Ces´t la vie

 life

Þetta líf sem við lifum er alveg stórmerkilegt.

Við fæðumst ein inn í þennan heim og við yfirgefum hann ein. Í upphafi erum við algjörlega háð öðru fólki um bókstaflega allt, liggjum hjálparvana og sperrum útlimi hingað og þangað án þess að vírarnir séu allir orðnir tengdir þannig að hreyfingar verða ómarkvissar og fálmkenndar. Smám saman tengist betur og betur á köplunum og hinir ýmsu hlutir fara að gerast. Allt í einu fer maður að geta slegið í snuðið sitt, dótið og jafnvel ná góðu gripi á einu og öðru. Svona heldur lífið áfram með sífelldum framförum. Byggja upp og læra ýmsa stórmerkilega hluti sem snúa að því að vera manneskja. Prófa hversu mikið hægt er að stjórna þessu stóra fólki allt í kringum mann með ýmsum tilburðum. Prófa svo smám saman að feta sig sína eigin leið, allt frá fyrsta skrefinu.

Fara svo í gegnum unglingsárin eins og lítið trippi sem þarf að fá að reka sig á og þykir hreint ekki smart að hafa foreldrana innan ákveðins radars! Koma svo smám saman niður af trippinu og verða að fullorðnum einstaklingi sjálfur. Finna sér stað í þessari tilveru. Hver er ég? Hvert er mitt hlutverk í þessu stórbrotna samspili ljóss og skugga í lífinu sjálfu? Hvað ætla ég að skilja eftir mig? Hvert ætla ég og hvaða leið ætla ég að velja þangað. Lífið er hlaðborð þar sem flestir geta valið eitthvað við sitt hæfi. Hins vegar komum við misjafnlega útbúin út í þetta líf. Bakpokinn okkar er æði misjafn og sumir á hlaupaskóm en aðrir kannski bara á einum jafnfljótum.

Vinna svo vonandi í stóra lottói lífsins að eignast sína eigin ljósgeisla til þess að lýsa upp það sem eftir lifir ferðarinnar og fara yfir á næsta stig hins mikla þroska með því að kenna annarri mannveru sem þú elskar meira en lífið sjálft hvernig það á að fóta sig í þessum heimi sem þú ert búin að læra nokkuð vel á. Fá jafnvel fleiri lottóvinninga og skemmtilega samferðamenn.

Færa sig svo smám saman af hlaupabrautinni og hægja á hlaupunum, enga spretti lengur. Fylgjast með gersemunum þínum á brautinni en velta vöngum á sama tíma yfir þínu eigin lífshlaupi. Njóta ávaxtanna af öllu sem þú hefur sáð, stritað fyrir og lært í þessu magnaða hlutverki sem þú hinn mikli þátttakandi lífsins. Finna svo smám saman hvernig hringurinn nálgast það að lokast og á endanum ertu kominn þangað sem þú hófst allt fjörið.

Þetta er mikil ferð.

Hver einasta mínúta af henni er dýrmætari en allt efnislegt sem þú átt.

Farðu vel með hana, njóttu hennar algjörlega.

Taktu Pál Óskar til fyrirmyndar og passaðu vel upp á að á hverjum sólarhring fáir þú nægan svefn, hreyfir þig og sinnir andlegum málefnum. Það er lykillinn að því að allt annað gangi upp. Ég vil bæta við að minna á að borða hollt fæði og eyða tíma reglulega með því fólki sem skiptir þig máli.

Vandaðu vel leiðirnar þínar, vertu ávallt tilbúinn að skoða kortið og breyta ferðaplönum sé landslagið annað en þú áttir von á. Ekki missa af bestu leiðunum fyrir þig.

Vandaðu valið á samferðamönnum.

It´s the journey, not the destination. Njóttu ferðarinnar, njóttu þess að spretta úr spori á köflum en staldra algjörlega við í kyrrðinni á öðrum tímum.

Og umfram allt, þakkaðu fyrir það á hverjum degi að hafa fengið það stórkostlega tækifæri að fá þetta líf að gjöf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband