Föstudagur, 9. apríl 2010
Frú Kemp í New York
Ég átti gott spjall við mjög mæta konu um það að hjálpa öðrum. Af hverju gerum við það að leggja heilmikið á okkur fyrir annað fólk án endurgjalds?
Hún sagði mér ansi góða dæmisögu. Svona hljómaði hún einhvern veginn. Það var skipstjóri sem sigldi skipinu sínu alveg upp í fjöru. Hann kom þar að konu og dóttur hennar sem voru hraktar og illa til reika. Hann bauð þeim upp í skipið, klæddi þær í hlý föt og gaf þeim að borða. Þær sigldu svo með honum heillanga leið. Þegar komið var að kveðjustund spurðu þær hann af hverju hann hafi lagt svona mikið á sig til þess að hjálpa sér. Hann sagði: "Ég gerði það vegna hennar frú Kemp í New York"! Ha, frú Kemp í New York, hvað áttu við? Jú, hún sagði mér að þegar maður hjálpar einhverjum þá hjálpar sá maður einhverjum öðrum og þannig gengur það koll af kolli þar til keðjan lokast og hjálpin kemur tilbaka til þín. Þá sagði konan: "Frú Kemp í New York er systir mín".
Mér finnst þetta alveg ótrúlega góð saga. Það er nefnilega málið að með því að leggja á sig óeigingjarna hjálpsemi þá hefur maður jákvæð áhrif sem skila sér margfalt tilbaka. Ótal dæmi eru um slíkt í sögunni þar sem fólk sem gengið hefur í gegnum einhvers konar erfiðleika eða erfiða lífsreynslu hjálpar öðrum sem lenda í hinu sama síðar meir.
Munum það að vera góð við hvert annað, hjálpa hverju öðru og styðja ekki síst þegar erfiðleikar steðja að. Hitt er svo reyndar annað mál að hjálpsemi getur farið úr böndunum, orðið að meðvirkni og ábyrgðin á erfiðleikunum færst yfir á þann sem er að hjálpa til frá þeim sem í raun á að bera hana. Það er ekki gagnlegt að verða svo hjálpsamur að það sé farið að kosta manns eigin velferð. Það er fínn línudans sem þarf að stíga. Maður þarf að muna að setja alltaf fyrst súrefnisgrímuna á sig áður en maður ætlar að hjálpa öðrum við það.
En hafið sögu skipstjórans góða í huga gott fólk og þá munum við virkilega vera til staðar fyrir hvert annað í þessu lífi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.