Fimmtudagur, 17. júní 2010
Til hamingju með daginn Íslendingar!
Kæru lesendur!
Innilegar hamingjuóskir með þjóðhátíðardaginn :)
Við erum Íslendingar. Það gerir okkur einstök í mannmergð alheimsins. Við erum ekki stórþjóð, við erum ekki fjölmenn en við erum engu að síðar þrælmögnuð, við þesssi uþb. 317.000 sem eigum þetta magnaða land undir fótum okkar. Við erum ein ríkasta þjóð heims að mínu mati. Við sitjum á þvílíkum gullkistum til framtíðar sem vel þarf að fara með. Við búum við mikla og dýrmæta sérstöðu. Við eigum svo mikla náttúrufegurð, svo gjöfult land í orðsins fyllstu merkingu, merkilega sögu, menningu og okkar ylhýra. Við erum komin af fólki sem getur harkað af sér ótrúlegar raunir og höfum farið úr moldarkofum í háþróað samfélag á örskömmum tíma. Við erum harðger víkingaþjóð með öllum okkar kostum og löstum!
Þetta þurfum við að hafa verulega í huga á næstu misserum á válegum tímum þegar þrengir að okkur. Við megum ekki falla í þá algengu gryfju að kasta krónunni fyrir aurinn. Við þurfum að gæta okkar á stórveldum sem horfa girndaraugum á auðlindir okkar, hnattræna sérstöðu og horfa til lengri framtíðar en kannski margir aðrir og gera sér vel grein fyrir því hvað við erum fámenn. Nóg um það.
Það var svo gaman að rölta um miðbæ Reykjavíkur í dag og fylgjast með öllu þessu stórkostlega mannlífi sem iðaði um strætin. Aldrei hef ég tekið eftir eins miklum margbreytileika í okkar samfélagi. Mér fannst einnig eins og það væri hægt að skynja ákveðinn létti í fólki. Kannski vegna tíðinda gærdagsins um að myntkörfulán hafi verið dæmd ólögleg, kannski vegna hátíðarinnar og kannski vegna þess að nú er sólin hæst á lofti og þá erum við í essinu okkar :). Amk. ég ;). Kannski þetta allt! Svo er alltaf jafn notalegt að hitta fólk sem maður hefur ekki hitt í langan tíma. Á Íslandi er maður aldrei einn í mannmergðinni.
Ég veitti því þó athygli að mér fannst bera aðeins á unglingum sem voru hálftættir á að sjá. Kannski eru erfiðleikar undanfarinna missera farnir að marka sín spor í unglingana. Það er eitt af því sem ég og margir aðrir hafa haft áhyggjur af. Þennan hóp og ekki síður börnin þarf að standa rækilega vörð um næstu árin, ekki síst á meðan við erum að rétta úr kútnum. Það er óþarfi að skaðinn verði meiri en nú er orðinn. Ekki má spara þar sem í raun á að fjárfesta.
Vona þið hafið öll notið dagsins með bros á vör í góðra manna hópi og flaggað stolt okkar íslenska fána og notið þess að vera innan um okkur hin 317.000 sem erum í raun eins og ein stór fjölskylda, enda ekki fleiri en starfsmenn í meðalstóru fyrirtæki í Bandaríkjunum ;).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.