Ályktun frá Hagsmunasamtökum heimilanna í aðdraganda þinghlés

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vill benda á að fullyrðingar forsætisráðherra um að aðgerðir stjórnvalda hafi bjargað þúsundum heimila frá gjaldþroti, standast ekki skoðun. Þrátt fyrir þá staðreynd að fjármálastofnanir hafa í stórum stíl haldið að sér höndum með aðfarargerðir liggja fyrir þúsundir nauðungarsölubeiðna hjá sýslumönnum.

Ástandið versnar með degi hverjum og því lengur sem beðið er með alvöru aðgerðir því erfiðara verður að greiða úr flækjunni. Þær upplýsingar sem hafa borist HH síðastliðið ár auk nýrra upplýsinga frá Creditinfo gefa ekki tilefni til að fagna árangri hjá stjórnvöldum.
Þverpólitískur hópur alþingismanna og fjöldi einstaklinga og félagasamtaka auk Hagsmunasamtaka heimilanna hafa reynt að fá valdhafa til að takast á hendur alvöru aðgerðir fyrir heimilin. Fyrir þinginu hafa legið frumvörp mánuðum saman sem miðast við að taka af festu á þessum málum, rétta stöðu heimilanna og bæta réttarstöðu og möguleika þeirra sem þrátt fyrir aðrar aðgerðir verður ekki bjargað frá fjárhagslegu þroti.

Þau brýnu frumvörp sem ekki hafa fengið afgreiðslu eru: Frumvarp um 4% þak á verðtryggingu, lyklafrumvarp, leiðrétting höfuðstóls lána, lög um gjaldþrotaskipti og fyrningu kröfuréttinda, lög um hópmálsóknir, lög um umboðsmann skuldara, lög um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, lög um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Mörg þessara mála hafa verið þæfð eða svæfð og þvælt um nánast allt milli himins og jarðar annað en það sem skiptir þorra heimila mestu máli. Yfirlýsing forsætisráðherra um ágæti aðgerða stjórnvalda er nýjasta fjöðurin í skrúðgöngu fáránleikans. Ef frá er talin skýrsla rannsóknarnefndar alþingis er verkefnum stundum beinlínis úthlutað óviðeigandi aðilum til upplýsingaöflunar og vinnslu. Þegar niðurstöðurnar koma seint og um síðir eru þær oft byggðar á ófullnægjandi eða úreldum gögnum, á röngum forsendum og í ofanálag eru þær jafnvel vísvitandi rangtúlkaðar til að fegra myndina í þágu ímyndar ríkisstjórnarinnar. Lítill áhugi virðist vera á að takast á við verkefnin sem niðurstöðurnar vísa á en þess í stað litið á niðurstöðurnar fyrst og fremst sem ímyndarvanda stjórnvalda.

Hafa þarf í huga að skuldastaða heimilanna er að mestu tilkomin vegna glórulausrar hollustu við kerfisbundnar verðbreytingar lána. Landsmönnum er nú gert að bera skuldir sem að mjög stórum hluta var í raun aldrei til stofnað. Kominn er tími til að stjórnvöld og fjármálakerfi taki ábyrgð og leiðrétti afleiðingar eigin reiknikúnsta með í það minnsta viðlíka mótvægiskúnstum.

Sterkar vísbendingar eru um að Hæstiréttur muni innan fárra daga taka af öll tvímæli um ólögmæti gengistryggingu lána í samræmi við vilja löggjafans í lögum 38/2001. Í ljósi áherslna stjórnvalda í gegn um tíðina telur stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna nokkrar líkur á að ríkisstjórnin muni í skjóli þinghlés, setja bráðabirgðalög til að koma í veg fyrir réttmæta leiðréttingu gengistryggðra lána. Hagsmunasamtök heimilanna skora á stjórnvöld að láta ekki undan þrýstingi fjármálaaðalsins en taka þess í stað stöðu með heimilunum. Samtökin vita sem er að áköll um leiðréttingu verðtryggðra lána munu verða háværar í kjölfarið. Það er þróun sem er löngu tímabær að mati samtakanna en yfir 80% landsmanna vilja afnám verðtryggingar samkvæmt könnun samtakanna á síðasta ári.

Drekking heimilanna í skuldafeni getur vart verið lausn á fjárhagsvanda ríkiskassans. Hættan er að þegar svo stór hluti heimila sekkur í dý skulda, dragist aðrir með sem áður töldu sig hólpna. Þegar allt kemur til alls er þetta ekki spurning um hvort leiðrétting fari fram heldur hvenær og hvernig. Stjórnvöld þurfa að velja þá leið á meðan þau ennþá geta, okkur öllum til heilla og framtíðar.

10. júní 2010
Stjórn HH

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband