Fimmtudagur, 15. apríl 2010
Líf
Líf, ljómi þinn svo skínandi skær
augu þín svo saklaus og tær
fegurri en nokkuð annað
áhrifin ótvíræð
ég svíf því ég á þetta líf.
Svona söng Stefán Hilmarsson um árið og lagið er djásn eins og svo margt annað sem frá honum hefur komið. Svona man ég amk. textann og ég man ekki betur en hann hafi samið það og veit amk. að hann söng það.
Þetta lag ómaði um í kollinum á mér á leiðinni heim eftir að sjá nýju prinsessuna í fjölskyldunni. Þvílík verðmæti að eiga svona lítið djásn. Þvílík verðmæti sem hvert einasta líf er.
Ég held að það sé mikilvægt að minna sig á tilfinninguna þegar maður sér hvítvoðung og muna hversu dýrmæt hver einasta manneskja (og aðrar lífverur auðvitað) eru. Þegar hallað hefur á verri hliðina, fólk hefur lent í erfiðleikum, neyslu, afbrotum eða öðru þá er mikilvægt að muna að slíkir einstaklingar eru líka fólk. Þetta er fólk sem lá í fanginu á foreldrum sínum og ástvinum sem horfðu á gullmolann sinn stoltust í heiminum. Hvert foreldri er eflaust tilbúið að berjast við allan heiminn og sigra allan heiminn bara fyrir litla ljósgeislann sinn. Þvílíkar væntingar og þvílík hamingja sem fylgir hverju einasta lífi. Þetta má bara ekki gleymast. Jafnvel þó fólk týni stundum sjálfu sér í erfiðleikum þá er grunnelementið það sama í okkur öllum og það er það sem litli saklausi yndislegi hvítvoðungurinn geislar framar öðrum af.
Þegar fólk hefur farið rangan veg og á jafnvel engan að þá má ekki gleymast að þessir einstaklingar voru einu sinni elskaðir útaf lífinu og þeir búa líka yfir færni til þess að elska, búa yfir kærleik og öllu því sem gerir okkur að manneskjum. Þetta á líka við um fólk sem hlýtur hroðaleg örlög eins og til dæmis það saklausa fólk sem bandarískir hermenn skutu af heigulskap niður af færi eins og þeir væru staddir í hverjum öðrum tölvuleik...
Við erum öll þetta stórkostlega kraftaverk sem ég upplifði í dag (og undanfarið því ég er svo heppin að það er nóg af litlum krílum í kringum mig). Við höfum hvert eitt og einasta burði til þess að upplifa allt tilfinningarófið, gera hið mögulega og ómögulega og vera bara hið einstaka undur sem við hvert og eitt erum. Og þegar líður á lífsbaráttuna þá erum við öll fyrst og fremst fólk sem fer í gegnum daginn sinn á mismikilli sjálfstýringu sem viljum skilja eftir okkur einhver afrek, finna hamingjuna, elska og vera elskuð. Við erum í grunninn bara nauðalík sama hvernig við lítum út, hvernig við erum á litinn, í laginu, hvernig umhverfið okkar er, rík eða fátæk, á réttri leið eða rangri leið, við erum manneskja. Manneskja sem fæddist í þennan heim og mun yfirgefa þennan heim.
Mig langaði að deila þessu kraftaverki dagsins með ykkur og hvetja ykkur til þess að hugsa ykkur um næst þegar ykkur mislíkar verulega við einhvern að muna eftir því að sú mannvera býr yfir 99% sömu eiginleikum og þið þrátt fyrir að vera kannski tímabundið á villigötum, hugsa á rangan hátt og bregðast vitlaust við oft vegna flókins vefs margslunginna atvika og aðstæðna. Það er á ábyrgð hvers og eins okkar að fara vel með þessa guðsgjöf sem við sjálf erum og hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama.
Ég veit að ég alhæfi í þessum pistli. Vissulega eru því miður til börn í þessum heimi sem fæðast ekki inn í umhverfi sem getur vart haldið niðri öndinni fyrir spenningi yfir komu þeirra. Börn sem búa við skelfilegar aðstæður og það er óhugsandi að ímynda sér hvernig hægt er að gera barni eitthvað. Barni sem er það saklausasta, hreinasta, fallegasta, bjargarlausasta og undursamlegasta sem við eigum.
Munum að meta hið undursamlega líf í okkur sjálfum, öllum í kringum okkur og síðast en ekki síst í því undursamlega sköpunarverki sem nýfæddur hvítvoðungur er :). Þvílíkt kraftaverk!!!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
táraðist bara við þessa fallegu færslu frá þér elsku vinkona!
knús
Linda
Linda (IP-tala skráð) 15.4.2010 kl. 12:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.