Föstudagur, 13. ágúst 2010
Ekkert loft - ekkert fjör! Hinn mikilvægi X factor
Ég ætlaði að njóta hins dulúðlega og hlýja kvölds og skella mér í langþráðan hjólatúr á honum Jensen mínum (fyrir þá sem ekki þekkja til fjölskylduaðstæðna þá er Jensen græni reiðfákurinn minn sem ég fór um allt á í Árósum). En málin æxluðust þannig að hann Jensen minn reyndist vera alveg loftlaus þegar á hólminn var komið og þurfti ég því að leiða greyið á bensínstöðina með von um bót meina okkar. Það gekk ekki betur en svo að ekki var hægt að blása lífi í Jensen þar sem hann er danskur að uppruna og þar er eitthvað annað system á dekkjunum...
En það fékk mig til að hugsa...
Oft höfum við allt sem til þarf en samt komumst við hvorki lönd né strönd. Við höfum hjólið, hjálminn, viljann til að hjóla, vöðvana ofl. Það vantar bara loft, það vantar einhvern óútskýrðan X factor til þess að dæmið gangi upp.
Oft fara hlutirnir bara alls ekki eins og myndin sem við vorum búin að spila í höfðinu á okkur. Í þessu tilfelli var ég búin að sjá okkur Jensen þeysast um hina rómuðu göngustíga meðfram sjónum og anda að mér hlýrri hafgolunni með góða tónlist í Ipodinum. En í staðinn þurfti ég að leiða hann tilbaka.
Kannski er það einmitt það sem við eigum að vera þakklát fyrir. Væri lífið ekki hrikalega leiðinlegt ef allt færi nákvæmlega eins og við værum búin að forrita það? Engar óvæntar uppákomur? Engin loftlaus dekk? Auðvitað verður maður svekktur og pirraður sem fyrstu viðbrögð og í lífinu þegar mjög alvarlegir hlutir breyta stefnu okkar eins og alvarleg veikindi, andlát oþh. þá þarf aðeins meira til en bara rétt að hressa sig við. En það sem ég tel skipta máli er að við eigum alltaf val um það hvernig við tökum á þeim stundum þegar loftið vantar, plön breytast.
Samkvæmt Dalai Lama vini mínum þá er það einmitt hið óvænta, sérstaklega það vonda og erfiða og fólkið sem fer verst með okkur sem við eigum að vera ánægðust með. Því það veitir okkur svo gott tækifæri til þess að vaxa, þroskast, læra umburðarlyndi og þolinmæði. Það kennir okkur betur á okkur sjálf.
Ætla að enda á tilvitnun úr bókinni Leiðin til lífshamingju, Dalai Lama og Howard C. Cutler:
Listin að höndla hamingjuna er spunnin úr mörgum þráðum. Fyrsta skrefið er að þroskast til skilnings á raunverulegum undirstöðum hamingjunnar og veita því forgang að treysta þær. Til þess þarf agaða hugsun. Það tekur langan tíma að uppræta neikvætt hugarfar og rækta í stað þess með sér jákvætt og uppbyggilegt hugarþel svo sem gæsku, umburðarlyndi og sáttfýsi. (bls. 225).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.