Þriðjudagur, 13. apríl 2010
Ljós í ruglinu
Jæja þá er hún komin eftir mikla eftirvæntingu, skýrslan sem flestir landsmenn hafa beðið eftir. Lengi vel hefur maður sagt að það verði að komast til botns í því hvað gerðist eiginlega til þess að hægt sé að hefja hér nýtt upphaf... Nú er sú stund runnin upp!
Við fyrstu sýn virðist skýrslan rækileg, vönduð og vel unnin og á rannsóknarnefndin og allir aðrir sem lagt hafa á sig ómælda vinnu heiður skilinn fyrir vinnuframlag sitt. Það sem maður hefur lesið í skýrslunni kemur svo sem fátt á óvart en hins vegar er gott að sjá þetta svart á hvítu, sett upp á skipulegan og málefnalegan hátt.
Nú liggur greining á meininu fyrir og þá er næsta skref að átta sig rækilega á greiningunni, vinna meðferðaráætlun og breyta ástandinu. Einhverjir þurfa að sæta ábyrgð, einhverjir munu verða dæmdir fyrir sakhæft athæfi. Regluverkið þarf að stórbæta og eftirlitið þarf að byggja upp nánast frá grunni. Hrokanum þarf að bola út og taka þarf upp vönduð og fagleg vinnubrögð í hvívetna.
Maður veit varla hvort maður eigi að hlæja eða gráta þegar maður áttar sig á sumum þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð eins og það að rita ekki fundargerðir á gríðarlega mikilvægum fundum og að viðeigandi ráðherra skuli ekki boðaður á fundi er varða hans ábyrgðarsvið. Lýsandi dæmi um að stjórnsýslan var á mörgum stöðum í tætlum. Ég hef starfað sem forstöðumaður á sambýli og þar voru ýmis stjórnsýsluleg vinnubrögð á talsvert hærra plani en því sem virðist hafa viðgengist í okkar æðstu embættum. Og margt af því sem kemur fram um bankana er í raun ofar því sem ég held að margir gætu ímyndað sér eða skrifað um í villtustu vísindaskáldsögum um fjárglæframenn!
Stærsta verkefnið næstu ár er að vinna að því að byggja á ný upp þann samfélagssáttmála og traust sem í okkar litla samfélagi hefur verið við lýði. Byggja upp heilbrigð viðhorf og gildismat. Samfélagið var orðið helsjúkt af öllu því rugli sem hér tröllreið öllu.
Meðferðin er því eins og aðrar meðferðir ekki einföld. Það er ekki nóg að gleypa bara eina pillu (a pill for every ill!) og vandinn hverfi eins og dögg fyrir sólu. Það þarf að ráðast í gagngerar breytingar frá grunni og nýta til þess mörg ólík verkfæri. Það kostar heilmikla vinnu.
En ég er ánægð með daginn. Ég tel íslensku þjóðina fá núna þá von sem vantaði um að það sé raunverulega hægt að gera eitthvað í málum okkar. Það er hægt að byrja að nýju eins og máltækið segir. Í dag er fyrsti dagur þess sem þú átt ólifað! Í dag er (vonandi) fyrsti dagur Nýs Íslands.
Til hamingju Ísland :)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:54 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir góðan pistil. Vonandi ber okkur gæfu til góðra verka. Ljóst er að flokkarnir verða að fara í algera endurnýjun bæði á fólki og hugmyndafræði.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 13.4.2010 kl. 03:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.