Þjóð með skuldaklafa

Næstu dagar eru sögulegir.

Þingmenn fá það vandasama verkefni sem þeim er falið samkvæmt 14. gr. stjórnarskrár að taka ákvörðun um hvort ákæra skuli fjóra fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdómi.

Ekki eru allir á eitt sáttir og mikill titringur ríkir. Mér þykir það áhugavert að menn skuli hreyfa við mótbárum núna þegar í fyrsta lagi þá er þetta grein í gildandi stjórnarskrá sem þingmenn skuldbinda sig til þess að vinna eftir, í öðru lagi þá var vitað allan tímann að þetta gæti orðið niðurstaðan þegar þingmannanefndin var sett á fót og í þriðja lagi ef ekki er ástæða til þess að kalla til Landsdóm þegar algjört hrun verður, hvenær þá? Ráðherrar hafa nefnilega gríðarlegt vald en bera að sama skapi gríðarmikla ábyrgð.

Voru menn svona vissir um að þingmannanefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að kalla saman Landsdóm? Eða erum við orðin svona vön því að fara ekki bókstaflega eftir þeim lögum og reglum sem gilda að menn séu hissa þegar slíkt gerist?

debtÞrátt fyrir að þetta sé stórmál þá held ég að þetta sé ekki það sem brennur mest á hinum almenna borgara í þessu samfélagi.

Nú í haust á ekki að samþykkja frekari frystingar á lánum. Fjöldinn allur af bréfum berst inn um lúgur landsmanna sem tilkynnir nauðungarsölur, fjárnám og annað slíkt. Fjöldi fólks bíður í röð eftir matargjöfum hjálparsamtaka. Mikið álag er á heilsugæslur og heilbrigðisstofnanir vegna andlegrar og líkamlegrar vanlíðunar. Flestir finna á einn eða annan hátt fyrir þeirri streitu, ótta og álagi sem svífur yfir samfélaginu. Rúmlega 12.500 manns voru atvinnulausir í júlí eða 7.5% og talið er að tölurnar hækki í haust og vetur. Ungir námsmenn sem ljúka námi velta því frekar fyrir sér hvert þeir eigi að flytja heldur en hvort. Nú þegar hefur fjöldi þeirra sem flytja af landi brott slegið öll met.

Vandi landsmanna er fyrst og fremst skuldavandi og hann þarf að leysa. Hefðum við ekki verið í talsvert betri málum ef hlustað hefði verið á 20% leiðréttingartillögu okkar Framsóknarfólks? Þá held ég einmitt að meirihluti fólks væri með minni skuldaklafa og meiri kaupgetu sem myndi svo örva efnahagslífið og koma í veg fyrir ómældan sársauka vegna stökkbreyttra lána. Viðbrögð vinstri stjórnarinnar hafa snúist upp í andhverfu sína og hjálpað mest þeim sem háskalegast fóru og fjárfest höfðu mest. Það er fólkið sem er búið að fá afskriftir en ekki hinn almenni borgari sem farið hefur varlega og staðið sína pligt. Sem betur fer tókst þessari blessuðu vinstri stjórn ekki að troða upp á skuldaklafann Icesave því þá myndi vinur okkar hérna á myndinni ekki einu sinni ná að standa í báðar fætur. Hann færi á hliðina.

Þetta eru þau málefni sem stjórnmálamenn og við öll þurfum að leysa í sameiningu næstu vikur og mánuði. Þetta er það sem skiptir þjóðina mestu máli. Þetta er það sem brennur á fólki þrátt fyrir sársaukafull pólitísk uppgjör sem eiga sér stað í þinginu og eru vissulega nauðsynleg líka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband