Kverkatak á heilli þjóð

Hvernig á almenningur á Íslandi að snúa sér þessa dagana?

Smám saman kemur æ betur og betur í ljós að nánast allt okkar efnahagslega kerfi var/er helsjúkt. Spillingin hefur loðað við í hverju horni, menn hafa svikið, stolið og logið. Almenningur hefur verið rændur í stórum stíl um hábjartan dag. Fyrirtækjum hefur verið rænt. Auðlindum okkar hefur verið rænt. Hér hafa þrifist viðbjóðslegir viðskiptahættir og starfsemi. Sama fólkið og líður fyrir ástandið þarf að taka skellinn. Borga brúsann. Borga fyrir 200 þúsund króna kampavínsflöskurnar sem keyptar voru án þess að hiksta og einkaflug á fjarlægar eyjar til þess að grafa íslenskar gullkistur í gylltum sandinum. 

Hvers eigum við að gjalda sem búum hér á landi og viljum búa þar sem rætur okkar liggja og byggja hér heiðarlegt og gott samfélag. Hvernig á fólk að snúa sér þegar það reynir að taka ekki þátt í ruglinu en hreinlega getur það ekki vegna smæðar samfélagsins og leyndarinnar. Bara með því að komast úr landi í frí, bara með því að hringja eitt símtal, bara með því að kaupa í matinn þá gæti maður gert sig sekan um að styrkja fyrirtæki byggð á vafasömum útrásargrunni.

Verðum við að gera bara eins og hundarnir hans Seligman sem hættu að reyna að hoppa yfir rafstuðið heldur létu það bara yfir sig ganga? Lært úrræðaleysi í allri sinni mynd.

Er von til þess að hér geti orðið ALVÖRU uppgjör þar sem málin verða leidd til lykta, farið verði í algjöran uppskurð á öllu okkar kerfi, regluverki, eftirliti og svo verði vandlega gætt að hvernig fólk er ráðið í ábyrgðarstöður inn í kerfið?

Stundum trúi ég því, stundum efast ég og missi vonina.

Stærsta meinið sem þarf að vinna með í íslensku samfélagi er viðhorfið. Það þarf að snúa viðhorfi fólks frá því að meta aðra eftir raunverulegum verðleikum en ekki keyptum (jafnvel fyrir stolið fé). Það þarf að efla samvinnuviðhorfið þar sem við hjálpum hverju öðru eins og íbúar þessa lands hafa gert um örófir alda við það að komast af í sameiningu og öðlast hamingju. Það þarf að efla það viðhorf að það skipti meira máli hvað maður gerir heldur en hver maður er. Það þarf að hafa áhrif á viðhorfið um heiðarleika og gagnsæ vinnubrögð.

Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott. Ekki bara örfáir útvaldir. Við eigum að vera löngu komin frá því kerfi sem hér var við lýði þegar danskir einokunar kaupmenn héldu kverkataki á öllu hér. Undanfarið hafa þeir verið íslenskir og kenndir við útrás sem hafa haldið kverkataki á heilli þjóð. Því verður að breyta.

Sjáum til hvað gerist með útgáfu umtöluðustu skýrslu allra tíma.


mbl.is Í skjóli leyndar þrífst spillingin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Þór Björnsson

-Já þess væri óskandi að skýrsla aldarinnar skilaði einhverju í umbótaátt og mikið er ég sammála þér varðandi viðhorf þjóðarinnar. Hin gömlu góðu gildi hafa horfið og lestir gerðir að dyggðum, og þjóðleg einkenni tapast

Árni Þór Björnsson, 11.4.2010 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband