Ég er bara eins og ég er!

 

Á morgun ætla ég að fara í gleðigönguna. Ég ætla að fara vegna þess að ég vil styðja við og taka þátt í þeirri frábæru, litríku mannréttindabaráttu sem gleðigangan endurspeglar. Ég fór síðast sumarið 2007 og man enn kærleikann, frelsið og óbeisluðu gleðina sem sveif yfir öllu.

Þetta snýst ekki um kynhneigð. Sjálf hef ég stundum hugsað að lífið væri einfaldara væri ég með konu eftir djúp sár sem ég hef setið eftir með í samskiptum við suma karlmenn. Það getur tekið langan tíma að jafna sig á ástarsorg. Maður er hvergi óhultur og á svona litlu landi getur maður lent í því að rekast á aðilann sem setti veröldina á hvolf hvenær sem er, jafnvel sjá viðkomandi álengdar með nýju kærustunni í kjörbúðinni. Síðar meir getur slíkt andlit hætt að skipta máli, orðið bara kunnuglegt andlit í fjöldanum. En sambönd fólks af sama kyni eru sennilega ekkert einfaldari, þetta snýst allt bara um tvo einstaklinga.

Ég held að þeir sem koma út úr skápnum komi út úr honum mun ríkari manneskjur en þegar þeir voru inni í honum. Að horfast í augu við sjálfan sig og fara á móti straumnum kostar miklar þjáningar. Mestu þjáningarnar eru þær sem skila okkur mestum ávinningi í lífinu. Það þarf alltaf kjark til þess að synda á móti straumnum en geri fólk það er gullpotturinn við enda regnbogans.

Í rauninni held ég að allir þurfi að fara út úr skápnum í lífinu og það hljóti að vera markmið flestra. Að fara út úr skápnum þarf ekkert að þýða að maður komi fram með kynhneigð sína. Að fara út úr skápnum getur merkt þann sigur að geta horfst í augu við sjálfan sig eins og maður er. Með öllu því sem maður hefur gott og slæmt og skilgreinir mann sem einmitt þá manneskju sem maður er. Þess vegna vona ég að við komumst öll einhvern tímann út úr okkar skáp. Við erum öll einstök og eigum að elska okkur sjálf, þakka þá gjöf að fá að vera eins og við erum. Við erum kraftaverk í sífelldri mótun.

Fólkið sem veitir okkur dýpstu sárin er okkar mestu lærisveinar og í raun á maður að þakka þeim. Þakka þeim sem særa mann, koma illa fram við mann, bregðast manni, svíkja mann, valda vonbrigðum, eru keppinautar manns, óvinir eða hvað sem er. Þetta fólk veitir okkur ómetanlegt tækifæri til þess að læra umburðarlyndi, þolinmæði, læra á okkur sjálf og veita okkur sjálfsstyrk. Þannig getum við öðlast samhygð og kærleika sem er lykillinn að því sem við öll erum að leita að, hamingju og öryggi.

Ef allir væru vinir manns, elskuðu mann og myndu færa manni allt sem maður þráði á silfurfati þá myndi maður ekki þroskast eða vaxa mikið sem manneskja.

Næst þegar þú meiðir þig líkamlega þakkaðu þá fyrir að hafa sársaukaskyn því annars gæti farið illa fyrir líkama þínum þar sem hann gæti ekki brugðist við og varið sig. Næst þegar þú mætir þjáningu eða erfiðleikum vegna annars fólks þakkaðu þeim þá fyrir að veita þér þetta tækifæri til þess að verða betri í dag en í gær. Umfram allt taktu þá kjörkuðu sem labba um götur Reykjavíkur á morgun í öllum regnbogans litum þér til fyrirmyndar fyrir að hafa stigið fram, komið út úr skápnum og sigrast á sjálfum sér og heiminum! Það getum við öll.

Fögnum því að vera bara eins og við erum í öllum heimsins litríka margbreytileika :).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svava Halldóra Friðgeirsdóttir

Vildi að ég hefði skrifað þennan pistil. "Big like" á þetta :-)

Svava Halldóra Friðgeirsdóttir, 7.8.2010 kl. 00:51

2 Smámynd: hilmar  jónsson

Flott...

hilmar jónsson, 7.8.2010 kl. 00:55

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Til hamingju með að þora að vera þú sjálf!

Ef fólk er ekki það sjálft er lífið sáralítils virði. Megi þér og okkur öllum með kostum og göllum ganga sem best! M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.8.2010 kl. 01:11

4 identicon

So True! :) Alltaf gaman að lesa þína flottu pistla

Kristrún (IP-tala skráð) 8.8.2010 kl. 06:58

5 identicon

Frábær pistill hjá þér Kristrún!!

Bryndís Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 00:06

6 identicon

Sorry meinti náttúrulega Kirstbjörg :)

Bryndís Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband