Fimmtudagur, 6. maí 2010
Mig svíður
Mig sveið í hjartað að sjá viðtalið við 2 menn á Rúv í gær sem höfðu verið að glíma við atvinnuleysi í 12 og 15 mánuði.
Mér þótti verulega sárt að sjá þá vanlíðan sem skein úr augum þeirra. Menn sem hafa unnið frá 13 ára aldri og staðið sína vakt og þurfa svo að horfa upp á það núna þegar fer að hilla undir lok starfsævinnar að missa vinnuna og eiga erfitt með að sjá fram á nýja atvinnu.
Þetta svíður og þetta voru aðeins 2 einstaklingar af þeim 17.000 sem eru í svipuðum sporum. Bakvið hvern einstakling liggur lífshlaup, lífsbarátta og atvinnuferill. Bakvið hvern einasta einstakling er fjölskylda, vinir og ættingjar.
Það hlýtur að vera erfitt að vera í þessum sporum hafi maður tengt stóran hluta af sjálfsmynd sinni þeirri atvinnu sem maður stundar. Þá hrynur um leið hluti sjálfsvirðingarinnar þegar atvinnan fer.
Atvinnuleysi er böl og það er STÆRSTA verkefni næstu ára að byggja upp öll möguleg og ómöguleg atvinnutækifæri til þess að geta skapað hér aðstæður sem fólk getur blómstrað í.
Þannig getum við haldið uppi velferðarkerfi okkar sem hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og einmitt þessa dagana. Þetta sama kerfi þarf að grípa þá sem eiga um sárt að binda og tryggja þeim þjónustu til þess að takast á við missi sinn, áfall og sorg.
Nauðsynlegt er að fyrirbyggja að atvinnumissir verði að heilsumissi í kjölfarið. Eitt af því sem skiptir máli er að fólki standi til boða stuðningur eins og t.d. sálfræðiþjónusta. Einnig þarf að byggja upp virkniprógrömm þannig að fólk lendi ekki í vítahring aðgerðaleysis og þunglyndis en eftir því sem atvinnuleysið varir lengur aukast líkur á slíkum slæmum afleiðingum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frænka mín. Á þessum fundi var ég sem fulltrúi stéttarfélags..Þetta er hrikalegt. Og öllu er fórnandi fyrir að atvinnuleysi breiðist ekki út. Mér rann til rifja að hlusta á þessa menn sem höfðu verið fyrirvinnur eins og þeir sögðu..skaffarar..Þetta er svo mikið skipsbrot og ég treysti á þig og okkar menntaða fólk að þið bregðist við!
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 6.5.2010 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.