Föstudagur, 18. júní 2010
Ungt framsóknarfólk ályktar um stöðu námsmanna
Hafa áhyggjur af stöðu námsmanna
Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna lýsir yfir áhyggjum af stöðu íslenskra námsmanna nú þegar til standi að auka enn álögur á þá og skerða framlög til menntamála. Stjórn SUF leggur til að áhersla verði lögð á heildstæðari sparnaðarleiðir s.s. sameiningu eða samstarf háskóla.
Þá er skorað á ríkisstjórnina að koma í veg fyrir að þeir nemendur sem verst sé staddir fjárhagslega og hafi þurft að grípa til úttektar á séreignarlífeyrissparnaði verði ekki fyrir skerðingu á grunnframfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Þetta kemur fram í ályktun SUF, sem er svohljóðandi:
Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna (SUF) lýsir yfir þungum áhyggjum yfir stöðu námsmanna á Íslandi. Ljóst er að sú niðurskurðarkrafa, sem lögð er á fjárframlög til menntamála á vegum ríkisins, kemur til með að draga úr þjónustu og gæðum náms. Stjórn SUF telur ekki rétt að auka enn frekar álögur á námsmenn til dæmis með hækkun skólagjalda, innritunargjalda og annars kostnaðar enda eru kjör námsmanna frekar naum í dag. Frekar ætti að skoða heildstæðari leiðir svo sem með sameiningu eða nánara samstarfi menntastofnana til dæmis háskóla.
Alþingi ákvað á síðasta ári að létta undir með námsmönnum og auka um leið tekjur ríkissjóðs með því að opna á útgreiðslur séreignarlífeyrissparnaðar. Ljóst er að nemendur, sem eiga grunnframfærslu sína að mestu undir Lánasjóði íslenskra námsmanna, fá nú skert lán vegna tekjutengingar námslána eftir að hafa nýtt sér útgreiðslu þessa sparnaðar.
Framtíðaruppbygging lands og þjóðar byggist meðal annars á herðum þeirra sem sækja sér háskólamenntun. Því skorar stjórn SUF á stjórnvöld að tryggja að þeir nemendur, sem verst eru settir og hafa þurft að grípa til úttektar á séreignarlífeyrissparnaði, verði ekki fyrir skerðingu á grunnframfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Taka þarf saman höndum og tryggja að aðgerðir ríkisins hafi ekki öfug áhrif.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.