Hvað skiptir þig mestu máli?

XB vor 2010(grein birt í Mosfellingi í dag)

Næstkomandi laugardag munt þú bæjarbúi góður ganga að kjörborðinu og kjósa þér nýja bæjarstjórn. Þitt atkvæði hefur áhrif á hvernig samfélagið þróast næstu fjögur árin.

Sveitarstjórnarmál snúast um nærsamfélag

Í því samhengi er ágætt að spyrja sig þeirrar spurningar hvað skiptir mestu máli? Er það fjölskyldan, velferð ættingja og vina, atvinnan, umhverfið, fellihýsið, jeppinn eða eitthvað allt annað? Það skiptir máli að næg atvinna sé til staðar því öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðarinnar. Það skiptir máli að í skólum og leikskólum séu gæði tryggð með því að leggja meiri áherslu á mannauð en steypu. Það skiptir máli hvernig stuðning þeir fá sem að glíma við atvinnuleysi eða aðrar afleiðingar þess hruns sem orðið hefur. Það skiptir máli að vandlega verði staðið að yfirfærslu málefna fatlaðs fólks og aldraðra. Það skiptir máli að öryggismál séu í lagi í bæjarfélaginu þannig að börnum stafi til dæmis ekki hætta af opnum byggingagrunnum sem eru minnisvarðar um samfélag sem fór fram úr sér og græðgishyggju. Það skiptir máli að umhverfið sé fallegt og að hver íbúi eigi sama aðgengi að þjónustu bæjarins.

Fagleg stjórnsýsla sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi

Það eru sérstakir tímar og sérstakar kosningar. Það er tími forgangsröðunar og sparnaðar. Núna eru tímar ferskra vinda, breytinga og tækifæri til þess að hugsa samfélagið okkar upp á nýtt. Eitt af því sem þarf að taka í gegn er hvernig stjórnsýslan virkar. Með því að ráða ópólitískan bæjarstjóra er strax stigið stórt skref að mínu mati í átt að faglegri og betri stjórnsýslu. Það þarf að aðgreina á milli valds kjörinna fulltrúa og framkvæmdarvaldsins. Einnig er mikilvægt að vinna þau samfélagslegu verkefni sem vinna þarf með samvinnuna að leiðarljósi. Bæta þarf aðkomu bæjarbúa að ákvörðunum. Leiðir að því markmiði eru til dæmis að auka upplýsingaflæðið með skýrum, aðgengilegum fundargerðum, með því að 25% íbúa bæjarins geti kallað eftir kosningu um hitamál og með því að kanna afstöðu bæjarbúa til stórra ákvarðana með reglulegum könnunum. Stjórnsýslan þarf að vinna faglega sem felst meðal annars í því að vinnan sé gagnsæ, skilvirk, leitað sé til viðeigandi sérfræðinga hverju sinni, virkt eftirlit sé, gott verklag, siðferði og hagsmunir heildarinnar ávallt hafðir að leiðarljósi. Framsóknarflokkurinn hefur fyrstu stjórnmálaflokka lagt drög að siðareglum sem flokksmönnum ber að fara eftir í störfum sínum.

Við viljum vinna fyrir þig! Frambjóðendur hafa víðtæka reynslu af ólíkum málaflokkum sem munu nýtast stjórnsýslu bæjarins vel en við leggjum einnig mikla áherslu á að þú getir haft áhrif á hvernig við vinnum og einnig að leitað verði til viðeigandi sérfræðinga þegar þörf er á til þess að skattfé þínu verði vel varið og Mosfellsbær samfélag sem öllum bæjarbúum líður vel í.

Ég hvet þig til þess að setja X við B á laugardag og kjósa Breytingar!

Kristbjörg Þórisdóttir, skipar 12. sæti á lista Framsóknar


mbl.is Spurningar úr sal ekki leyfðar á framboðsfundi í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband