Miðvikudagur, 2. júní 2010
Öskuregn
Yfir íslenska þjóð rignir nú ösku. Maður finnur fyrir því í ógeðinu sem situr á sólstólunum úti á svölum og öskudroparnir þekja blómadúkinn á borðinu.
Þrýstingurinn í iðrum jarðar jókst, ójafnvægi myndaðist og upp úr sauð. Afleiðingarnar eru mörgum erfiðar. Þegar til lengri tíma er litið þá mun þó jarðvegurinn líklega standa eftir frjósamari og spennan hefur dvínað til muna. Menn hafa lært nýja hluti m.a. um áhrif öskuskýja á flugumferð. Eldgosi getum við ekki breytt, það bara gerist! Við þurfum bara að sópa öskunni út í jarðveginn og halda áfram.
Yfir okkur dynur nú annars konar öskuregn. Þrýstingur hafði myndast lengi, ýmislegt misgáfulegt var gert hér, mistök gerð og á endanum hrundi þjóðfélagið og upp úr gaus. Almenningur situr nú eftir og þarf að taka afleiðingum þessara hamfara hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við sem þjóð eigum við ramman reip að draga.
Það sem ég hef þó mestar áhyggjur af er það að í slíkum aðstæðum þá skuli hið mennska íslenska eðli virka þannig að fólk fari að rífast innbyrðis þegar harðnar á dalnum og bíta hausinn af hverju öðru, missa stjórn á sjálfu sér vegna tilfinninga í stað þess að sýna festu og vinna sameiginlega að því að leysa málin. Þetta hefur kristallast á Alþingi okkar frá hruni og í raun löngu fyrir þann tíma. Fólki hefur ekki tekist að hefja sig yfir eigin persónu, taka málefnalega rökræðu, finna það sem sameinar okkur og róa öllum árum að sameiginlegu markmiði sem væri best fyrir heildina. Menn steyta sífellt á skerjum eigin hagsmuna, eigin persónu og róa þaðan í hringi þar sem þeir hafa misst sjónar á hinum eiginlega tilgangi ferðarinnar.
Því miður þá glatast í slíku umhverfi tækifæri þess að læra nýja hluti, læra hvernig við getum gert hlutina betur og standa þá upp með frjósamari og betri jarðveg. Með slíku háttalagi komumst við ekki nær neinu markmiði og sitjum föst í skurði sem við gröfum okkar dýpra og dýpra í. Ég vona að við getum betur greint á milli þeirra hluta sem við getum stjórnað og hinna sem við getum ekki stjórnað, séð stóru myndina og unnið sameiginlega að farsælum lausnum sem eru heildinni til heilla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.