Hvenær er nóg, nóg?

 

Ég var að horfa á þáttinn Kaupæði sem sýndur var á Rúv áðan. Þessi þáttur vakti mig til umhugsunar um ýmislegt.

Mér þótti áhugavert að sjá umfjöllunina um það hvernig auglýsendur spila inn á tilfinningar fólks og hvernig tilfinningar okkar hlaupa stundum með rökhugsunina í gönur. Við bara verðum að eignast þennan sófa, kjól, bíl, augnskugga, golfkylfu... hvað það nú er. Við erum svo upptekin við það að elta ímynd sem búið er að selja okkur að við finnum ekki okkur sjálf! Það versta af öllu er að neyslusamfélagið keyrir á fullri ferð með börnin okkar í framsætinu sem drekka í sig neyslusýkina með móðurmjólkinni. Flest erum við sek í þessu að einhverju leyti.

Nýleg auglýsing frá Símanum lýsir þessu vel þar sem félagsleg staða einhvers stráks er í stórhættu af því hann tilheyrir ekki "Ring vinahópnum", hann er sökker, sem getur ekki haldið munnvatninu inni í munninum... Eru svona skilaboð heilbrigð börnum og unglingum? Ef þú kaupir ekki af okkur þá ertu útskúfaður, öðruvísi, eineltismatur... Ég sé a.m.k. margt þessari auglýsingu til vansa. Eitt sem nefna má er það að hún birtir þá ímynd að fólk sem getur ekki stjórnað munnvatni sínu séu "sökkerar". Staðreyndin er sú að það er ekki staða sem fólk velur sér en getur þó engu að síður verið í. Það á ekki að hafa neitt með félagslega stöðu að gera, hvort viðkomandi sé í klíkunni, eða skipti við Símann eða ekki.

Það sem mér þótti sláandi í þættinum var að sjá hvernig við Vesturlandabúar erum að tryllast í neyslunni á kostnað alls heimsins. Við kaupum stanslaust nýjan varning þó sá sem fyrir er sé jafnvel í besta lagi. Hér á landi náði þessu einstaklingshyggju græðgisdýrkun hæstu hæðum árið 2007. Þá gekk einstaklingshyggjan svo langt að varla var hægt að fá stæði á Reykjavíkurflugvelli fyrir allar einkaþoturnar... Það segir sig sjálft að svona lifnaðarhættir geta ekki gengið endalaust og munu á endanum ganga af okkur og jörðinni okkar dauðum.

Við verðum að nota okkar miklu greind til þess að hugsa út fyrir eigin þrönga græðgishyggju neyslukassann. Þurfum við að byggja 700 fermetra hús fyrir 7 manna fjölskyldu? Þurfum við 5 bíla? Þurfum við að endurnýja gemsann um leið og ný tækni kemur á markað? Getum við sparað vatnið í stað þess að láta það renna til að "hita sturtuna"? Getum við skipt út glóperunum í sparperur? Getum við endurunnið meira? Getum við skipt út hlutunum þegar þeir eru í alvöru úr sér gengnir en ekki bara til að elta nágrannann, sjónvarpið, hvern sem er í lífsgæðakapphlaupinu? Þurfum við að ferðast um í einkaþotu? Byggir sjálfsmyndin okkar á því? Hvað er þá eftir ef öll orkan fer í að sanna sig með umbúðum? Brotin sjálfsmynd og tómt innihald?

Við þurfum að fara tilbaka í það sem fjallað var um í þættinum - SAMVINNU. Í sameiningu höfum við komist af í þessum heimi og gert kraftaverk. Sömu kraftaverkin og eru að steypa okkur til glötunar núna. Við getum undo-að þau með því að snúa af þessari óheillabraut til betri lífshátta. Íslendingar hafa með samvinnu komist af á þessu harðbýla landi og byggt hér upp glæsilegt samfélag. Samfélag sem hrundi svo 2008 vegna þess að sumir gátu ekki stoppað í neyslu- og einstaklingshyggjunni. Ekkert var nógu stórt. Ekki einu sinni hálfur heimurinn. Það er ekkert þak á stjórnlausri neyslu. Ekki þangað til allt hrynur. Hagkerfið getur ekki endalaust þanist út bara til þess að við getum neytt meira og slegið meira um okkur. Á kostnað náttúrunnar og auðlindanna. Á kostnað annarra jarðarbúa sem eiga ekki aðgang að neysluhlaðborði Vesturlanda.

Hvenær er nóg, nóg? Erum við komin þangað?


mbl.is Ísland af lista yfir áhættusömustu hagkerfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband