sem skiptir máli. Ef maður á allt efnislegt sem hugurinn girnist þá vill maður bara eitthvað annað og þar sem maður getur ekki keypt hamingjuna verður hugurinn enn snauðari ef maður reynir það. Að reyna að kaupa sér álit annarra þeas. að falla í þann pytt að maður sé metinn að verðleikum eftir efnislegum gæðum er ekki fallið til farsældar og slík samkeppni sem hefur verið vinsæl hér er einungis til þess fallin að skilja eftir fólk sem veit ekkert hvað það vill fá út úr lífinu og tapar tengslum við hið raunverulega líf og situr uppi með brenglað gildismat.
Í hinni stóru macro mynd þá skiptir það máli fyrir okkur sem fámenna þjóð á afskekktri eyju að búa við öryggi og að allir hafi það eins gott og hægt er. Þessi grunnatriði hafa gleymst í græðgiskapphlaupi síðustu ára. Á undanförnum árum þegar Íslendingar héldu að þeir væru alveg ógeðslega ríkir af því við ættum svo klára viðskiptamenn sem dúndruðu íslenska undrinu yfir umheiminn og leiddu til flæðis af fjármagni inn í ríkissjóð (þeas. sá straumur sem flæddi ekki í skattaparadísir og undanskot) þá brenglaðist gildismatið allverulega hér á landi. Það skipti einhvern veginn engu máli hvað það hét eða hvaða afleiðingar það hafði ef það þýddi að einhver græddi á því eins og dæmið um yfirverð jarða hér á undan. Menn sem höfðu skóflað til sín fjármagni (stolnu og ímynduðu) settu margt á annan endann og komumst upp með það vegna þess að einhver annar græddi á því. Hugsað var til skammtímagróða en ekki langtíma farsældar þjóðarinnar. Við sem ein stór fjölskylda með allar okkar ómetanlegu auðlindir og sérstöðu eigum að gera vel við alla íbúa landsins. Við eigum að geta stutt við bakið á þeim sem hafa farið halloka í lífinu og það á að vera til nóg handa öllum. Gildismatið snýst um það að við séum til staðar fyrir hvert annað og öllum líði eins vel og kostur er á. Við berum líka ábyrgð á því að gera okkur grein fyrir sönnu verðmæti auðlinda okkar og kasta þeim ekki fyrir skammtímagróða nokkurra vel valinna. Við eigum að varðveita þær, lifa í sátt við þær og taka ekki meira en við getum skilað til komandi kynslóða. Hins vegar eigum við að njóta þess að deila okkar sérstöku náttúru með fjölmennum hópi ferðamanna og byggja þá grein upp af krafti.
Ég vona að við sem þjóð berum gæfu til þess að vera meðvituð um raunverulegt gildismat og tökum ákvarðanir okkar út frá því. Lærum af reynslunni og séum tilbúin að breyta rétt. Það er mikið í húfi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.